Varkárni og heigulsháttur
Pistill
06.02.2018
Vofa leikur ljósum logum um ganga aðildarfélaga ASÍ. Vofa stéttabaráttu. Og þegar vofur leika lausum hala þá vaknar spurningin: Í hvern á að hringja? Vofubanar hafa stigið fram eins og við var að búast og áherslupunktar þeirra eru eins gegnsæir og orðavalið. Eins og presturinn Cornell West bendir á er ekki hægt að hotta á baki fólks nema það sé bogið og verkalýðurinn hefur á undanförnum mánuðum tekið upp á því að rétta úr sér. Skrítin bandalög verða til í þeirri viðleitni að berja niður þessa tilhneigingu og skyndilega verða grundvallarforsendurnar óþægilega ljósar.
Koss dauðans
Kjörnir fulltrúar þurfa oft að berja frá sér fleira en andstæðinga. Oftar en ekki lenda þeir í því að þurfa að berja frá sér samherja sem eru á einhvern hátt óheppilegir. Afgerandi stuðningsyfirlýsing frá fyrirlitinni manneskju er oft verri en ekkert. Þetta hefur stundum verið kallað „koss dauðans.“ Síðastliðið haust reyndu svonefndir Huginn og Muninn (hugaðri voru þeir ekki en svo að fela sig bak við dulnefni) að ýja að því að Ragnar Þór Ingólfsson hefði hlotið slíkan koss á ennið þegar Gunnar Smári Egilsson lýsti yfir ánægju með áherslur hans og bauð honum að halda ræðu þann fyrsta maí síðastliðinn á Austurvelli. Viðskiptapennarnir í krummabúningunum stóluðu aukinheldur á það að orðið „sósíalismi“ myndi duga til að ófrægja Ragnar svo rækilega að enginn myndi taka hann alvarlega eftir það.
Nú er auðvitað orðið morgunljóst hverjum þeim sem fylgist með stjórnmálahræringum að tilraunir sem þessar eru einungis til þess fallnar að springa í andlitið á þeim sem beita þeim. Enginn er hræddur við sósíalisma lengur og mega krummarnir hjá VB þakka auðmönnunum sem stýrðu kapítalismanum í strand árið 2008 fyrir þá breytingu. Og persóna Gunnars Smára skiptir flesta mun minna máli en sú þjóðmálabylting sem hinn nýstofnaði Sósíalistaflokkur boðar. Þetta er eitt sem Viðskiptablaðshrafnarnir klikka á; öllum er drullusama um persónuríg valdafígúra. Þannig að undirtitill þessarar hlægilegu atlögugreinar opinberar í raun ekki neitt annað en það hversu glórulausir höfundarnir eru hvað varðandi viðhorf almennings:
Í dag stendur VR fyrir „virðingu“ og „réttlæti“. Ragnar Þór hefur hvorki sýnt sögu félagsins virðingu né heldur forvera sínum í starfi.
Félagsmenn VR kusu nefnilega Ragnar ekki til að lúta höfði frammi fyrir forverum sínum, ótrúlegt en satt, heldur til að standa vörð um virðingu og réttlæti á vinnustöðum. Virðingin snýr að launafólki en auðvitað er skiljanlegt að pennar þessa blaðs haldi að stéttarfélögin hafi verið stofnuð til þess að viðhalda heiðri mikilmenna og hafi aldrei „haft nein sérstök tengsl við sósíalisma.“ Sósíalismi er stéttabarátta og ef stéttabarátta er ekki í verkahring verkalýðsfélags, hvers vegna eru þau þá til?
Gylfi fær koss á hægri kinn
Því þótti mér kaldhæðnislegt að einn helsti gagnrýnandi Ragnars Þórs, Gylfi Arnbjörnsson, skuli hafa hlotið raunverulegan „koss dauðans“ á dögunum frá vörum Páls Vilhjálmssonar, sem sagði að Gylfi stæði „fyrir samfelluna í starfi verkalýðshreyfingarinnar“ og að allar tilraunir til að koma honum úr embætti væru „óvinveitt yfirtaka“ á lífeyrissjóðunum. Raunar er ekki svo undarlegt að Páll dáist að Gylfa, enda töluðu þeir báðir um kjarabætur kennara á síðasta ári sem stórhættulegar en væri ég í sporum Gylfa myndi ég athuga minn gang ef ég væri farinn að öðlast aðdáendur úr hópi áköfustu stuðningsmanna Donalds Trump hér á landi.
Því þótti mér full ástæða til að gefa gaum að orðum Gylfa í Silfrinu nú þegar Efling er með mótframboð í fyrsta sinn í sögu félagsins; mótframboð fólks sem er ekkert hrifnara af starfsáherslum Gylfa en Ragnar Þór sjálfur. Hið fyrsta sem maður rekur augun í er skilningsleysi formanns ASÍ: „Ég hef verið að kalla eftir því hvaða málefni er það sem við erum að glíma við og er einhver ágreiningur um þau? Ég verð nú ekki alveg var við það.“ Látum Gylfa njóta vafans til að byrja með. Kannski brenna sömu málefni á honum og Ragnari Þór og Sólveigu Önnu. Það er nú einu sinni svo að enginn getur lesið hugsanir annarra. Látum því gjörðirnar sjálfar tala sínu máli.
Kaupmáttur og samningaglíma
Hvaða árangri tjaldar hann til? Jú, auðvitað, „heimsmetinu“ sem íslenskir launþegar hafa sett í kaupmætti á tímum efnahagsuppsveiflu sem er að miklu leyti knúin af ferðamönnum. Að taka heiðurinn af því er svolítið eins og að segjast hafa valdið sólarupprás. Auk þess er sú kaupmáttaraukning minna en einskis virði á tíma þegar húsnæðisverð hækkar um 14,7% á einu ári. Það er minna gaman en Gylfi ímyndar sér að vera vel launaður heimilisleysingi. En helsti ásteytingarsteinninn er hið opinbera. Skattbyrði hinna tekjulægstu í samfélaginu jukust frá 4% í 16% á árunum frá 1998-2016. Gylfi var í áhrifastöðu í ASÍ, sem framkvæmdastjóri og síðar forseti, í fimmtán af þessum átján árum. Hann ber við þeirri augljósu staðreynd að ASÍ er „ekki Alþingi.“
Samstundis áttar hann sig á því hversu aumt það er að verjast ásökunum um að vera lélegur viðsemjandi með því að segjast ekki vera andstæðingurinn sem hann semur við. Því bætir hann við: „En við höfum verið að glíma við Alþingi.“ Keppnisárangur þessara glímukappa kemur fram í þeirri staðreynd að Alþingi hefur fengið að komast upp með að príla upp á bakið á láglaunastéttum til að smíða góðæri fyrir þá efnameiri. Ef Gylfi hefur verið að glíma við Alþingi þá hefur honum verið skellt í gólfið. Þannig að þegar hann segir: „Við þurfum að láta stjórnvöld og atvinnurekendur finna fyrir því afli sem er í okkar hreyfingu“ hlýtur hann að átta sig á því að trúverðugleiki hans er hverfandi. Fullyrðingin er sönn en ef hann ætlaði einhvern tíma að gera alvöru úr þessari fyrirætlun hefði hann kannski notað eitthvað af einum og hálfum áratug sínum í áhrifastöðu til þess.
Verum vinir
Gylfi vill ekki slag innan ASÍ, enda krefjandi tímar fram undan:
„Ég hefði frekar viljað sjá okkur tala okkur inn í samstöðu [. . .] Fram undan eru mjög mikil verkefni sem við þurfum að vinna og þau verkefni held ég að við vinnum bara saman.“
Ekki tala um samstöðu, Gylfi. Það er orðalag trausts og ASÍ er trausti rúið. Við þurfum ekki samstöðu með ópólitískum bitleysingjum heldur hvert með öðru. Við þurfum verkalýðsforystu sem gengst ekki við þeim forsendum auðvaldsins að maður þurfi að velja á milli þess að hækka laun háskólagengins fólks eða hinna ófaglærðu; að aðildarfélög ASÍ eigi „ólíka hagsmuni.“ Baráttan fyrir bættum hag fólksins sem vinnur fyrir sér verður háð á öllum vígstöðvum og Alþingi verður þar engin undantekning. Sú barátta heitir sósíalismi og málsvarar launafólks mega ekki vera ragir við að nota það orð. Það er ekki nóg að „skilja óþreyjuna.“ Þú þarft að sýna þann skilning í verki.
„Ég hef verið talsmaður umbóta. Ég hef verið talsmaður þess að fara í þetta ögn hægar.“
Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni, góði lesandi. Ef Gylfi skildi í raun og veru óþreyjuna þá væri hann ekki talsmaður þess að fara hægt í sakirnar. Ef hann fyndi á eigin skinni þá neyð sem blasir við launafólki, sérstaklega hvað varðar húsnæði, þá væri hann eins róttækur og nýju frambjóðendurnir í Eflingu. Góðu fréttirnar eru þær að hann þarf ekki að gangast undir endurnýjun hugarfars. Hann þarf bara að víkja. Verkalýðurinn er að taka málin í eigin hendur núna og hræðslubandalag verkalýðsfélaga, atvinnurekenda og stjórnvalda (sem Gylfi hélt reyndar að Fanney í Silfrinu hefði kallað „heilagt bandalag“) er að líða undir lok. Á tilteknum tímapunkti verður varkárni að heigulshætti og sá tímapunktur er löngu kominn og farinn.
Símon Vestarr