Munum starfa að uppbyggingu hreyfingarinnar

Tilkynning Frétt

Eftir samráð við félaga okkar í Sósíalistaflokknum höfum við ákveðið að taka ekki þátt í fyrirhuguðum viðræðum um meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur. Framboð sósíalista var framboð hinna valdalausu í borginni; láglaunafólks, innflytjenda, leigjenda, eftirlaunafólks, öryrkja og annarra hópa sem hefur verið haldið frá völdum. Þessir hópar eru sjaldnast ávarpaðir, á þá er ekki hlustað og ekki er gengið út frá hagsmunum þeirra þegar ákvarðanir eru teknar. Góður stuðningur við framboð sósíalista færði þessum hópum einn borgarfulltrúa. En einn borgarfulltrúi tjóðraður niður í meirihlutasamstarf við aðra flokka mun fá litlu áorkað. Einn borgarfulltrúi getur ekki breytt kerfinu innan frá, allra síst ef hans fyrsta verk verður að ganga inn í svo til óbreyttan meirihluta um stefnu sem sósíalistar gagnrýndu harðlega í kosningabaráttunni. En einn borgarfulltrúi getur tekið virkan þátt með félögum sínum í að byggja upp samstöðu meðal láglaunafólks, innflytjenda, leigjenda, eftirlaunafólks, öryrkja og annarra valdalausra hópa og verið farvegur fyrir baráttu þeirra inn í borgarstjórn. Þannig borgarfulltrúar viljum við vera og þannig borgarfulltrúa eru félagar okkar í Sósíalistaflokknum að kalla eftir; borgarfulltrúa sem hverfur ekki strax eftir kosningar inn í bakherbergi Ráðhússins heldur starfar áfram að uppbyggingu þeirrar hreyfingar sem sendi okkur inn í borgarstjórn. Það er okkar markmið að þjóna þessari vaxandi hreyfingu næstu árin og byggja upp með henni öfluga og róttæka hagsmunabaráttu hinna kúguðu og valdalausu. Það er aðeins með samstöðu og styrk fjöldans sem við getum breytt samfélaginu. Ekkert mun ávinnast í samningaviðræðum eins borgarfulltrúa við ríkjandi öfl.

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi
Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúi

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram