Mikið tjón af 5% þröskuldinum en lítið af fjölda flokka

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Þrátt fyrir að það sé lífseig kenning að vinstrafólk hafi dregið úr framgangi sósíalismans íslensku samfélagi með sundrung og klofningi þá er ekki hægt að finna neinn fót fyrir þessari kenningu í kosningaúrslitum liðinna ára. Það má vissulega benda á skaðann af skiptingu sósíalista milli Alþýðuflokks og Kommúnistaflokks, og síðar Sósíalistaflokks, meðan hér voru einmenningskjördæmi en síðan eru liðin meira en sjötíu ár. Með færri kjördæmum með fleiri þingmönnum dró úr skaðanum og í núverandi kosningakerfi er ekki hægt að finna sönnur þess að sósíalistar myndi ná meiri árangri í kosningum verandi í einum flokki fremur en mörgum.

Það má hins vegar benda á hvernig 5% þröskuldurinn sem Samfylkingin og Vinstri græn féllust á þegar Sjálfstæðisflokkurinn óttaðist klofning til hægri eftir framboð Frjálslynda flokksins 1999 hafi valdið vinstra fólki miklum skaða og tryggt hægri flokkum völd umfram raunverulegt fylgi sitt. Afstaða Samfylkingarinnar og VG byggðist á sama ótta og sjálfstæðismenn báru í brjósti; þessir flokkar vildu girða fyrir samkeppni til að tryggja sjálfum sér völd. Þeir kusu eigin völd fram yfir lýðræðið og vilja kjósenda.

En skoðum kosningar síðustu tuttugu árin.

Frjálslyndir skelfa sjálfstæðismenn

Sverrir Hermannsson stofnaði Frjálslynda flokkinn fyrir kosningarnar 1999 eftir að Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, hafði hlutast til um að hann var rekinn sem bankastjóri Landsbankans. Frjálslyndir fengu 4,2% atkvæða og tvo þingmenn kjörna, annan kjördæmakjörinn í Vestfjarðarkjördæmi en hinn sem uppbótarmann.

Til að girða fyrir svona uppákomur í framtíðinni hlutuðust sjálfstæðismenn til um breytingar á kosningalögum. Markmiðið var að hindra Sverri og menn af hans sauðahúsi frá að komast á þing. Kjördæmin voru stækkuð svo að fólk með mikinn stuðning í einum landshluta gæti náð kjöri sem kjördæmakjörnir þingmenn og sett var 5% þröskuldur áður en framboð kæmi til greina við útdeilingu.

Þótt svona þröskuldar þekkist í sumum löndum er hann hvergi hærri en á Íslandi. Þessar breytingar á kosningalögunum voru því sérlega ósvífnar og augljóslega til að verja þrönga hagsmuni þeirra þingflokka sem samþykktu breytingarnar. Ég man ekki hvort Davíð henti einhverjum beinum til Samfylkingar og VG, svipað og þegar hann hækkaði þingfarakaup flokksformanna þegar hann fékk þessa flokka til að samþykkja hækkun eigin ellilífeyris, en það má vera að sameiginlegir hagsmunir þessara flokka um að hindra samkeppni frá vinstri hafi ráðið afstöðu þeirra á sama hátt og sjálfstæðismenn töldu að þessar breytingar myndu stöðva hugrenningar óþekkra fyrrum þingmanna flokksins um klofing eða sérframboð.

Það skrítna er að framboð Frjálslyndra raskaði sáralítið hinu pólitíska jafnvægi í kosningunum 1999. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hélt góðum meirihluta 38 þingmanna, Framsókn hafði tapað þremur þingmönnum en Sjálfstæðisflokkurinn unnið einn þrátt fyrir klofning Frjálslyndra. Frjálslyndir drógu líka nokkra athygli frá Samfylkingunni og VG, sem buðu fram í fyrsta sinn. Samfylkingin fékk 17 þingmenn og VG 6. Vinstrið fékk því samanlagt 23 þingmenn á móti 40 þingmönnum hægri og miðjunnar. Þetta var óbreytt staða frá kosningunum 1995. Skipting þingsæta var í fullkomnum takti við fylgi flokkanna.

Og það hefðu engu breytt þótt Samfylkingin og VG hefðu boðið fram saman. Sameinað framboð hefði fengið 23 þingmenn. Sundrung vinstrimanna breytti engu.

Þótt 5% þröskuldurinn hafi verið settu Frjálslynda flokknum til höfuðs tókst Guðjóni A. Kristjánssyni tvívegis að svífa yfir hann með flokk sinn og fataðist ekki flugið fyrr en eftir Hrun þegar kjósendur fengu meiri áhuga á öðrum kerfisumbótum en sanngjörnu kvótakerfi.

Frjálslyndir sleppa í gegn

Frjálslyndi flokkurinn var aftur senuþjófur í kosningunum 2003. Frambjóðendum hans tókst að gera kvótamálið að kosningamáli og gömlu stofnanaflokkarnir lofuðu allskonar breytingum á kvótakerfinu í aðdraganda kosninganna, sem þeir að sjálfsögðu sviku síðan samviskusamlega.

Frjálslyndir fengu heil 7,4% atkvæða og fjóra þingmenn kjörna. Meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar féll niður í 34 þingmenn, það voru sjálfstæðismenn sem töpuðu fjórum þingmönnum og úrslitin urðu mikið persónulegt tap fyrir Davíð Oddsson, sem dró sig í hlé á kjörtímabilinu.

En ef við flokkum Frjálslynda til hægri þá varð lítil breyting á fylgi mið-hægri-blokkarinnar og vinstriflokkanna. Samfylkingin bætti við sig þremur mönnum en VG missti einn. Vinstriflokkarnir hefðu ekki náð meiri árangri sameinaðir, hefðu eftir sem áður fengið 25 þingmenn á móti 38 þingmönnum á hægri-miðjunni.

2003 buðu Nýtt afl Guðmundar G. Þórarinssonar og Jóns Magnússonar fram en fengu svo fá atkvæði að þeir koma ekki frekar við sögu.

Eins og 1999 var skipting þingsæta í fullkomnum takti við fylgi flokkanna 2003.

Íslandshreyfingin varð fyrsta fórnarlamb 5% þröskuldsins, fékk ekki þá tvo þingmenn sem hún hefði átt að fá miðað við sanngjarna útdeildingu þingmanna. Í stað umhverfissinnanna í Íslandshreyfingunni settist einn sjálfstæðismaður til viðbótar og einn Samfylkingarmaður á þing.

Íslandshreyfingunni haldið úti

Í kosningunum 2007 nýttist breytt kosningakerfi gömlu flokkunum hins vegar. Þá bauð Ómar Ragnarsson og fleiri fram Íslandshreyfinguna, flokk náttúrusinna, sem fékk 3,3%. Það hefði dugað flokknum til úthlutunar þingsæta í flestum löndum, 3% er algengur þröskuldur þar sem slíkt er á annað borð við líði.

Ef við skiptum þingsætum eftir fylgi flokkanna hefði Íslandshreyfingin átt að fá tvo þingmenn og hefði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin þá fengið einum færri hvort. Við þetta hefði meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar fallið, en flokkarnir héldu minnsta meirihluta eftir kosningarnar, 32 þingmönnum. Framsókn hafði tapað fimm þingmönnum og var í hálfgerðum sárum. Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði unnið þrjá þingmenn leyst ekki á samstarf við Framsókn í þessu standi, töldu háskalegt að treysta á órólega þingmenn á borð við Bjarna Harðarson, og valdi að fara í ríkisstjórn með Samfylkingunni.

Ef við sameinum fylgi Samfylkingarinnar, VG og Íslandshreyfingarinnar hefði sá flokkur fengið 28 þingmenn, einum fleiri en Samfylkingin og VG fengu í kosningunum, en einum færri en flokkarnir þrír hefðu fengið ef 5% þröskuldurinn hefði ekki tekið tvo þingmenn af Íslandshreyfingunni.

Það var því 5% þröskuldurinn sem tryggði Sjálfstæðisflokknum og Framsókn minnsta mögulegan meirihluta og sjálfstæðismönnum þar með lykilstöðu í stjórnarmynduninni. Flokkurinn gat hótað Samfylkingunni áframhaldandi stjórnarsamstarfi við Framsókn og fengið með því allt sem hann bað um í nýju samstarfi með Samfylkinguna. Sú stjórn varð líka mikil hægristjórn, rak áfram nýfrjálshyggna efnahagsstefnu og það er erfitt að benda á hvað kjósendur Samfylkingarinnar fengu út úr þessu samstarfi.

Ef Samfylkingin, VG og Íslandshreyfingin hefðu boðið fram saman hefði staðan orðið sú að sá flokkur hefði fengið 28 þingmenn og gömlu stjórnarflokkarnir 31 þingmann, einum færri en þarf til að fylla upp í minnsta meirihluta. Þá hefði sameinaði vinstriflokkurinn getað myndað stjórn með Frjálslynda flokknum með minnsta meirihluta um breytt kvótakerfi eða 35 manna meirihluta með Framsókn um umsókn um aðild að Evrópusambandinu (jú, einmitt, Framsókn var Evrópuflokkur á þessum árum).

Síðan kom Hrunið

5% þröskuldurinn þurkaði Frjálslynda flokkinn út í kosningunum 2009. Ef allrar sanngirni hefði verið gætt hefði flokkurinn fengið einn þingmann og Sjálfstæðisflokkurinn einum færri.

Hrunið tætti níu þingmenn af Sjálfstæðisflokknum, hann hefði misst tíu ef 5% þröskuldurinn hefði ekki varið hann. Borgarhreyfingin flaug yfir þennan þröskuld og fékk fjóra þingmenn. Vinstri hreyfingin bætti við sig fimm mönnum og Framsókn og Samfylkingin sitt hvora tvo.

Sameinað framboð Samfylkingar, VG og Borgarhreyfingarinnar hefði fengið 38 þingmenn, það sama og þessir flokkar fengu í kosningunum. Sundrungin á vinstri vængnum breytti því engu í þessum kosningum. 5% þröskuldurinn tók hins vegar þingmann af Frjálslynda flokknum, sem koðnaði niður og hvarf úr sögunni.

Flokkur fólksins hefði fengið tvo menn kjörna á Alþingi 2013 ef stofnanaflokkarnir hefðu ekki vilja verja sig löngu tímabærri uppstokkun flokkakerfsins með 5% þröskuldi á útdeilingu uppbótaþingmanna.

Þrír flokkar sviptir þingmönnum

Kosningalögin unnu vinnuna fyrir stofnanaflokkana í kosningunum 2013. Eftir kjörtímabil mikilla vonbrigða buðu margir flokkar sig fram og þrír þeirra hefðu náð mönnum á þing ef 5% þröskuldurinn hefði ekki varið stærri flokkana. Með allir sanngirni hefði Flokkur heimilanna (Pétur Gunnlaugsson) átt að fá tvo þingmenn, Dögun (Margrét Tryggvadóttir) tvo og Hægri grænir (Guðmundur Franklín Jónsson) og Lýðræðisvaktin (Þorvaldur Gylfason) sitthvorn. Þess í stað fékk Framsókn þrjá auka þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Björt framtíð einn hvert. 5% þröskuldurinn stækkaði því meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins úr 35 þingmönnum í 38 þingmenn.

Ef við sameinum Samfylkinguna, VG, Bjarta framtíð (jú, við hefðu sett þann flokk þarna megin 2013), Pírata, Dögun, Lýðræðisvaktina, Regnbogann, Sturlu Jónsson, Húmanista og Alþýðufylkinguna í einn flokk hefði sá flokkur fengið 28 þingmenn kjörna, eða þremur fleiri en þessir flokkar fengu samanlagt í kosningunum og sama þingmannafjölda og ef 5% þröskuldurinn hefði ekki fellt einn þingmann Lýðræðisvaktarinnar og tvo frá Dögun út af Alþingi. Það hefði því skilað umbótaflokkum á mið-vinstrivængnum sömu stöðu að losna við 5% þröskuldinn en að sameinast í einum breiðum (og útvötnuðum) flokki.

Eini hvatinn til sameiningar hefði því verið að yfirvinna annmarka 5% þröskuldsins. Sundrung umbótaaflanna, ef svo má taka til orða, er því ekki vandamál í núverandi kosningakerfi (stærð kjördæma og fjöldi þingmanna) heldur virkar 5% þröskuldurinn, sem fjórflokkurinn setti upp til að vernda eigin völd, sem letjandi afl gegn umbreytingu stjórnmálanna. Hann er sambærilegur öðrum vörnum fákeppnisaðila fyrir samkeppni, sem samfélagið er uppfullt af.

En hvort sem 5% þröskuldurinn hefði verið felldur burt eða allur mið-vinstri-armurinn sameinast í einn flokk hefði Framsókn og Sjálfstæðisflokkurin líklega myndað stjórn. En þingheimur 2013-2016 hefði orðið líflegri án 5% þröskuldsins:

Sjálfstæðisflokkur: 18 þingmenn
Framsókn: 16 þingmenn
Flokkur heimilanna: 2 þingmenn
Hægri grænir: 1 þingmaður
Björt framtíð: 5 þingmenn
Lýðræðisvaktin: 1 þingmaður
Píratar: 3 þingmenn
Dögun: 2 þingmenn
Samfylkingin: 8 þingmenn
VG: 7 þingmenn

Inga Sæland hefði farið á þing við annan mann ef 5% þröskuldurinn hefði ekki verið settur á sínum tíma til að forða klofningi gömlu flokkanna. Þess í stað fjölgaði um einn í þingflokkum Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Allt í nafni lýðræðisins.

5% þröskuldurinn forsenda núverandi ríkisstjórnar

Í haust spilaði 5% þröskuldurinn aftur völdunum til Sjálfstæðisflokksins. Án hans hefði Flokkur fólksins (Inga Sæland) fengið tvo þingmenn og Dögun (Ragnar Þór Ingólfsson) einn en Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Píratar einum færri hver. Samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar aðeins náð 31 þingmanni og ekki náð að mynda ríkisstjórn.

Draumaríkisstjórn Morgunblaðsins og ýmissa áhrifamanna innan VG; Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og VG, hefði haft 37 þingmenn á bak við sig í stað 39. Lækjarbrekkukvartettinn (Píratar, VG, Samfylking og Björt framtíð) hefði fengið 26 þingmenn í stað 27.

Ef við sameinum VG, Samfylkinguna, Bjarta framtíð (jú, einmitt vegna Lækjarbrekku, samband Óttarrs og Benedikts var ekki til fyrir kosningar), Pírata, Dögun, Húmanista og Alþýðufylkinguna hefðu þessir flokkar fengið 29 þingmenn í stað þeirra 27 sem flokkarnir fengu í sitthvoru lagi. Annar kemur vegna þess að Dögun missti þingmann vegna 5% þröskuldsins. Á hans hefði Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn fengið einum færri hvor flokkur. Þetta er eina dæmið þar sem þingmenn færast frá hægri til vinstri við sameiningu á vinstri vængnum. En þar sem Dögun á í raun annan þingmanninn er tilflutningurinn aðeins einn maður vegna sameiningar.

Ef við sameinum hins vegar fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefðu þeir flokkar fengið 12 þingmenn samanlagt í stað 11 og vinstri flokkarnir, Dögun og Píratar 24, sama þingmannafjölda og flokkarnir hefðu fengið í sitthvoru lagi án 5% þröskuldsins.

Þingmenn hefðu skipst svona milli þessara (ímynduðu) flokka:

Framsókn: 7
Sjálfstæðisflokkur: 18
Viðreisn/Björt framtíð: 12
Vinstri, Píratar og Dögun: 24
Flokkur fólksins: 2

Goðsögn og þversögn

Af þessari yfirferð er ekki hægt að finna neina sönnun þess að valdaleysi sósíalista á síðari árum megi rekja til sundrungar. Þvert á móti má halda því fram að tilraunir Samfylkingar og VG til að draga úr sundrung með því að setja á 5% þröskuld áður en framboð fá úthlutað uppbótarsæti hafi aukið vald hægrimanna og komið í veg fyrir þá pólitísku endurnýjun sem kjósendur hafa kallað eftir.

Þetta má orða sem svo að tilraun Samfylkingarinnar og VG til að verja eigin stöðu hafi skaðað framgang sósíalískra sjónarmiða og fært íhaldsöflunum sterkari stöðu í íslenskum stjórnmálum. Samfylkingin og VG hafa kosið að vera fremur stórir ráðandi flokkar í staðnaðri stjórnarandstöðu gagnvart hægri flokkunum en að opna fyrir þá pólitísku endurnýjun sem kjósendur hafa hrópað á.

Í þessu ljósi er fráleitt hversu mikilli orku fólk í Samfylkingunni og VG eyða í ásakanir um sundrung til þeirra sósíalista sem eru ósáttir við stefnu þessara flokka. Það ætti að eyða orku sinni til einhvers betra. Til dæmis að tryggja þeim kjósendum, sem hafa krafist uppstokkunar stjórnmálanna á undanförnum árum með því að kjósa nýja flokka, rödd á Alþingi.

Gunnar Smári

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram