Sósíalistar vilja að borgin stofni byggingafélag

Frétt Frétt

Framboð Sósíalistaflokks Íslands vill að Reykjavíkurborg stofni sitt eigið byggingafélag, sem byggi íbúðir fyrir það fólk sem eru í mestum vanda.

„Almenningur getur ekki greitt hinum auðugu arð af öllum stigum íbúðabygginga,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti sósíalista í Reykjavík. „Eins og staðan er í dag þurfum við að borga lóðabraskaranum sinn gróða, eigendum byggingavöruverslunarinnar sinn hagnað, verktakanum sína álagningu og eigendum leigufélagsins sinn arð. Þetta leggst ofan á alla vextina sem við borgum á endanum, vextina af okkar lánum og lánunum sem fyrirtækin taka. Fátækar fjölskyldur, láglaunafólk, lífeyrisþegar, öryrkjar og annað fólk sem er í húsnæðisvanda getur ekki staðið undir þessu öllu.“

Frá því eftir Hrun hefur húsnæðiskreppan í Reykjavík grafið undan lífskjörum hinna verst settu. Þær litlu kjarabætur sem láglaunafólk og lífeyrisþegar hafa fengið hafa farið í hærri skattgreiðslur annars vegar og hærri húsnæðiskostnað hins vegar.

„Við erum klemmd á milli lágra launa og okurleigu,“ segir Daníel Örn Arnarson, verkamaður og annar maður á lista sósíalista. Daníel tók sæti í stjórn Eflingar í vetur eftir sögulegan kosningasigur. „Húsnæðiskerfið er byggt upp svo að fáir aðilar geti hagnast sem mest: Lóðabraskarar, byggingarvörufyrirtæki, verktakar, húsaleigufyrirtæki. Hin verst settu geta ekki staðið undir hinum ríku. Þeir verða að finna sér aðra tekjulind en húsnæðiskreppu láglaunafólks.“

Hugmynd sósíalista er að Reykjavíkurborg sjálf stofni byggingafyrirtæki, sem flytji sjálft inn byggingarefnið, byggi sjálft húsin á borgarlandi og leigi sjálf út íbúðirnar. Sósíalistar vilja að byggt verði upp húsnæðiskerfi sem algjörlega einangrað frá gróðafyrirtækjum.

„Við höfum beðið árum saman eftir að hinn svokallaði markaður leysi húsnæðisvandann. Það hefur ekki gerst og mun aldrei gerast,“ segir Sanna. „Markaðurinn gengur út á að færa eigendum fyrirtækja sem mestan arð. Ekki út á að leysa húsnæðisvanda fólks. Þrátt fyrir að húsnæðiskreppan hafi grafið undan lífskjörum hinna verr settu hefur markaðurinn ekkert byggt nema allt of dýrt húsnæði, mest lúxusíbúðir og hótel.“

Sósíalistar benda á söguna um fordæmi. Reykvíkingar stofnuðu Bæjarútgerð Reykjavíkur til að útvega fólki örugga vinnu eftir stríð. Víða um land færðu bæjarútgerðir og samvinnufyrirtæki veiðar og vinnslu inn í nútímann og tryggðu fólki örugga vinnu. Áður voru sjómenn og verkafólk ofurselt hagsmunum hinna ríku, fengu eða misstu vinnu eftir því hvernig hinir ríku töldu sig geta grætt sem mest. Á nýfrjálshyggjuárunum voru bæjarútgerðirnar og samvinnufélögin seld á hrakvirði til hinna ríku, eins og aðrar almannaeigur. Síðan hafa sjómenn og verkafólk lifað við óöryggi. Útgerðarmenn hafa kippt fótunum undan lífsskilyrðum almennings í hverri sjávarbyggðinni á fætur annarri.

„Auðvaldið er helsti andstæðingur almennings,“ segir Sanna. „Hin ríku munu aldrei leysa húsnæðisvanda hinna snauðu. Þau hafa engan áhuga á því. Hin ríku vilja bara græða sem mest. Það er fráleitt að borgaryfirvöld geri auðvaldið að sínum helsta samherja í húsnæðismálum.“

Framboð sósíalista í Reykjavík vill að borgin leiði uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis sem er algjörlega varið fyrir gróðafyrirtækjum. Reykjavíkurborg þarf sjálf að byggja hús og leigja út íbúðir á sama tíma og borgin ýtir undir uppbyggingu húsnæðisfélaga á vegum verkalýðshreyfingarinnar og annarra aðila. En vandinn verði ekki leystur af öðrum. Borgin þarf sjálf að stíga inn og takast á við vandann.

„Það vantar ekki fleiri lúxusíbúðir,“ segir Daníel. „Reykjavíkurborg á að hætta að þjónusta lóðabraskara, verktaka og húsaleigufyrirtæki. Reykjavíkurborg á að snúa sér að því að leysa húsnæðisvanda fólks og fyrst þeirra sem eru í mestum vanda. Og borgin á að byggja þangað til að síðasta fjölskyldan er komin í skjól.“

En hefur Reykjavíkurborg efni á þessu?

„Höfum við efni á halda uppi verktökunum og leigufyrirtækjunum?“ spyr Sanna á móti. „Hin verr settu bera nú þegar gríðarlegan kostnað af húsnæðiskreppunni. Við viljum minnka þann kostnað.“

„Reykjavíkurborg réð við að byggja upp Hitaveituna, skipta út olíu- og kolakyndingu og setja heitt vatn í hvert hús,“ bendir Daníel á. „Ef markaðurinn hefði fengið að ráða værum við enn að hita húsin með kolum. Og kolafyrirtæki í eigu Gamma væri líklega að setja met í arðgreiðslum eftir kaldan vetur og borga æðstu stjórnendum feita bónusa.“

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram