Aðkoma barna að uppsetningu grunnskólamötuneyta

Sanna Magdalena Mörtudóttir Tilkynning

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands hafa sett saman tillögu um aðkomu barna að uppsetningu grunnskólamötuneyta.

Ýmislegt hefur áhrif á upplifun barna á skólamáltíðum og mötuneyti og mikilvægt er að líta til radda þeirra við skipulagningu þjónustunnar. Lagt er til að unnið verði að eins árs tilraunaverkefni þar sem börn í grunnskólum Reykjavíkurborgar komi að mótun matseðla í skólum sínum. Þá er einnig lagt til að börn fái að hafa áhrif á uppsetningu mötuneyta sinna ef þau telja þörf á breytingu þar á. Uppsetning miði að þáttum líkt og skipulagningu rýmisins og lengd matmálstíma svo dæmi séu tekin. Mikilvægt er að leita eftir upplifunum og skoðunum barna á skólamáltíðum þegar verið er að skipuleggja matseðla og mötuneyti. Börn hafa kallað eftir fjölbreyttari fæðu í mötuneytum og því er lagt til að leitað verði til þeirra í ríkari mæli þegar verið er að skipuleggja matseðla í grunnskólum. Áfram verði unnið út frá viðmiðum um hollan mat en mark barnanna fái að setja svip sinn á matseðlanna.

Sem dæmi mætti nota slembival barna úr öllum bekkjum og mynda þannig hópa eftir árgöngum sem skipuleggi matseðla og fái utanumhald starfsfólks eftir því sem við á. Skóla- og frístundasviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með skólaráðum og nememdafélögum og skólasamfélaginu þannig að raddir barnanna móti matseðla og uppsetningu mötuneyta. Sviðinu verði einnig falið að útfæra í samvinnu við skólasamfélagið á hvaða skólum skuli byrjað, hvort að allir skólar taki þátt í verkefninu samtímis eða einn skóli í hverju hverfi til að byrja með. Áður en tilraunaverkefnið hefst verið skráð niður hversu mikil matarsóunin hefur verið í skólanum, fjöldi barna í mataráskrift. Að loknu tilraunaverkefni verði gerður samanburður til að sjá hvort einhverjar breytingar hafi orðið á þessum þáttum. Einnig verði fylgst með þessum þáttum reglulega á meðan á tilraunaverkefninu stednur. Markmið með þessu er að fylgjast með því hvort að breytingar hafi áhrif á matarsóun og fjölda skráninga í mataráskrift.

Fjölbreyttari og betri matur er eitt af því sem barnaþingmenn kölluðu eftir á barnaþingi sem var haldið árið 2019. Þátttakendur þingsins voru slembivaldir úr Þjóðskrá Íslands til að fá fjölbreyttan hóp barna til þátttöku. Auk þess var börnum sem tilheyra minnihlutahópum sérstaklega boðið að taka þátt svo að þessi aðferð endurspeglaði fjölbreytileika barna í landinu.

Um 84% grunnskólabarna í Reykjavík eru skráð í mataráskrift samkvæmt svarbréfi við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands dagsett þann 15. febrúar 2021. Áskriftin er misjöfn eftir hverfum borgarinnar. Flest börn voru skráð í mat í hverfi Háaleitis og Bústöða eða 90% og þar á eftir voru 89% barnanna skráð í Grafarholti-Úlfarsárdal og sama hlutfall í Laugardal. Fæst börn voru skráð í mataráskrift í Miðborg eða 76% barnanna, þar á eftir kom Breiðholt þar sem 78% barnanna voru skráð í mat.

Greitt er 10.290 króna jafnaðargjald á mánuði fyrir mataráskrift og ýmsar ástæður geta legið að baki þess að barn er ekki í mat, þ.m.t. efnahagsleg staða. Fulltrúi sósíalista hefur lagt fram tillögur þess efnis að matur verði gjaldfrjáls svo að öll börn hafi aðgang að mat í skólanum. Þær tillögur hafi ekki hlotið brautargengi. Það er einnig mikilvægt að tryggja að börn fái að hafa áhrif á hvað er í matinn, þar sem það sem er í boði höfðar ekki endilega alltaf til þeirra. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar um aukið úrval í mötuneytum grunnskóla var lögð fram þann 28. febrúar 2017 og snérist um að mötuneyti grunnskólanna auki úrval grænmetis- og vegan valkosta og tryggi að innihaldslýsing matvæla sé aðgengileg nemendum og foreldrum. Tillögunni var vísað til meðferðar hjá starfshópi um matarstefnu og þar er fjallað um aukið val í mötuneytum.

Matarstefna Reykjavíkurborgar fyrir árin 2018-2022 inniheldur fimm yfirmarkmið sem hver hafa sín undirmarkmið. Liðurinn um aukna neyslu fæðu úr jurtaríkinu í mötuneytum borgarinnar og þjálfun í matreiðslu grænmetisrétta er mikilvægur punktur hér. Ef börn og ungmenni eru að kalla eftir auknu vali í grænmetisréttum er mikilvægt að bjóða upp á slíkt. Þá er einnig fjallað um aðgerð gegn matarsóun í matarstefnu Reykjavíkurborgar en eftir því sem börn fá að velja hvað er í matinn og eru tengdari ferlinu þá hlýtur það að minnka matarsóun. Hér er einnig mikilvægt að skoða hvort að börn skammti sér sjálf á diskinn eða ekki og tengsl þess við matarsóun.

Nemendur í 6. bekk í Háteigsskóla unnu að áhugaverðu verkefni í febrúar 2018 þar sem þeir fylgdust með matarsóun og vigtuðu matarafganga 2.-7. bekkjar í borðsalnum í heila viku og komust að því að nemendur hentu miklum mat. Yfir alla vikuna endaði 28,7 kg af mat í ruslinu. Þau fundu út hvað sá matur kostaði fyrir vikuna og var það 42.000 krónur fyrir þessa eina viku sem samsvarar 1.512.000 kr. á einu skólaári. Sjá nánar hér:

Áætlað er að á landsvísu sé skólamat hent fyrir um 1,5 milljarð. Þetta kom fram hjá forsvarsmanni Máltíðar sem rýndi í gögn Hagstofunnar um matarskammta í leik- og grunnskólum. Með því að skipuleggja betur máltíðir er hægt að koma í veg fyrir matarsóun. Fulltrúi sósíalista telur því mikilvægt að þau sem borði matinn fái meira um það að segja hvað þau eigi að borða.

Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar var nýlega kynnt og fellur tillagan sem hér liggur fyrir um aðkomu barna í uppsetningu matseðils og mötuneyta í grunnskólum vel að aðgerð númer 16 í áætlun lýðræðisstefnunnar sem fjallar um lýðræði í skóla- og frístundastarfi. Þar kemur m.a. fram að sett verði saman áætlun yfir verkefni sem auka lýðræðislega virkni, efla lýðræðisvitund og gagnrýna hugsun barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi.

Að borða getur verið félagsleg athöfn og skipulagning rýma spilar þar stórt hlutverk varðandi upplifun. Það er því mikilvægt að hafa barnamiðaða nálgun að leiðarljósi við útfærslu mötuneyta. Börn hafa bent á ýmsa þætti sem hafa áhrif á matartímann en þar má nefna hávaðamengun, lengd matartímans og hvort þau fái að velja hvar er setið í matartímanum. Þá er einnig mikilvægt að huga að því hvar börn sem ekki eru í mataráskrift sitja, hvort það sé innan mötuneytisins eða ekki. Við útfærslu þessarar tillögu þarf að huga vel að því að ná til radda þeirra barna sem ekki eru í mataráskrift án þess að þau upplifi sig sem útundan, því oft liggja erfiðar aðstæður að baki þess að barn getur ekki verið í mat, t.a.m. fátækt.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram