Stutt stefna Sósíalistaflokks – remix

Skáldleg yfirferð á stefnunni Pistill

Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaafl alþýðunnar, launafólks og jaðarsettra, hinna arðrændu stétta: vinnandi fólks sem óvinnufærra, skræðunjóla og verkamanna, sjálfstætt starfandi og heimavinnandi karla sem kvenna, bænda, þræla, afdalamanna, útlendinga og miðborgarbúa, hámenntaðra vísindamanna jafnt sem iðnmenntaðra, ómenntaðra og sjálfmenntaðra, málhaltra kjaftastétta, bíllausra atvinnubílstjóra, útlimalausra handahlaupara og svo framvegis og svo framvegis. Við erum alþýðan. Við vitum hver við erum.

Markmið flokksins er samfélag frelsis, jöfnuðar og samstöðu, á grundvelli skilyrðislausrar mannhelgi. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.

Sósíalistaflokkurinn er flokkur allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og mega sín lítils gagnvart valdinu. Andstæðingar Sósíalistaflokksins eru auðvaldið og allir þeir sem ganga erinda þess. Stéttabarátta er staðreynd. Sósíalistaflokknum er ætlað lykilhlutverk í stéttabaráttu sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu, og boðar breiða samstöðu hinna kúguðu og jaðarsettu á kostnað valdastétta þjóðfélagsins. Án samstöðu er enginn sósíalismi.

Erindi Sósíalistaflokksins snýst um það sem sameinar okkur: óréttlætið sem við mætum og vilja okkar til að losna undan því. Öllum þátttakendum í íslensku samfélagi er boðið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú, ríkisfangi eða kynhneigð. Sósíalistaflokkur Íslands brúar gjána milli landsbyggðar og borgarsamfélags. Byggðastefna er jafnaðarstefna.

Sósíalistaflokkurinn vill að sköpulag samfélagsins ráðist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf alþýðan að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – kirkjan, knæpan og kaffihúsið, hvers vegna ekki? – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.

Fyrstu baráttumál Sósíalistaflokks Íslands eru þessi:

  1. Rétturinn til lífsviðurværis: Öllum landsmönnum verði tryggð mannsæmandi kjör, hvort sem þeir eru launamenn, frílansandi, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.
  2. Rétturinn til heimilis: Friðhelgi heimilisins er æðri fjármálagjörningum og skal tryggt með öruggu og ódýru húsnæði í lífvænlegu samfélagi, hvort sem er í dreifbýli eða þéttbýli.
  3. Rétturinn til velferðar: Skorin verði upp herör gegn viðskiptavæðingu velferðarkerfisins. Tryggð skal gjaldfrjáls menntun á öllum skólastigum, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, gjaldfrjálst velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólks í landinu og gjaldfrjálst aðgengi að menningu.
  4. Rétturinn til tíma: Vinnustundum verði fækkað. Þannig batna lífsgæði fólksins í landinu um leið og þeim er auðveldað að taka virkan þátt í mótun samfélagsins.
  5. Það sem sameinar ofantalið heitir jöfnuður. Með jöfnuð að leiðarljósi skal skattheimta endurskipulögð með það fyrir augum að auðstéttin greiði eðlilegan og lífsnauðsynlegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram