Höfnum tilraunum til kjaraskerðinga
Pistill
20.10.2020
Við erum sífellt minnt á að það þarf að standa vörð um réttindi og kjör verka- og láglaunafólks. Kjarabarátta snýst ekki eingöngu um krónurnar sem enda í buddunni, hún snýst líka um starfsaðstæður sem fólki er gert kleift að vinna við. Það eru t.a.m. ýmis réttindi sem fylgja því að vinna á mánaðarlaunum fremur en í tímavinnu, fyrst og fremst veikindaréttur. Samtök sjálfstætt starfandi skóla (SSSK) vildu ná því í gegn í kjarasamningum við Eflingu, að heimild væri til að víkja sér undan því að ráða þau á mánaðarlaun sem vinna í tímavinnu sem nemur meira en 20% starfshlutfalli. Með því á starfsfólk í hættu á að missa ýmis réttindi sem fylgja því að vinna á mánaðarlaunum.
Krafan um áminningarferli, sem veitir vernd gegn ómálefnalegum ástæðum uppsagnar, er liður sem SSSK vildi einnig afnema. Þar með er auðveldað til muna að segja starfsfólki upp störfum. Þá vildu þau einnig afnema ávinnslu á rétti til desember- og orlofsuppbótar sem og til greiðslu launa í orlofi meðan á fæðingarorlofi stendur. Þar með er ekki öll sagan sögð, þar sem SSSK vildi einnig afnema ákvæði um greiðslu lausnarlauna að loknum veikindum og ákvæði um flutning áunninna réttinda á milli atvinnurekenda, sem myndi í sumum tilvikum stytta veikindarétt úr 360 dögum í 14 daga. (Hér má lesa nánar um málið: https://efling.is/wp-content/uploads/2020/10/2020-10-08-minnisblad-Eflingar.pdf)
Stórt skref var tekið fram á við í kjarabaráttu þegar samningar náðust á milli Eflingar og Reykjavíkurborgar fyrr á árinu. Verkfallsaðgerðir sýndu fram á mikilvægi þeirra sem halda uppi borginni og nú er komið að því að semja við starfsfólkið innan sjálfstætt rekinna leikskóla en stór hluti þeirra er hér í Reykjavík. Borgin veitir ákveðið fjárframlag til sjálfstætt starfandi skóla. Það á ekki að vera nýtt í að skerða réttindi starfsfólks. Við getum ekki litið fram hjá því þegar leitast er við að nota sjóði borgarinnar til að fjármagna félagsleg undirboð. Fjármagnið á ekki að nýta til niðurbrots á þeim starfskjörum sem við höfum viðurkennt, heldur uppbyggingu á góðu starfsumhverfi öllum til heilla.
Virðing við starfsfólk ætti að endurspeglast í því hvernig fjármunum borgarinnar er varið. Slíkt sé ég ekki að ofangreindar tillögur SSSK bjóði upp á. Á tímum kórónuveirunnar er talað um mikilvægi þess að hið opinbera beini fjármagni þar sem þörf er á svo að tryggja megi órofna grunnþjónustu. Þá er einnig talað um að verja og tryggja störf. Ég tel ekki síður mikilvægt að vera alltaf vakandi gagnvart því að réttindi launafólks séu ekki fótum troðin, sérstaklega á tímum sem þessum. Að líta undan þegar tilraunir til félagslegra undirboða eru settar fram, er ekki í boði. Slíkt er mjög alvarlegt og þess vegna kalla ég eftir umræðu um slíkt í borgarstjórn þar sem ákvarðanir um útdeilingu fjármagns fara fram.
Í samfélagi þar sem láglaunafólk hefur þurft að berjast fyrir hverri einustu krónu sem það fær útborgað er ótrúlegt að sjá að lagðar séu fram tillögur um skerðingar á réttindum starfsfólks sem vinnur í skólum. Í nýlegri tilkynningu frá Eflingu stéttarfélagi benda þau á að, ef fallist yrði á kröfur SSSK yrðu kjörin mun verri en borgarstarfsmanna og að yfirgnæfandi meirihluti starfsfólksins sem um ræðir séu konur á lægstu launatöxtum. Af þeim 22 skólum sem eiga í hlut, starfa 20 samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.
Leikskólar hafa svo lengi sem ég og líklegast alþjóð man eftir, mestmegnis verið samansettir af kvennastéttum, sem bera meginþungann af því að halda uppi því mikilvæga starfi sem felst í leikskólahaldi. Er það þess vegna sem að þessi tilraun til þess að skerða kjör og réttindi hefur ekki vakið meiri hneykslan? Því hér er um að ræða störf sem lengi hefur verið litið fram hjá, hvað varðar verðmætamat. Skilaboð okkar borgarinnar hljóta að vera skýr: Við munum ekki með neinum hætti eiga aðkomu að því að skerða réttindi starfsfólks, hvort sem um er að ræða uppsagnarvernd, réttindi í fæðingarorlofi eða veikindarétt eða aðrar kjaraskerðingar. Tilraunir til slíks eru litnar mjög alvarlegum augum. Ábyrgðin er okkar, stöndum vörð um kjörin.