Markaðsvæðing félagshyggjunnar

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Sala á landi í eigu almennings og innheimta flýti- og umferðargjalda til að fjármagna uppbyggingu samgönguinnviða eru ákvæði sem fjallað er um í tillögu sem var afgreidd á fundi borgarstjórnar í dag. Tillagan felur í sér að Reykjavíkurborg taki þátt í stofnun opinbers hlutafélags sem ber heitið Betri samgöngur ohf. Tilgangur þess félags er að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. á innviðum almenningssamgangna.

Betri samgöngum ohf. er ætlað að taka við Keldnalandi eða öðru sambærilegu landi og sjá um þróun þess í samvinnu við viðeigandi skipulagsyfirvöld, þar sem markmiðið er að „hámarka virði landsins og uppbyggingu þess“. Verði ákveðið með lögum að leggja á flýti- og umferðargjöld, þá er það einnig eitt af meginverkefnum félagsins að leggja slík gjöld á og byggja upp innviði slíkrar innheimtu. Skilaboðin eru skýr: Betri almenningssamgöngur eru aðeins möguleiki með sérstakri fjármögnun; innheimtu veggjalda sem bitna hlutfallslega harðast á þeim sem eru tekjulægstir og sölu á eignum almennings. Verkalýðshreyfingar stigu fram með réttmæta gagnrýni varðandi sölu Keldnalands en stjórnvöld komu fram með þau skilaboð að þar yrðu tryggðar hagkvæmar íbúðir. Húsnæðisstefna borgarinnar stefnir að því að allt að 25% íbúða verði miðaðar við þarfir þeirra sem vilja ekki eða geta ekki lagt mikið fé í eigið húsnæði.

Húsnæði = réttindi

Við sósíalistar viljum ganga lengra en svo, þegar svo margir eru í þörf fyrir húsnæði, við viljum tryggja að húsnæði sé talin réttindi sem við eigum öll að hafa aðgang að. Í stað þess að sætta okkur við það að koma félagslegum lausnum inn í markaðsvætt húsnæðiskerfi, eigum við að berjast fyrir því að félagsvæða húsnæðiskerfið. Lóðir undir húsnæði, ættu ekki að vera seldar hæstbjóðanda, sem opnar enn frekar á markaðsvæðingu húsnæðiskerfisins. Það er ekki nóg að láta staðar numið við það að fjórðungur húsnæðisuppbyggingar sé á félagslegum forsendum þegar svo gríðarlega margir í samfélaginu eru í þörf fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði. Hlutverk stjórnvalda hlýtur að vera að tryggja almannahag, hlúa vel að grunnkerfum og tryggja að sjóðir almennings mæti nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Í kjölfar þess að fjársterkir aðilar hafa verið undanþegnir því að greiða hlutfallslega til jafns á við aðra til samfélagsins, hefur skattbyrðin verið færð yfir á tekjulægri hópana. Það má ekki gerast á okkar vakt að hlutverk stjórnvalda snúist um að veita fjársterkum aðilum skattaafslætti og að samhliða því sé gjaldtaka fyrir innviðauppbyggingu færð yfir á almenning. Markaðsvæðing vegakerfisins, útilokar ákveðna hópa frá því að geta ferðast um svæði  sem áður voru gjaldfrjáls. Slík gjaldtaka opnar á þann möguleika að einkaaðilar hagnist á innheimtunni. Góðar almenningssamgöngur eru samfélagslega nauðsynlegar. Við eigum að standa vörð um að grunnkerfin okkar séu rekin á félagslegum forsendum í stað þess að hleypa hugmyndum um markaðslausnir að uppbyggingu almenningssamgangna, sama hversu vel þau kunna að hljóma. Það er eftirsóknarvert að fá betri almeningssamgöngur eftir 15 ár í stað 50 ára en almenningur ætti ekki að þurfa að greiða fyrir það sem sameiginlegir sjóðir eiga að standa undir. Sem sósíalisti í borgarstjórn tel ég að það sé okkar hlutverk að berjast fyrir betri fjármögnun á samgönguuppbyggingu sem er svo gríðarlega mikilvæg

Í meirihluta borgarstjórnar sitja flokkar með sósíalískar rætur og ég tel að það sé hlutverk þeirra sem sitja vinstra megin á hinum pólitíska ás að berjast gegn öllum hugmyndum sem leitast við að markaðsvæða grunnkerfi samfélagsins. Sömuleiðis eigum við að berjast gegn öllum hugmyndum sem opna á einkavæðingu. Sé litið til Strætó bs. má sjá að um helmingur af akstri á vegum strætó er í höndum verktaka og ég bíð enn eftir svari við fyrirspurn um hvort það sé eitthvað þak á það hversu mikið prósent af akstri Strætó bs. verktakar mega sjá um. Sú fyrirspurn var lögð fram í upphafi þessa árs og ég óttast mjög að einkavæðingin á grunnkerfum geti átt sér stað að innan, án þess að við tökum jafnvel eftir því. 

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram