Ný matvæla- og landbúnaðarstefna

Málefnastjórn Frétt

Félagsfundur sósíalista haldinn 4. júlí samþykkti eftirfarandi stefnu í matvæla- og landbúnaðarmálum: 

Sósíalistaflokkur Íslands vill að landbúnaður verði endurskilgreindur og leitað verði þjóðarsáttar um hvað í honum felst og virði greinarinnar fyrir sjálfbærni landsins. Sú vinna verði unnin í náinni samvinnu við bændur sem og ábúendur jarða þar sem búskapur af einhverju tagi er stundaður.

Búskapur merkir, auk dýrahalds og jarðræktar; verndun og ræktun dýra og plantna, framleiðsla og úrvinnsla matvæla og ástundun fjölda annarra tengdra greina svo sem landgræðsla, trjárækt, nýting vatna, villtra jurta og dýra.

Við endurskoðun landbúnaðarkerfisins verði unnið eftir vistkorti eða rammaáætlun sem einnig byggir á deiliskipulagi og aðalskipulagi hvers sveitarfélags og í samstarfi við það. Þá sé einnig horft til staðsetningar varðandi fæðuöryggi bæði hvað varðar náttúrugæði, auðlindir og sjálfbærni landsins við fæðuöflun og framleiðslu. Ef einn landshluti lokast af vegna hamfara verður að vera hægt að afla nauðsynlegrar fæðu annarstaðar. Þá verði matvælaverð viðráðanlegt almenningi.

Áhersla í landbúnaði verði ávallt lögð á lífræna ræktun til að tryggja heilbrigði manna og dýra og styttri virðiskeðju með tilliti til þess að minnka kolefnisspor. Huga skal einnig vel að eftirliti með dýravernd, halda allri lyfja- og efnanotkun í lágmarki og stytta vegalengdir sem farnar eru með dýr til slátrunar eins og kostur er, til dæmis með færanlegum sláturhúsum.

Bæta skal kjör bænda og þeir viðurkenndir sem sá mikilvægi hluti framvarðarsveitar landsmanna sem þeir eru í raun svo tryggja megi fæðuöryggi og sjálfbærni. Þá séu nýsköpunarstyrkir til bænda auknir og einnig verði boðið uppá hagstæð lán til framkvæmda, nýsköpunar og nýliðunar.

Stuðla á að gagnkvæmri virðingu milli framleiðanda/bænda og notenda/neytenda m.a. með því að auka almenna þekkingu á gildi góðra matvæla. Þá skal tryggja góðar innihaldslýsingar á allri fæðu og auka möguleika á lífrænni framleiðslu. Til að tryggja matvælaöryggi skulu framleiðendur og flutningsaðilar hafa aðgang að góðri fræðslu og skulu vörur ávallt vera merktar greinargóðum innihaldslýsingum og fyrningardegi gæða.

Þá sé landbúnaðarkerfið gert sanngjarnara og sveigjanlegra hvað varðar gjöld á vottorðum svo sem við slátrun og annað svo að litlar framleiðslueiningar eða hið hefðbundna „fjölskyldubú“ geti lifað af.

Framleiðslueiningar verði endurskoðaðar með tilliti til umhverfisverndar og dregið verði úr hvatanum til að búin verði of stór. Stutt sé við rekstrarumhverfi fyrir félagsbú tveggja eða fleiri einstaklinga og tekið verði mið af umfangi meðalstórs smáfyrirtækis eða fjölskyldubús

Bæta skal lagaumhverfið í kringum stofnun samvinnufélaga svo að hvatinn til stofnunar slíkra félaga verði meiri. Þannig geti bændur mögulega dregið úr áhrifum milliliða á verðmyndun og aukið samvinnu sína. Ekki skal gera arðsemiskröfu í rekstri samvinnu- eða pöntunarfélaga.

Framsalskerfið með kvóta skal afnumið og skal kvóti vera tengdur búsetu eða skuldbindingu til framleiðslu en ekki verslunarvara sem hægt er að braska með.

Innflutt matvæli skulu lúta sömu reglum og innlendar hvað varðar matvælaöryggi og dýravernd og þar með samkeppnishæfni með virku eftirliti og fræðslu, svo að ekki sé grafið undan innlendri framleiðslu og afsláttur gefinn af öryggi og gæðum matvæla.

Til að auka fjölbreytni í matvælaframleiðslu og veita bændum fleiri möguleika til þess skal niðurgreiða raforku til ylræktar þar sem nóg er af rafmagni. Auk þess skal tryggja öllum landshlutum fullnægjandi raforku svo sem þriggja fasa rafmagn og varaaflsstöðvar. Leita á leiða fyrir ábúendur jarða til að auka nýtingu á öllum tegundum af vistvænni orku úr straumvötnum, stöðuvötnum og í sjó við bújarðir.

Koma skal í veg fyrir að einstaklingar eða fyrirtæki geti safnað að sér bújörðum og öðru landi til eignar. Til þess skal beita takmörkunum svo sem búsetuskilyrðum og fjölda- og stærðartakmörkunum á jörðum og landsvæðum.

Draga á úr lausagöngu búfjár, m.a. vegna hættu á landeyðingu og fella úr gildi beitarrétt á ónýtum löndum. Þá skall einnig draga úr lausagöngu búfjár við þjóvegi þar sem því verður við komið til að vinna gegn slysahættu og auka merkingar við akvegi í því skyni.

Bændum sé gert kleift að stunda búskap með önnur eða fleiri viðfangsefni en þau hefðbundnu svo sem landgræðslu, skógrækt, gistisölu, veitingasölu, fræðslu- og skemmtanastarf á borð við dýragarðsrekstur, veiði- og vinnslu vatna- og sjávarfangs þar sem það á við og nýtingu villtra plantna og dýra.

Þá sé dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og votlendi endurheimt um allt land og skógrækt aukin í samræmi við umhverfis- og loftslagsstefnu Sósíalistaflokksins. Leitað verði allra leiða til að hringrás vistkerfisins og hringrásarkerfið virki sem best svo sem með nýtingu jarðvegs úr metangarði Sorpu en stefna skal að slíkri úrvinnslu um allt land.

Stefna hreins og heilbrigðs umhverfis á að gegna lykilhlutverki í landbúnaðarmálum í anda hringrásarhugsunar. Meðal annars skal leitast við að gera framleiðendum kleift að framleiða innlendan lífrænan áburð og draga úr innflutningi á tilbúnum áburði. Einnig skal auka möguleika á að framleiða innlent kjarnfóður og draga úr innflutningi á fóðri.

Stefna Sósíalistaflokks Íslands í matvæla- og landbúnaðarmálum er… 

…að leitað verði þjóðarsáttar um landbúnað.

…að gert sé vistkort eða rammaáætlun um landbúnað og landnýtingu frá fjöru til fjalls um allt land.

…að áhersla verði lögð á styttri virðiskeðju, umhverfisvernd, dýravernd, sjálfbærni og lífræna ræktun í öllum landbúnaði.

…að fæðuöryggi sé tryggt á Íslandi með stöðugri og aukinni innlendri fæðuframleiðslu og eðlilegu matvælaverði.

…að bændum séu tryggð mannsæmandi kjör og starfsskilyrði.

…að auknir nýsköpunarstyrkir verði veittir í landbúnaði með áherslu á lífræna ræktun og bændum bjóðist hagstæð lán til framkvæmda.

…að landbúnaðarkerfið sé gert sanngjarnara og sveigjanlegra svo möguleikar lítilla framleiðslueininga til reksturs séu auknir.

…að við endurskoðun landbúnaðarkerfisins skal ávallt hafa dýravernd í hávegum og tryggja að Ísland sé þar í fremstu röð.

…að myndaður verði hvati til að stofna samvinnufélög og pöntunarfélög þar sem hægt verði að kaupa beint frá býli eða að bændur geti sameinast um fóður- og verkfærakaup.

…að auðvelda aðgengi að kaupum og sölu á matvöru og annarri framleiðslu bænda í nærumhverfi neytenda.

…að kvótakerfi landbúnaðar verði endurskoðað og tryggt að það leiði aldrei af sér framsal heldur sé kvótinn háður búsetu og skuldbindingu um framleiðslu.

…að auka eftirlit með innfluttri matvöru og tryggja þannig samkeppnishæfni innlendrar vöru við innflutta. Þá skal tryggja matvælaöryggi með virku eftirliti og fræðslu.

…að veittur verði afsláttur af raforku til gróðurhúsaræktunar.

…að komið sé í veg fyrir að fólk og fyrirtæki geti safnað að sér bújörðum og öðru landi til eignar með því að setja á búskildu eða aðrar takmarkanir.

…að lausaganga búfjár verði skilyrt og sú landeyðing sem hún hefur í för með sér stöðvuð.

…að skógrækt og landgræðsla verði aukin verulega og færð á fleiri hendur.

…að eiturefnanotkun og notkun útsæðis sem háð er einkaleyfum í landbúnaði og vegagerð sé alfarið óheimil og eftirliti með plöntu- og dýraheilbrigði sé ávallt sinnt vel svo matvælaöryggi sé tryggt.

 

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram