Útsendarar arðránsins
Pistill
12.05.2018
Viss tegund af fólki, sem fær m.a. peninga fyrir að tjá sig, hefur þá sýn á átökin á Íslandi að þau séu í raun á milli annars vegar auðvaldsins sem verði, samkvæmt þeim, að fá að stjórna efnahag landsins svo stöðugleiki og siðmenning megi ríkja og hins vegar óraunhæfs alþýðupakks með ruglaðar hugmyndir um að aðalmarkmið samfélagsins eigi að vera raunverulegur jöfnuður og jafnrétti; að öll fái að njóta afraksturs vinnunnar sem unnin er í samfélaginu.
Þetta fólk hefur algjörlega og af innilegheitum gleypt allan áróður þeirra sem eiga fjármagnið; að það sé aldrei neitt nema eitt í boði, sjálft arðránið (en þetta er auðvitað ein stærsta lygi samtímans) sem er nógu slæmt í sjálfu sér, en vegna þess að firringin er algjör kemur í ljós að þau vita bókstaflega ekkert um það sem þau eru að tala, eru málpípur hins óbreytta ástands (sem er að sjálfsögðu aldrei óbreytt vegna þess að fjármagnskapítalisminn umbreytir hinu og þessu stöðugt í einnota vöru til að kaupa og selja; fólki, náttúru, lýðræði; stöðugleikinn er einnig ein af stærstu lygum samtímans því að nýfrjálshyggjan er innleiðing algjörs samfélagslegs óstöðugleika) án þess að hafa nokkra innsýn í líf og tilveru vinnuaflsins sem þarf að hlýða leikreglum stjóranna.
Þau taka ástandið á húsnæðismarkaði ekkert sérstaklega nærri sér og fyllast ekki reiði eða sorg þegar þau heyra af því að láglaunafólk á höfuðborgarstæðinu þurfi nú að greiða meira en helming ráðstöfunartekna í leigu, þau yppta bara öxlum og snúa sér undan, og delera svo kannski smá og kalla það hnyttni.
Þau láta þá staðreynd að yfirstétt fær að borga sjálfri sér æðisgengin laun, skelfilega há laun sem rífa í sundur allar hugmyndir um réttlæti og sanngirni í samfélaginu ekki koma sér úr jafnvægi enda trúa þau ekki á að frelsi, jafnrétti og bræðralag heldur á þá hugmynd að vinnuaflið sé aðeins vara á markaði á meðan auðvaldið hafi einhverskonar yfirskilvitlega stjórnunarhæfileika og viti því alltaf hvað skuli gera hverju sinni. Þessu trúa þau ennþá þrátt fyrir að ótrúlega stutt sé síðan að síðasta kreppa auðvaldsins reið hér yfir, með hörmulegum afleiðingum fyrir alþýðufólk, afleiðingum sem verka og láglaunafólk á að sætta sig við að aldrei verið tekist á við, ekki einu sinni í æðisgengnu góðæri; þvert á móti hefur erfiðleika-ástandið verið gert varanlegt með því að koma húsnæðismarkaðnum í hendur fjármagnstekjueigenda, svo þeir megi græða á afleiðingum uppnámsins sem þeirra eigin hugmyndafræði skapaði. Í hugmyndaheimi nýfrjálshyggjunnar eru erfiðleikar jú á endanum líka aðeins vara á markaði.
Þau tala stöðugt um frelsi í mannlegu samfélagi (á meðan ofurhetjan þeirra heitir Homo Economicus og er hálf-menni með reiknivél í stað sálar) en þau myndu ekki þekkja frelsi þó að það birtist við hlið þeirra, því í raun eru þau svo afturhaldssinnuð að þau trúa á stéttaskiptinguna af sannfæringu, trúa því að sú sadíska hugsanavilla sé meitluð í stein í mannlegu samfélagi að alltaf skuli einhver vera fátæk á meðan önnur skuli ávallt vera auðug. Þau setja þá skoðun fram í fullri alvöru, tæpum tíu árum eftir eitt mikilfenglegasta bankahrun mannkynssögunnar, framkvæmdu með sönnum innblæstri af bankastrákunum okkar, að skattar á bankastarfsemi séu hryggilega íþyngjandi. Ámóta sorglegar finnast þeim td. tilraunir til að takmarka auðhringamyndun hjá kvótaauðvaldinu, í hugarheimi þeirra eru það árásir á réttindi almennings til að kaupa sér hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum og þau láta sem ekkert sé þegar það kemur í ljós að forstjóri Eimskipa þarf bara að vinna í fimm klukkustundir til að vinna sér mánaðarlaun manneskju á lágmarkslaunum og rétt rúma viku að næla sér í árslaun þess sem stritar.
Þau staldra aldrei við og hugsa: Hvað verður um Ísland ef ójöfnuður heldur áfram að aukast, ef stéttaskipting heldur áfram að vaxa, ef vinnuaflinu er áfram haldið frá pólitískum áhrifum? Þau hugsa ekki um þetta af því að í þeirra veröld er tryllingsleg aukning ójafnaðar einfaldlega ekkert vandamál, heldur aðeins skipan mála í eðlilegu samfélagi því að kapítalisminn er hinn risavaxni bjálki í augum þeirra.
Þau láta sem réttlætiskennd okkar sé vandamálið á meðan þau skammast sín ekkert fyrir að ganga erinda auðmanna. Þau opinbera vanþekkingu sína algjörlega aftur og aftur, meðal annars þegar í ljós kemur að þau virðast ekki vita af hinni sögulegu bylgju sósíalisma sem nú ríður ma. yfir Bretland og Bandaríkin sem viðbragð við kreppu kapítalismans; organískri, skapandi og ó-dogmatískri baráttu almennings fyrir því að þurfa ekki lengur að bera byrgðar auðstéttanna, fyrir því að öðlast raunverulegt frelsi, efnahagslegt frelsi.
Þau opinbera yfirborðsmennsku sína án þess að skammast sín þegar í ljós kemur að þau hafa enga analýsu, engin svör, enga sýn, ekkert hugrekki, eru aðeins fær um að bjóða upp á óbærilega innantóma frasa og blinda hollustu þeirra sem þrá viðurkenningu valdastéttarinnar.
Ill meðferð á vinnuaflinu, skelfileg meðferð á lífríkinu, ótrúleg og óbærileg stéttaskipting, kreppur og niðurskurður, ósjálfbærar uppsveiflur, skelfileg misskipting; ekkert af þessum staðreyndum í nútímanum veldur þessu fólki hugarangri eða fær þau til að upplifa knýjandi þörf til að reyna að grípa til aðgerða, svo að td. megi losa manneskjur undan fargi fátæktarinnar, nei, þau hafna slíkum tilfinningum sem uppnámi hjá óstöðuglyndum rugludöllum en setja í stað fram þá hugmynd fáfræðingsins að átakalaust og auðvelt líf sé innan seilingar, ef aðeins þau lágt settu muni að þeirra hlutverk sé að halda áfram að vinna, ósýnileg og óheyranleg, að vinnan göfgi manninn en að hugmyndin um að verður sé verkamaður launa sinna sé svo úrelt og hallærisleg að aðeins fífl leyfi sér að minnast á hana.
Ég hvet fólk til að hafna fölskum greiningum þeirra sem taka að sér hagsmunagæslu fyrir auðstéttina. Ég hvet fólk til að hugleiða á hvaða leið íslenskt samfélag er. Ef þið eruð sátt við aukinn ójöfnuð með öllum þeim hörmungum sem hann hefur í för með sér þá verður auðvitað svo að vera en ef ykkur misbýður óréttlætið og arðránið, þá hvet ég ykkur til að láta í ykkur heyra og gleyma því ekki að réttlætiskennd ykkar er ekki vandamálið.
Kerfið sem við erum látin búa við, þar sem stöðugleiki er notaður sem vopn í ógeðslegu áróðursstríði þeirra sem aðhyllast samfélagsmynd einhliða ógnarjafnvægis, þar sem alþýðunni er bókstaflega hótað með því að kröfur hennar um sanngjarna skiptingu gæðanna muni leiða ógæfu yfir land og þjóð, þar sem tíma fólks er bókstaflega stolið frá því með því að verðleggja hann svo lágt að vinnuaflið verður að vinna langa daga bara til að komast af; þetta eru vandamálin í samfélaginu. Átökin eru vissulega á milli þeirra sem arðræna og þeirra sem eru arðrænd, en almættið hjálpi okkur ef við látum útsendara yfirborðsmennskunnar, málpípur nýfrjálshyggjunnar telja okkur trú um að best sé að halda með auðstéttinni í slagnum, því að þar liggi hagsmunir okkar.
Sólveig Anna Jónsdóttir
er í sjötta sæti Sósíalistaflokksins í Reykjavík