Nei, gott fólk vantar skárri fyrirtæki og betri stjórnmál

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar náði helmingur ræstingarfólks og aðstoðarfólks í mötuneytum ekki 277 þúsund krónum í grunnlaun í fyrra. Fyrir fulla dagvinnu að viðbættum bónusum og öllum launatengdum greiðslum náði helmingur ræstingarfólks og aðstoðarfólks í mötuneytum ekki 332 þúsund krónum í laun. Það gaf um 252 þúsund krónur í launaumslagið, eftir skatta og lífeyrisiðgjöld. Það er sú upphæð sem verkafólk í þjónustu fyrirtækja á borð við ISS fékk í fyrra til að lifa af mánuðinn.

Meðalleiga fyrir tveggja herbergja íbúð í Reykjavík var í fyrra um 2950 kr. fermetrinn, um 147.500 krónur fyrir 50 fermetra íbúð. Einstaklingur með 332 þúsund krónur í laun á mánuði fengi um 26.500 krónur í húsnæðisbætur. Húsaleigan væri þá 121 þúsund krónur. Gerum ráð fyrir 131 þúsund krónur með rafmagn og hita.

Samkvæmt útreikningum velferðarráðuneytisins eru grunnviðmið framfærslu, það er lágmarkið sem einstaklingur þarf til að komast í gegnum mánuðinn, um 93 þúsund krónur að frádregnum húsnæðiskostnaði.

Það er margt undarlegt í þessum útreikningum ráðuneytisins. Til dæmis er kostnaður við samgöngur kr. 7.833 á mánuði þótt strætókort kosti 11.750. Án korts duga 7.833 kr. ekki fyrir 19 ferðum á mánuði, fjórum á viku.

Samkvæmt ráðuneytinu getur einstaklingur lifað af með því að kaupa mat fyrir 1.137 kr. á dag. Eitt egg kostar rúmar 50 krónur og inniheldur um 67 kaloríur. Kona í verkamannavinnu kemst ekki af með minna um 2300 kaloríur á dag, álíka og finna má í um 34 hráum eggjum. Þau kosta hins vegar 1.700 krónur eða rúmum 17 þúsund krónum meira á mánuði en velferðarráðuneytið reiknar með að fólk komist af með í mat yfir mánuðinn. Nú má vera að til sé matur sem er ódýrari en egg á hverja hitaeiningu, en það er líka til matur sem er miklu dýrari.

Annað er eftir þessu hjá ráðuneytinu. Grunnviðmið ráðuneytisins er því algjört hundalíf. Og dygði ekki til þess, því hundamatur er nokkuð dýr.

Eftir að hafa unnið fulla vinnu hjá ISS, eða sambærilegum fyrirtækjum sem selja öðrum fyrirtækjum verkafólk, fær helmingur starfsfólksins minna en 252 þúsund krónur útborgað. Eftir að hafa greitt húsaleigu, rafmagn og hita á það 121 þúsund krónur til að mæta öllum öðrum útgjöldum. Ef fólki tekst að halda sig innan hundalífs-viðmiðunar ráðuneytisins eru 28 þúsund krónur eftir. 920 krónur á dag. Ef við setjum inn strætókort í stað áætlunar ráðuneytisins breytast þessar 920 krónur í 791 krónu. Ef við notum verð á eggjum sem grunnviðmið á hverja hitaeiningu í stað áætlunar ráðuneytisins er akkúrat ekkert eftir.

Helmingur verkafólks sem starfar við ræstingar eða í mötuneytum hjá fyrirtækjum á borð við ISS rétt þraukar í gegnum mánuðinn. Þetta fólk er sannanlega innan marka þess sem kallast working poor á ensku, fólks sem glímir við fátækt þrátt fyrir að skila af sér fullri vinnu. Ef fólk í þessari stöðu vill hefja sig upp úr fátækt verður það að bæta við sig vinnu númer tvö og þrjú, vinna nánast allan vökutíma sinn. Fyrir þessu fólki er hundrað og fimmtíu ára krafa verkafólks um 8 stunda vinnudag óraunhæf draumsýn.

Fyrir hundrað og fimmtíu árum krafðist verkafólk 8 stunda vinnudags svo það gæti hvílst þriðjung dagsins, unnið þriðjung og notið félagslífs, fjölskyldu, áhugamála og endurnæringar þriðjungs dagsins. Það var fólki ljóst fyrir 150 árum að vinna umfram 8 tíma á dag myndi annað hvort ganga á nauðsynlegan svefn og hvíld eða nauðsynlega endurnæringu sálar og andlegs ástands. Og við vitum þetta vel enn í dag, mannfólkið hefur ekkert breyst. Það er hins vegar enginn áhugi fyrir því í samfélaginu að stefna að þessu markmiði. Ekki fyrir alla. Þess í stað verðlaunar samfélagið þá sem mest svína á starfsfólki sínu, borga því lægstu launin og þræla því út. Afleiðingin er óþarfa þjáning fjölda fólks sem birtist í brotnum draumum, veikri félagslegri stöðu, óhamingju og vonleysi. En einnig í niðurbroti líkamans vegna þrælkunar og sálarinnar vegna skorts á hvíld og endurnæringu. Aukin vinnuþrælkun er meginástæða versnandi heilsu og fjölgun öryrkja. Það er gjaldið sem samfélagið sem heild greiðir svo eigendur ISS og annarra þrælafyrirtækja geti dregið til sín meiri hagnað. Við borgum þeim hagnaðinn með auknum útgjöldum vegna heilsubrests starfsfólksins. Starfsfólkið borgar þeim hagnað með lífi sínu og heilsu.

Hér að ofan var tekið dæmi af miðgildi reglulegra launa ræstingarfólks og aðstoðarfólks í mötuneytum. Helmingur þess fólks lifir við lakari kjör en hér hefur verið still upp. Ef við notum frekar neðri fjórðungsmörk, það er mörkin á milli þeirra 25 prósenta sem hefur lægstu launin og hinna; þá lítur dæmið svona út: Þú ert með 301 þúsund krónur í laun á mánuði eða minna. Þú borgar 65 þúsund krónur í skatt og lífeyrisiðgjöld og færð 234 þúsund krónur útborgað. Eða minna. Af þeim fara 147.500 krónur í húsaleigu en á móti færðu 29 þúsund krónur í húsnæðisbætur. Húsnæðiskostnaður með rafmagni og hita er þá 128.500 krónur og samkvæmt hundalífsmælikvarða velferðarráðuneytisins áttu 410 krónur á dag eftir. Sem dugar ekki til að vega upp augljósar villur í útreikningi ráðuneytisins. 410 krónur er ein vanáætluð strætóferð. Og þá áttu ekki fyrir einu eggi.

Lífskjör láglaunafólks á Ísland eru til fullkominnar skammar. Fyrir okkur öll. Eitt er að verið sé að klípa tugir þúsunda í skatta af fólki sem á ekki fyrir mat. Annað er að fyrirtæki komist upp með að hirða af fólki orkuna án þess að borga fyrir það pening sem dugar til að viðhalda orkunni. Það er þrælahald. Þrælahald sem er ekki sjálfbært heldur brýtur niður þrælahjörðina. Og ríkið skattleggur þrælana – ekki þrælahaldarana. Það er hvergi í okkar heimshluta lagður jafn mikill tekjuskattur á láglaunafólk. Og hvergi jafn lítill tekjuskattur á fyrirtæki og hvergi jafn lítill skattur á eigendur fyrirtækjanna þegar þeir draga til sín arð upp úr rekstrinum.

Hvers vegna? Kannski vegna þess að við veljum okkur forsætisráðherra úr fjölskyldunni sem á ISS, eitt helsta þrælafyrirtæki landsins.

Það er eitthvað sorglega hlægilegt við að fyrirtæki eins og ISS auglýsi eftir góðu fólki. Til að misnota og arðræna. Það væri réttara að gott fólk myndi krefjast þess að fá almennileg fyrirtæki sem greiða fólki mannsæmandi laun og stjórnmálaflokka sem berjast fyrir hagsmuni góðs fólks sem þrælar í ömurlegum fyrirtækjum og býr við andstyggilegt þjóðfélagskerfi, sem þjónar fyrst og fremst undir rassgatið á versta fólkinu. Því sem á og rekur þrælakisturnar. Og lifir af þeim góðu lífi. Með því að neita góða fólkinu um mannsæmandi líf.

Gunnar Smári Egilsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram