Sköpum betra samfélag fyrir alla

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 verður afgreiddur í dag og nú fer fram síðari umræða um hann í borgarstjórn. Í fyrri umræðu fyrir viku síðan lagði ég áherslu á tekjustofna og hvar við sósíalistar teljum að áherslur eigi að vera þar hvað varðar útsvar á fjármagnstekjur og aðstöðugjöld á fyrirtæki og nú vil ég aðeins nefna fasteignaskattana í því samhengi. Fasteignaskattar voru 17% af rekstrartekjum aðalsjóðs, núna í ár var þessi upphæð rúmir 20 milljarðar en síðasta ár tæpir 18 milljarðar. Þessir skattar eru talsvert hátt hlutfall af innkomu borgarinnar en fasteignaskattar leggjast á allar fasteignir og leggjast þá jafnt á eignir og skuldir og ef við skoðum þetta t.d. sérstaklega í samhengi íbúðarhúsnæðis, þá er það að mínu sósíalísku mati ósanngjörn skattheimta. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki leið til að mæta tekjutapi sem hefði verið hægt að fá með skatttekjum frá fyrirtækjum og hinum ríku eins og ég nefndi í fyrri umræðu.

Þar sem skattaafsláttur til hinna auðugustu hafa átt sér stað í samfélaginu okkar þá hefur það áhrif á marga þætti og ég tel það líka birtast í niðurstöðu þessa ársreiknings, að okkur vantar útsvar frá fjármagnseigendum eins og ég nefndi í fyrri umræðu. Það vantar í sjóðinn okkar svo að við getum veitt sem besta þjónustu en við vitum að það er margt sem við eigum og getum verið að gera betur. Þar sem að fasteignaskattur leggjast á skuldir jafnt og eignir þá getur þetta verið þungur biti fyrir marga, t.d. marga sem eru að leitast við að greiða niður húnsæðisskuldir af íbúðum sínum. Í þessari umræðu þegar við ræðum tekjustofna og sýn okkar sósíalista, þá vildi ég koma því á framfæri að við séum að einblína á að þeir sem eru aflögufærastir greiði hlutfallslega meir í sameiginlegan sjóð okkar en það lendi ekki á þeim sem eiga erfiðara með það fjárhagslega.

Svo þegar við skoðum útgjaldaliði, þá langaði mig sérstaklega að ræða þar einn lið þar sem ég tel endurspegla eitthvað sem að við þurfum að kanna nánar og ræða um. Ársreikningur endurspeglar stöðu síðasta árs og ef við skóðum t.d. undir skóla- og frístundasviði þá kemur fram að „Kostnaður vegna langtímaveikinda er talsvert umfram fjárheimildir. Mikilvægt er að forgangsraða fjárheimildum sviðsins til að tryggja fjármögnun á þessum lið.“ Mig langaði aðeins að staldra við þetta en ekki við kostnaðarliðinn í sjálfu heldur hvað leiðir til þess að langtímaveikindi virðast vera að aukast, þar sem að kostnaðurinn er umfram fjárheimildir, þá skil ég það sem svo að langtímaveikindi hafi verið meiri en gert var ráð fyrir. Það getur ekki verið góð staða fyrir starfsfólk að upplifa. Auðvitað geta langtímaveikindi átt sér allskyns skýringar en þegar það er talað um langtímaveikindi hér, þá hefur maður áhyggjur af streitu, kulnun og starfsaðstöðu starfsfólks og hvort að það geti verið að ýta undir þessi langtímaveikindi. Með starfsaðstöðu, þá er ég að meina launamálin og álag sem getur myndast ef það er mannekla á starfstöðvum. En eins og við erum meðvituð um þá hefur lengi vel átt sér umræða um að það þurfi að hækka laun á þessum starfstöðvum og þá sérstaklega lægstu laun.

Mér finnst þetta eitthvað sem við þurfum að líta yfir þegar við förum yfir ársreikning, ætlum við að verja kostnaði í eitthvað sem líta mætti á sem plástra eða leitast við að komast að rót vandans sem ég tel að geti verið að miklu leyti launamálin, og með því að hækka sérstaklega lægstu laun getum við að öllum líkindum fyrirbyggt ýmislegt sem ýtir undir langtímaveikindi en við vitum það að álag við að komast af á lægstu launum getur skilað sér í streitu starfsfólks sem mætir vegg andlega, þegar að aðstæðurnar eru of krefjandi og við viljum svo sannarlega ekki bjóða starfsfólki upp á það. Þegar ég nefni launamálin hér í borgarstjórn og hef komið með tillögur í þeim málum, þá hefur því oft verið vísað frá á þeim grundvelli að þetta sé ekki réttir vettvangurinn til að ræða málin. Þetta er einmitt vettvangurinn til þess og mikilvægt að við séum meðvituð um hvaða mögulegar afleiðingar láglaunastefnu getur haft.

Ég hef lagt fram fyrirspurnir um þetta í borgarráði og þar er talað um mikilvæg mál sem tengjast þessu, hvað varðar að búa til góðar heilsusamlegar starfsaðstæður en tel að við getum ekki litið fram hjá launamálum í þessu samhengi og hvort það spili ekki inn í. Hér er mikið af öflugu starfsfólki sem sinnir svo mikilvægum störfum og við sjáum hér það sem ég tel að öllum líkindum megi að miklu leyti rekja til láglaunastefnunnar, að það sé sennilegt að fólk sé að brenna út á lágum launum. Það er mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að fyrirbyggja langtímaveikindi.

Auðvitað er ég ekki að gagnrýna kostnað sem fer í að greiða langtímaveikindi, eða segja að ég vilji spara þar, heldur að það blasir hérna við okkur við að lesa stöðu síðasta árs, að fólk sé í þeirri stöðu að vera veikt til langtíma. Slíkt getur ekki verið ákjósanleg staða til að vera í og hvað ætlum við sem stærsti vinnustaður landsins að gera í því? Við berum ábyrgð. Við eigum alltaf að hafa hagsmuni starfsfólks að leiðarljósi og hagsmuni borgarbúa. Ársreikningurinn er mat á frammistöðu borgarinnar og þar er skýrt hvað þarf að bæta.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram