Siðprúðasti her í heimi slátrar börnum

Símon Vestarr Pistill

Jæja, hvað á að segja um „eina lýðræðisríkið“ í Mið-Austurlöndum? Er eitthvað hægt að segja sem ekki hefur verið tíundað milljón sinnum? 119 Palestínumenn í valnum, þar af 31 barn. Átta Ísraelsmenn. Og aðdragandinn var ekkert sérstaklega frumlegur heldur. Ísraelsmenn halda uppteknum hætti og vísa fjórum tugum Palestínumanna (þar af tíu börnum) út af heimilum sínum til að rýma til fyrir landnemabyggðir sínar – glæpur sem er svo algengur hjá Ísraelsmönnum að þeir eru ekki neyddir til að líta á það sem glæp, þ.e.a.s. að flytja eigin íbúa yfir á hernumin svæði – og mótmælum er svarað með lögregluofbeldi. Al-Aqsa moskan er hertekin af Ísraelum á lokadegi Ramadan og lýðræðislega kjörin yfirvöld í Gasa, Hamas, gefa ísraelskum yfirvöldum fram að miðnætti 10. maí til að draga herlið sitt til baka, ellegar muni þeir skjóta eldflaugum.

Ísrael bakkar ekki.

Ísrael bakkar aldrei.

Hamas skýtur eldflaugum sem verða tveimur að fjörtjóni.

Ísrael svarar fyrir sig með fjöldamorði á börnum jafnt sem fullorðnum.

Innlegg Guðlaugs Þórs um að „allar hliðar“ verði að hætta að beita ofbeldi er nokkurn veginn það sem ég bjóst við. Þetta er alltaf sama drullan. Sömu glæpirnir gegn mannkyninu sem þrífast í skugga pólitísks heigulsháttar og aumingjaskapar. Við sem höfum einhverjar glórulausar útópíuhugmyndir um að Palestínumenn séu fólk og að fólk eigi að njóta einhverra mannréttinda erum reglulega hrifsuð út á skólalóð með hendurnar festar fyrir aftan bak og neydd til að horfa á tveggja metra háan kraftlyftingamann brjóta hvert beinið á fætur öðru í þriðjabekkingi og kveinka sér yfir því að sá litli skuli hafa gefið honum þrjá marbletti með spörkum sínum í sjálfsvörn.

Í frétt frá Rúv er talað um gagnkvæmar árásir Ísraela og Palestínumanna á Gasa. Ég skil að fréttamenn vilji vera nákvæmir en hefðum við talað um annars vegar loftárás fasista á Guernica í spænsku borgarastyrjöldinni og hins vegar þau riffilskot sem náðust á flugvélar Francos á meðan þær grönduðu 1600 manns, sem „gagnkvæmar árásir“? Þegar ein þjóð er kerfisbundið að murka lífið úr menningu annarrar, nánast algjörlega varnarlausrar þjóðar og stráfellir íbúa þeirrar þjóðar reglulega þá er það ekki „sjaldan veldur einn þá tveir deila“ ef hin þjóðin reynir að berjast á móti.

Ísraelsher kallar sig „siðprúðasta her í heimi“ en skaut til bana 214 friðsama palestínska mótmælendur árið 2018, þar af 46 börn; fólk sem gekk upp að fangelsisgirðingunni sem Ísrael kallar „landamæri Gasa“ til að mótmæla því að þurfa að búa við daglega áreitni hermanna, skort á nauðþurftum og aðeins fjórar klukkustundir af rafmagni á dag á landsvæði sem Amnesty International hefur kallað stærsta utandyrafangelsi veraldar.

Nýjasta árásin er sem sagt fastir liðir eins og venjulega.

Köllum þetta sínu rétta nafni.

Þetta eru ekki „átök Ísraels og Palestínu“.

Þetta er stríð Ísraels gegn Palestínu.

Þetta er þjóðarmorð.

Færum okkur aðeins aftur að líkingunni á skólalóðinni. Ef Ísrael er kraftlyftingamaðurinn, Palestína þriðjabekkingurinn og við, restin af heiminum, manneskjan sem er neydd til að horfa á með hendur klemmdar fyrir aftan bak, hver er það þá sem heldur okkur föstum? Svarið er augljóst: Bandaríkin. Ef herveldið í vestri héldi ekki hlífiskildi yfir hrottanum í austri þá myndi hann ekki haga sér svona. Joseph Robinette Biden, sem varð að hetju heimsbyggðarinnar vegna mannvonsku og drýsildóms andstæðings hans í forsetakosningunum 2020, er jafn þróttlaus í hnjáliðunum gagnvart Ísraelsríki og forverar hans – þar með talinn meðframbjóðandi hans 2008, hinn goðumlíki Obama, sem setti Ísrael aldrei stólinn fyrir dyrnar. Hugmynd Bidens um afleiðingar fyrir glæpi Ísraels var að hringja í Netanyahu og lýsa fyrir honum ósk sinni um að friðsamleg niðurstaða næðist „frekar fyrr en síðar.“ Ó, já, og ekki gleymdi hann að halda til haga sjálfsvarnarrétti Ísraels.

Ég geri fastlega ráð fyrir sama alþjóðlega vaðlinum um að Ísrael hafi rétt á að verja sig (þó svo að þær raddir séu blessunarlega fremur fáar hér á landi) en ef Hitler hefði hernumið Ísland, hefðu nasistar getað kallað morð á Íslendingum sjálfsvörn ef andspyrnuhreyfing hefði reynt að koma þeim úr landi? Hefur Ísrael rétt á að „verja sig“ á herteknu landsvæði? Nei, hernámslið hafa engin réttindi – enga heimtingu á öryggi eða friðsamlegri sambúð – í þeim löndum sem þau hernema. Þau hafa bara skyldur gagnvart fórnarlömbum sínum. Og sú brýnasta þeirra er skyldan til að draga dauðasveitir sínar til baka tafarlaust.

Þetta vita allir.

En Bandaríkin láta það aldrei gerast.

Megi nöfn varnarlausu barnanna sem ísraelskir bandamenn þeirra sprengdu í loft upp flúrast eilíflega á hjörtu þessara liðleskja.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram