Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um barna- og unglingamenningarmiðstöð

Sanna Magdalena Mörtudóttir Tilkynning

Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að menningarmiðstöðvum í hverfum borgarinnar fyrir börn og ungmenni. Menningarmiðstöðvarnar verði gjaldfrjálsar þar sem börnum og ungmennum gefist kostur á að taka þátt í skipulagðri starfsemi og viðburðum þeim að kostnaðarlausu. Menningarmiðstöðvar eru stofnanir sem standa fyrir fjölþættri menningarstarfsemi, s.s. leiksýningum, myndlistarsýningum, tónleikum, kvikmyndasýningum, fyrirlestrum og námskeiðum.

Í menningarmiðstöðum er einnig oft að finna bókasafn og aðstöðu til fundahalda. Menningarmiðstöðvarnar verði opnar alla virka daga og um helgar þar sem áhersla er á skipulagða dagskrá. Opnunartími miðist við að börn og ungmenni geti sótt í menningarmiðstöðvarnar að skóladegi loknum. Áhersla verði á gjaldfrjálsan aðgang og dagskrá sem er hönnuð fyrir börn og ungmenni, af börnum og ungmennum, þar sem fjölskyldur geta fengið að vera með.

Leiðarljósið verði að þar geti börn og ungmenni hist og verið saman óháð efnahag og lagt stund á uppbyggilegt félagsstarf hvort sem það er í gegnum listsköpun, kvikmyndaáhorf og umræður eða aðra viðburði. Starfsemin þróist í takt við áherslur þeirra sem sækja menningarmiðstöðina. Menningu sem höfði til barna og unglinga verði gert hátt undir höfði og margbreytni fagnað, hér má t.a.m. nefna mikilvægi þess að leggja áherslu á mikilvægi þvermenningar í starfsemi. Þá verði foreldrum og fjölskyldum einnig boðið að taka þátt í félagstarfinu eftir því sem hentar. Menningar- og ferðamálasviði ásamt velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með tilliti til staðsetningar og útfærslu.

Barnamenningarhátíð hefur fest sig í sessi í Reykjavíkurborg en það er hátíð sem er haldin í apríl á hverju ári. Hátíðin er tileinkuð listum og menningu fyrir börn, með börnum og sköpunarverk barna fá að njóta sín á hátíðinni. Hátíðin rúmar margar listgreinar sem börn og fjölskyldur geta sótt sér að kostnaðarlausu. Barnamenningarhátíðin hefur það að markmiði að efla menningarstarf fyrir börn og ungmenni í borginni.

Fjárhagsleg staða marga barna og ungmenna í borginni er því miður slæm þar sem mörg þeirra koma frá heimilum þar sem ekki er fjármagn til þess að taka þátt í viðburðum sem kosta. Í mastersritgerð Soffíu Hjördísar Ólafsdóttur (2017) sem ber heitið „Ég væri bara til í að eiga eins og aðrir“: Reynsla reykvískra barna af því að búa við fátækt, kemur m.a. fram að viðmælendur vildu fleiri samverustundir með fjölskyldu og vildu auka gæði stundanna. Sumir viðmælendur töldu að þar væri fjárhagur ein stærsta hindrunin. Viðmælendur Soffíu voru börn foreldra sem höfðu fengið fjárhagsaðstoð í þrjá mánuði eða lengur.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti nýlega breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem er ætlað að ná til barna sem búa við sárafátækt. Þá hefur einnig farið af stað tilraunaverkefni borgarinnar í Breiðholti sem leitast við að efla þátttöku barna í frístundum, með því að hækka framlag til barna sem þar búa. Þar er leitast við að jafna þátttöku barna til jafns við þátttökuhlutfall barna í íþrótta- og frístundastarfi í öðrum hverfum borgarinnar. Þá hefur einnig verið samþykkt að setja á laggirnar styrktarsjóð til eflingar íþrótta- og frístundaþátttöku. Honum er ætlað til að greiða íþrótta- og frístundaaðilum fyrir umframkostnað vegna þátttöku í verkefninu og foreldrum þátttakenda til að standa straum af aukakostnaði, s.s. vegna þátttöku í viðburðum, kaupa eða leigu á búnaði.

Samt sem áður stendur eftir sú staðreynd að það er kostnaðarsamt að leggja stund á listsköpun og aðra sköpun sem fellur undir hatt barna- og unglingamenningar. Því er lagt til að komið verði á gjaldfrjálsum menningarmiðstöðvum fyrir börn og unglinga þar sem fjölskyldum þeirra er einnig boðin þátttaka. Menningar- og ferðamálasviði ásamt velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunar og hvernig og hvar best sé að menningarmiðstöðvarnar taki til starfa.

Börn og ungmenni hafa fengið gjaldfrjálsan aðgang að menningarstofnunum í gegnum skipulagðar skólaferðir en hér er lagt til að aðgangurinn verði efldur með því að veita þjónustu einnig að loknum skóladegi. Borgarbókasöfn og menningarhúsin í kringum þau bjóða upp á áhugaverða viðburði sem höfða til barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra en hér er lagt til að stofnuð verði fjölþættari þjónusta þar sem skipulögð dagskrá sé í boði á fleiri dögum.

Sé t.a.m. litið til næstu viku hjá Gerðubergi, má sjá að þrír áhugaverðir liðir eru á dagskrá sem höfða sérstaklega til barna; sýningin Heimsókn til Vigdísar, þar sem gestum er boðið að ganga inn í söguheim bókarinnar Vigdís. Bókin um fyrsta konuforsetann, fiktdagar á Verkstæðinu eru einnig í boði en þar er m.a. hægt að læra hvernig á að prenta í þrívídd og hanna barmmerki og svo er boðið upp á sögustund í spænsku en í vor verður boðið upp á sögustundir á litháísku, pólsku og spænsku. Allir þessir viðburðir eru gjaldfrjálsir.

Markmið tillögunnar er að bjóða upp á fleiri áhugaverða viðburði og oftar. Mikilvægt er að ekki kosti að sækja menningarmiðstöðvarnar þar sem fjárhagsleg staða margra er mjög slæm og mikilvægt að kostnaður sé ekki hindrun fyrir þátttöku barna og ungmenna. Í Úttekt á fyrirkomulagi úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka – Hvaða hópar leita aðstoðar? sem Ásdís A. Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir unnu árið 2020, kemur fram í svörum hjálparsamtaka að einstæðar mæður séu stór hópur þeirra sem leita til hjálparsamtaka á Íslandi. Einstaklingar sem leituðu til hjálparsamtaka bjuggu við bága fjárhagslega stöðu og stór hluti ráðstöfunartekna fór í föst útgjöld á borð við húsaleigu.

Fátækt og efnislegur skortur á ekki að bitna á börnum og ungmennum og mikilvægt að þeim gefist kostur á að leggja stund á það sem þau hafa áhuga á. Þá má einnig líta til þess sem Alþjóðahús gerði á sínum tíma en þau auglýstu t.a.m. viðburði sem voru ókeypis og opnir öllum líkt og ferð upp Esju. Þátttakendum var boðið að hittast fyrir utan Alþjóðahús, Hverfisgötu, og vera samferða í rútu. Þá stóð Alþjóðahús einnig fyrir öðrum áhugaverðum viðburðum eins og göngu um miðbæinn undir leiðsögn og ljóðakvöldi þar sem þátttakendur gátu lesið ljóð á ólíkum tungumálum og skýrt svo nánar frá þeim. Markmið þessarar tillögu er að bjóða upp á vettvang fyrir börn og ungmenni og eftir atvikum foreldrum og fjölskyldum þeirra. Mikilvægt er að þessi vettvangur sé til staðar til þess að sækja ýmsa fjölbreytta menningarviðburði.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram