Millistétt í huganum, lágstétt í veskinu

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Með aukinni menntun hefur fjölgað í millistétt sé miðað við menningarlega og sögulega flokkun. En með fjölgun í millistétt hafa launakjör millistéttarfólks líka dregist saman. Þeim hefur því fjölgað sem sinna hefðbundnum millistéttarstörfum en sem búa við lágstéttarkjör.

Flokkun í stéttir er mis fyrirferðamikil í umræðunni. Í bandarískum stjórnmálum er gerður veigamikill munur á lágstétt og millistétt og stjórnmálamenn ávarpa þessa hópa með ólíkum hætti. Það sem brennur á millistéttinni eru oft hagsmunir sem eru utan seilingar hjá lágstéttinni. Aukið aðgengi að lánsfé og lægri vextir geta bætt húsnæðisstöðu millistéttarinnar á meðan fjölgun félagslegra íbúða og þak á húsaleigu er raunhæfari lausnir gagnvart lágstéttinni.

Andstaða við stéttatali

Á íslandi fer ekki mikið fyrir þessari aðgreiningu. Stjórnmálaumræðan snýst mest um almennar aðgerðir sem ætlað er að bæta hag meðalfólks með meðallaun en síður um sértækar aðgerðir til að mæta þörfum þeirra sem hafa allra lægstu launin eða lífeyrisgreiðslurnar.

Ástæður þessa eru sögulegar. Annars vegar er sú hugmynd rótgróin að Ísland sé stéttlaust samfélag og það sé næstum annarlegt að ræða samfélagsmál út frá stéttarsjónarmiðum. Hins vegar höfum við lifað langt valdaskeið nýfrjálshyggjunnar sem lítur á stétt sem persónulegt mál en ekki félagslegt. Hinn fátæki er ekki fátækur vegna félagslegra aðstæðna sem má laga heldur vegna þess að hann er gallaður ríkur maður. Ef hinn fátæki væri ekki gallaður væri hann ríkur. Besta leiðin til að fækka fátækum er að vinna sig upp úr henni, segja prestar nýfrjálshyggjunnar.

En hver er staðan á Íslandi? Hversu stór er lágstéttin?

Helmingurinn lágstétt

Bandaríkjamenn eru líklegri en Evrópumenn til að búa til skýran greinarmun á millistétt og lágstétt. Þar hafa margar stofnanir reiknað út hvar mörkin liggja; hversu há laun þú þarft að hafa til að geta uppfyllt hefðbundna millistéttardrauma um eigið hús, bíl, eftirlaunasjóð og stuðning við menntun barna.

Ef þessar tölur eru færðar til Ísland og leiðrétt fyrir ólíku verðlagi má segja að rétt tæpur helmingur allra launþegar nái ekki upp í millistétt. Þegar lífeyrisþegum hefur verið bætt við er ljóst að vel rúmur helmingur Íslendinga nær því ekki að afla tekna til að klifra upp í millistétt í Bandaríkjunum.

En þessi samanburður er ekki fyllilega sanngjarn. Þótt íslenska velferðarkerfið hafi verið höggvið mikið niður á undanförnum árum þá þurfa Íslendingar ekki að borga eins mikið úr eigin vasa af velferðarþjónustu og Bandaríkjamenn.

Fátækari fátækir

Í Evrópu er algengara að miða út frá meðallaunum. Þeir eru þá lágstétt sem eru með minna en 20 prósent af meðallaunum og þau lifa við fátækt sem ná ekki hálfum meðallaunum.

Gallinn við þennan samanburð er að launakúrfan er mjög misjöfn milli landa. Á Íslandi eru meðallaunin til dæmis mjög lág í samanburði við næstu lönd og því mælast iðulega tiltölulega fáir fátækir á Íslandi. Þetta sést vel þegar borið er saman ráðstöfunarfé þeirra sem eru skilgreindir fátækir í ólíkum löndum með þessari aðferð. Þá standa fátækir á Íslandi yfirleitt langt að baki fátækum í öðrum löndum.

13 þúsund í örbirgð

Tilraun velferðarráðuneytisins til að mæla annars vegar dæmigerð útgjöld fólks og meta hins vegar grunnframfærslu, lágmark þess sem fólk þarf til að lifa, er athygli verð. Þar vantar reyndar húsnæðiskostnað (leigu, afborganir og vexti, viðhald, rafmagn og hita o.s.frv.) en ef við bætum við áætlum um það getum við dregið línur sem geta markað skil örbirgðar og lágstéttar við grunnframfærsluna, lágstéttar og neðri millistéttar við um 80 prósent af meðalframfærslu og síðan neðri og efri millistéttar við meðalframfærsluna.

Ef við drögum þessar línur síðan eftir reglulegum heildarlaunum fólks, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, kemur í ljós að um 8 prósent launafólks hefur lægri heildartekjur, það er heildarlaun fyrir fulla vinna, en sem nægja fyrir grunnframfærslu. Þetta fólk dregur ekki fram lífið af launum sínum og er háð aðstoð ættingja eða góðgerðasamtaka. Áætla má að þetta séu um þrettán þúsund manns og bætast þeir við hóp öryrkja, ellilífeyrisþega og annarra utan vinnumarkaðar sem berjast daglega við fátækt.

Hér er miðað við einstaklinga. Tveir einstaklingar sem búa saman geta dreift hluta af framfærslubyrðinni, en börnum fylgir hins vegar aukin byrði. Segja má að þetta sé því mælikvarði á stéttarstöðu einstaklinga, hver staða launafólks er án tillits til fjölskyldugerðar.

Meirihlutinn í lág- og lægri miðstétt

Miðað við þessa mælikvarða tilheyrir um 37 prósent vinnandi fólks lágstétt. Þetta er fólk sem hefur ekki laun til að standa undir skuldsettum íbúðarkaupum, er á mörkum þess að eiga fyrir eigin bíl og getur örugglega ekki safnað sparifé. Sögulega er það fólk í þessari stöðu sem hefur knúið á um félagslegar lausnir í húsnæðismálum, almenningssamgöngur og stuðning frá almannatryggingum og/eða skattkerfinu.

Fyrir ofan þennan hóp er neðri millistétt sem eru um 26 prósent launafólks, miðað við þennan mælikvarða. Þetta fólk er á mörkum þess að hafa fjárhagslega getu til að geta safnað upp í útborgun íbúðar, á ekki fyrir bíl nema að neita sér um margt annað og getur í sjálfu sér ekki veitt sér mikið. Hagsmunir þess eru um margt líkir hagsmunum lágstéttarinnar, það hefur sambærilegan hag af uppbyggingu velferðarkerfisins og samneyslunnar.

Screen Shot 2017-04-22 at 09.02.05

Fáir í góðum málum

Miðað við þessar breiðu línur myndu um 26 prósent launafólks flokkast sem efri millistétt. Svo má flokka 3 prósent sem hástétt ef við skerum línuna við þingfararkaup Alþingismanna. Það eru því ekki nema 29 prósent landsmanna sem hafa fjárhagslega burði til að láta hefðbundna millistéttardrauma rætast; eignast eigið húsnæði, bifreið, safnað í varasjóð og búa við fjárhagslegt öryggi.

Það var fólk úr þessum hópi sem fékk mest út úr skuldaniðurfærslu síðustu ríkisstjórnar og á margan hátt hefur stjórnmálaumræða liðinna ára snúist um hagsmuni hans.

Það skýrir að mörgu leyti þá reiði sem blossað hefur upp í tengslum við umræðu um fátækt um síðustu vikum. Stór hluti landsmanna getur miklu fremur tengt við erfiðleika þeirra sem eru að berjast fyrir lífi sínu á mörkum fátæktar og þeirra sem hafa sogast niður í djúpa fátækt, en það fólk sem stjórnvöld virðast miða við þegar þau eru þess fullviss að fólk hafi það gott og sé fullt bjartsýni þegar það horfir fram á veginn. Líklega er sá hópur ekki stærri en sá sem gefur upp stuðning við þessa ríkisstjórn eða flokkana sem standa að baki henni.

Screen Shot 2017-04-22 at 09.00.01

Skipting launafólks í stéttir á Íslandi

Svo skiptist íslenskt launafólk í stéttir á Ísland ef framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins eru notuð til grundvallar. Yst til hægri er launafólk sem nær ekki grunnviðmiðum, getur ekki sinnt grunnþörfum með reglulegum heildarlaunum sínum eftir skatta, lífeyrisiðgjöldum og húsnæðiskostnaði. Þar næst kemur lágstéttin, sem hefur ráðstöfunartekjur eftir skatta, iðgjöld og húsnæðiskostnað frá grunnviðmiðum og upp að 20 prósentum undir dæmigerðum meðalútgjöldum. Þá kemur lægri millistétt sem er með til ráðstöfunar frá meðalútgjöldum og niður í 20 prósent undir meðaltalinu. Millistéttin er síðan með til ráðstöfunar frá meðalútgjöldum og upp að þingfararkaupi, sem er tæp milljón krónur á mánuði. Efst er hástéttin, Alþingismenn og betur settir. (Byggt á framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytisins miðað við einstaklingsframfærslu og upplýsingum Hagstofunnar um reglubundin heildarlaun á vinnumarkaði, uppreiknuð miðað við hækkun launavísitölu.)

Áður birt í Fréttatímanum

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram