Listi Sósíalista í Reykjavík suður

Ritstjórn Frétt

„Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun. Það þarf að útrýma fátækt og það strax. Burt með alla kúgun og ofbeldi bæði gagnvart fólki og náttúru og inn með kærleika, samkennd, samvinnu og mannhelgi.“ segir Katrín Baldursdóttir sem skipar fyrsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Slembivalinn hópur félaga í Sósíalistaflokknum raðar á lista flokksins fyrir kosningar. Reynslan hefur sýnt að niðurstaða slembivalinna hópa gefur í flestum tilfellum skýrari mynd af vilja grasrótar en kosning eða prófkjör.

„Sósíalistaflokkurinn hefur brýnt erindi. Að fólk sé ekki valdalaust í höndum stórkapítalista. Fólk á að hafa tækifæri til að taka þátt í sköpun og smíði samfélagsins og hafa aðgang að gjaldfrjálsu heilbrigðis-og menntakerfi. Við á listanum í Reykjavík suður munum berjast af einurð fyrir þessu og mörgum öðrum réttlætismálum eins og að auðlindir verði færðar almenningi.“

Símon Vestarr er í öðru sæti og er með skýran boðskap. „Kapítalismi elur af sér auðsöfnun, auðsöfnun elur af sér spillingu, spilling kæfir lýðræði og að reyna að stemma stigu við spillingu án þess að setja kapítalismanum skorður er eins og að reyna að vinna körfuboltaleik með hendur bundnar fyrir aftan bak. Þess vegna þarf að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og takast á við auðvaldið af fullum krafti.“

„Mér finnst löngu orðið ljóst að Útlendingastofnun og lögregla þjónusta ekki einstaklinginn en ganga þess í stað erinda rótgróinna hægri-pólitískra afla sem hafa það eitt markmið að viðhalda hinu kapítalíska kerfi á kostnað almennings og það sama á við um aðrar stjórnsýslustofnanir sem fara með mál okkar viðkvæmustu hópa,“ segir María Lilja Þrastardóttir sem vermir 3. sætið.

Í fyrsta sæti er Katrín Baldursdóttir, atvinnulífsfræðingur, blaðamaður og kennari. Katrín hefur starfað af fullum krafti í Sósíalistaflokknum frá upphafi og setið í Framkvæmdastjórn hans. Katrín bjó um skeið í Berlín og stundaði þar framhaldsnám í alþjóðastjórnmálum. Árið 2012 lauk hún mastersnámi í atvinnulífsfræðum, skrifaði mastersritgerð um verkalýðshreyfinguna og starfaði um tíma fyrir stéttarfélög. Hún er sósíalisti af lífi og sál.

Í öðru sæti er Símon Vestarr, bókmenntafræðingur, kennari, tónlistarmaður og faðir tveggja barna. Hann hefur starfað síðustu fjögur ár í Málefnastjórn Sósíalistaflokksins. Hann var alinn upp við sósíalísk viðhorf af foreldrum sínum, sér í lagi móður sinni, Helgu Bolladóttur. Þau voru verkafólk í Breiðholtinu sem innrættu Símoni skýra stéttarvitund og faðir hans, Hjalti Gunnlaugsson, kenndi honum ungum að spila á hljóðfæri. Auk kennslu í grunn- og framhaldsskóla, þýðinga og fjölbreyttra tónlistargjörninga hefur Símon skrifað á ýmsum vettvangi. Þar má telja ritsmíðar um stéttabaráttu í sögunni og samtímanum og afbyggingu kapítalisma og einstaklingshyggju, en einnig skáldverk og ljóð.

Í þriðja sæti er María Lilja Þrastardóttir Kemp, aktívisti, skríbent og laganemi. María hefur verið áberandi í feminískri baráttu síðustu ára og stofnaði meðal annars Druslugönguna. María bjó í Englandi um skeið en kom heim til Íslands á síðasta ári ásamt fjölskyldu sinni, sambýlismanni, börnum og hundi. Síðan þá hafa málefni flóttafólks verið henni ofarlega í huga. María trúir á skaðaminnkandi úrræði, hvort sem um ræðir fíkn eða önnur heilbrigðismál, afbrot eða hlýnun jarðar. Hana dreymir um skilningsríkt, sjálfbært og opið lítið samfélag fyrir allar manneskjur sem hér vilja búa í friði.

Í fjórða sæti er Ólafur Jónsson, eldri borgari og fyrrverandi skipstjóri til margra ára. Ólafur hefur unnið í íslenskum sjávarútvegi í yfir fimmtíu ár, mest allan tímann sem skipstjóri. Hann vann í átta ár sem tæknilegur sölumaður veiðarfæra erlendis, einkum í Norður- og Suður-Ameríku. Í þessu starfi ferðaðist Ólafur til flestra helstu fiskveiðiþjóða heims og hitti skipstjóra og útgerðarmenn víða um lönd. Ólafur var framkvæmdastjóri Hampidjan USA í þrjú ár. Ólafur hefur verið virkur andstæðingur kvótakerfisins frá upphafi þess. Hann vill tryggja að allir þegnar þjóðfélagsins hafi jöfn tækifæri í uppvexti, í námi og í atvinnulífinu. Ólafur telur að óréttlætið, óskilvirknin og spillingin í kringum fiskveiðarnar hljóti að kalla á afnám kvótakerfisins sem allra fyrst. Til að ná því markmiði starfar Ólafur í Sósíalistaflokknum.

Í fimmta sæti er Ása Lind Finnbogadóttir, framhaldsskólakennari og plötusnúður sem hefur starfað í Málefnastjórn flokksins í þrjú ár. Hún er móðir tveggja drengja og kennir heimspeki og sálfræði ásamt því að elska tónlist. Hún söng í kórum í 20 ár og stundaði dans í Kramhúsinu og víðar. Hún bauð sig fram til Alþingis árið 2013 og 2017 fyrir Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, lýðræði og sanngirni.

Í sjötta sæti er Jón Óskar, myndlistarmaður, hönnuður og fyrrum atvinnurekandi; stofnandi Gagarín og Gráa kattarins. Hann hefur í gegnum tíðina unnið að ýmsum félagsstörfum fyrir myndlistarmenn og setið í stjórnum SÍM og Nýlistasafnsins. Jón Óskar er sósíalisti og vill að það sé pláss fyrir alla.

Í sjöunda sæti er Sigrún Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri. Hún hefur starfað í Framkvæmdastjórn flokksins í tæp þrjú ár og hefur verið gjaldkeri flokksins í rúm tvö ár. Hún hefur alltaf verið pólitísk en var aldrei flokksbundin fyrr en nú. Hjarta hennar hefur alltaf slegið vinstra megin og með réttlátara samfélagi. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, bæði sem atvinnurekandi og launþegi og hefur hún bæði verið einyrki og haft fólk í vinnu.

 

Listi Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavík Suður:

  1. Katrín Baldursdóttir, atvinnulífsfræðingur
  2. Símon Vestarr Hjaltason, kennari
  3. María Lilja Þrastardóttir Kemp, laganemi
  4. Ólafur Jónsson, eldri borgari og fyrrverandi skipstjóri
  5. Ása Lind Finnbogadóttir, framhaldsskólakennari
  6. Jón Óskar Hafsteinsson, myndlistarmaður
  7. Sigrún Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri
  8. Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir, frístundaleiðbeinandi
  9. Bára Halldórsdóttir, öryrki
  10. Bárður Ragnar Jónsson, þýðandi
  11. Ellen Kristjánsdóttir, tónlistarmaður
  12. Björn Reynir Halldórsson, sagnfræðingur
  13. Krummi Uggason, námsmaður
  14. María Sigurðardóttir, leikstjóri
  15. Tamila Gámez Garcell, kennari
  16. Elísabet Einarsdóttir, öryrki
  17. Kristjana Kristjánsdóttir, leikskólakennari
  18. Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi
  19. Mikolaj Cymcyk, námsmaður
  20. Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor
  21. María Gunnlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og öryrki
  22. Andri Sigurðsson, hönnuður

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram