Þetta kemur okkur öllum við

Símon Vestarr Frétt

Þegar ég les frétt af því að maður hefði boðist til að lækka leiguverð konu í fjárkröggum gegn því að hún svæfi hjá honum eru fyrstu viðbrögð hjá mér vonleysi yfir því hversu langt er í land með að við #virðumsysturnar. Að minnsta kosti eru margir okkar sorglega langt frá því.

Þegar fjallað er um ójöfnuð fer það yfirleitt fram á blóðlausan hátt; tölur eru dregnar fram, vinstri menn tala um skekkju og hægri menn saka þá um að búa tölfræðina til í þeim tilgangi að skattpína fólk. Þetta er orðin svo mikil klisja að við kunnum viðbrögð stjórnmálamanna utanbókar. Og við höldum ekki athygli við þetta af því að einhver með bindi fer að tala um vísitölu og við vorum alltaf léleg í stærðfræði í skóla (alla vega ég) og alvarleiki málsins hittir okkur ekki í andlitið.

Ekki fyrr en svona frétt kemur út.

Þetta snýst nefnilega ekki bara um karla og konur og virðingarhallann þeirra á milli, þótt þar sé svo sannarlega pottur brotinn. Fréttin hefði nefnilega verið jafnljót ef leigusalinn hefði verið samkynhneigður og krafið karlkyns leigjanda um sams konar þjónustu. Köfum aðeins dýpra og sjáum hversu ómanneskjuleg samskipti okkar geta orðið þegar ein manneskja er í aðstöðu til þess að króa aðra manneskju af einfaldlega vegna misjafnrar efnislegrar stöðu. Sjáum hvað peningar geta keypt þegar öll sund eru lokuð. Horfum ekki undan heldur látum okkur svíða það í augum hvers konar kringumstæður við framköllum með því að sætta okkur við það að fólki sé att út í örvæntingu og vonleysi!

Við gerum það með atkvæðum okkar.

Við berum ábyrgð á því sem gerist á Íslandi. Við erum þjóðfélagsþegnar í lýðræðisríki og neyð samborgara er neyð okkar. Þau eru bræður okkar og systur. Aðstöðumunur eins og sá sem fréttin í DV greinir frá er ekki einangrað atvik sem hefur bara með pervertisma eins karlpungs að gera heldur öskrandi viðvörun til okkar um það hversu mikilvægt það sé að stuðla að efnahagslegum jöfnuði. Að brjóta niður þau manngerðu auðbákn sem standa í vegi fyrir því að Ísland geti útvegað fólki þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, aðgang að námi og heilbrigðisþjónustu, og tækifæri til að láta gott af sér leiða.

Ég er mannlegur eins og aðrir og get því tapað mér í beiskju í aðdraganda kosninga og kallað þjóna auðvaldsins illum nöfnum. Þetta leggst skiljanlega illa í þá sem þekkja fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn og þeirra líka í hvert skipti sem kjörseðill er settur fyrir framan það. Fólk sem mér þykir vænt um gerir þennan óhugsandi hlut líka. Það fólk er ekki vont, bara svo því sé haldið til haga. Og eignamenn sem vefja krumlunum utan um lýðræðislegar stofnanir okkar og varna því að við náum að gera neinar breytingar í þágu þeirra sem minna mega sín? Nei, þeir eru ekki vondir heldur. Orðið illska er gildishlaðið og innantómt. Notum frekar orðið „meðvitundarleysi.“

Málið er bara að á morgun kjósum við og þá skiptir máli að meðvitundarleysið fái ekki að halda áfram. Auðmenn ættu að sjá sóma sinn í að láta stjórnmál eiga sig. Allt sem þeir gera er mögulegur hagsmunaárekstur. En á meðan þeir bjóða fram krafta sína í stjórnmálastarf þá er það á ábyrgð okkar að neita þeim um umboð okkar. Eins og maður myndi neita drukknum manni um bíllyklana hans. Peningar eru ekki bara tölur á blaði. Misskipting er ekki bara fokking reikningsdæmi. Hún er dýflyssa þar sem ein persóna þarf að framselja sjálfsvirðingu sína til að hljóta sjálfsögð mannréttindi frá hendi annarrar.

 Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram