Ó­sýni­legar konur

Sara Stef. Hildardóttir Pistill

Mér svelgdist á í fyrradag við að lesa fyrirsögnina um “lítinn róttækan feminista” og þá smættun á feminisma sem klingdi í eyrum mér. Tvennt stingur við þessa grein sérstaklega. Eitt hvernig höfundur fullyrðir að valdakerfin standi nú höllum fæti en ég veit ekki betur en að áratugur andstöðu við nýja stjórnarskrá súmmeri upp þá hörðu andspyrnu sem hefðbundið vald hefur tekið sér gegn þjóðinni sem valdið á þó að þjóna. Hitt er hvernig fjöll ku hafa verið færð í kvennabaráttunni, þökk sé núverandi forsætisráðherra. Hvort tveggja er galið að fullyrða.

Valdakerfið stendur ekkert höllum fæti og valdið hefur ekkert færst til. Um það vitna ítrekaðar og endalausar hryllingssögur kvenna af samskiptum sínum við kerfin sem valdið rekur: laga- og dómskerfið fer þar fremst í flokki í sifjapells-, heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum. Veikleikar heilbrigðiskerfisins afhjúpuðust í kjölfar Covid-19 og læknastéttin hefur komið upp um eigin kvenfyrirlitningu með því að draga lappirnar í þjónustu við konur í krabbameinshættu. Kvenfyrirlitning læknastéttarinnar er eitthvað sem konur hafa hvíslað um sín á milli í mörg ár.

Feminismi er barátta sem hefst í jaðri karllægra samfélaga og er jafnan talinn róttækur af karllægri meginstraumsmenningunni fyrir að berjast gegn feðraveldinu sem undirskipar konur og minnimáttar. Kerfisbundið og kerfislægt. Í jaðrinum eru mun fleiri konur en þær sem eru komnar nær valdakjarnanum og hafa samsamað sig stigveldi karla.

Konur í jaðrinum upplifa sig ósýnilegar og hvern dag sem baráttu. Þetta eru konur sem daglega eru smættaðar niður og að óbreyttu verða alltaf litlar og óróttækar. Þetta eru konurnar sem eiga mest á brattann að sækja þegar hefðbundin borgaraleg stjórnmál setja jafnréttismál í forgrunn því þær falla ekki að staðalímyndinni um konu sem borgaralega stjórnmál hafa áhuga á. Þetta eru konur sem skv. hefðbundinni skilgreiningu á fyrirmynd borgaralegra stjórnmála verða aldrei efni í fyrirmynd.

Staðalímyndin um konu í dag á rætur sínar í meginstraums kapítalisma sem fjallar alltaf um konur sem undirokaðar – sem söluvöru, vinnuafl og undir eignarétti hjónabandsins. Kapítalisminn getur ekki fjallað um konur öðruvísi en sem tækifæri til að græða á.

Og gróðinn er allstaðar: í ólaunuðu og ósýnilegum störfunum, í huglæga heimilishaldinu sem fjallar um að muna hvað þarf að gera og gera það (e. cognitive labour), í fjölskyldulífinu (e. emotional labour), í óútskýrðum launamuninum og “jafnlauna”-vottuðum störfunum, í óraunhæfum kröfum um fegurð og æsku kvenna og í normalíseraðri ofbeldismenningu karla gegn konum – þar er nýlegasta dæmið um KSÍ þar sem karllæg menningin þaggaði niður í konum sem vildu bera hönd fyrir höfuð sér. Það er aldrei fjallað um þetta hringrásarhagkerfi kapítalismans á ráðstefnum eða í fjölmiðlum nema þá til að græða á því um leið. Þetta er vítahringur kapítalismans.

Konurnar sem vinna ólaunuðu og ósýnilegu vinnuna, konurnar sem eiga varla til hnífs og skeiðar fyrir sig og sína, konurnar sem fara aldrei á Hvannadalshnjúk þegar þær verða fimmtugar og eru ekki í hlaupahópum um helgar, konurnar sem munu aldrei berjast gegn hrukkum eða fyrir því að konur “lifi í núinu”, konurnar sem munu aldrei berjast fyrir því að konur gangi inn í óbreytt stigveldi karla með stjórnunarstöðum og ofsalaunum, konurnar sem eru aldrei óaðfinnanlegar samkvæmt fegurðarstöðlum kapítalismansm, þetta eru konurnar sem kapítalisminn og borgaraleg stjórnmál hafa ekki áhuga á en stóla engu að síður á svo hagkerfið haldi áfram að snúast.

Þessar konur verða feminískar bylgjur framtíðarinnar ef fer fram sem horfir. Ítrekað og endurtekið efni um undirokaðar konur í kapítalískum heimi.

Feminískir aktívistar og þolendur eru ítrekað og endurtekið að reyna að svipta hulum og breyta menningunni og stjórnmálum. Það er streituvaldandi og lýjandi vinna sem þær borga toll af með heilsu sinni. Heilsu sem karllægt heilbrigðiskerfið hefur ekki haft áhuga á. Aktivismi fer svo sannarlega ekki fram í neinu sviðsljósi og þar eru engin standandi lófaklöpp.

Bylgjur af hryllingssögum kvenna í samskiptum sínum við valdakerfin munu ekki breyta neinu ef feminísk stjórnmál taka ekki til allra kvenna með lagabreytingum og fjármagni sem fylgir til að gera raunverulegar breytinga. Við heyrum ekki sögurnar frá jaðrinum fyrr en og ef þær konur lifa jaðarinn af. Það er ekki hægt að klappa sér á bakið ef breytingar á lögum skortir fjármagn til að takast á við þær menningarlegu breytingar sem þau fela í sér, ef tvíhyggjunni er viðhaldið í lagabálkum og hópar fólks þannig markvisst útilokaðir frá kerfum og normaliseraðri tvíkynja menningu og það er ekki hægt að anda léttar ef útfærsla verkefna í starfshópa er á kostnað fagfólks. Það er kannski byrjun en svo sannarlega ekkert “loksins”.

Við skulum klappa og fagna þegar það er tímabært.

Höfundur er sósíalískur feministi og félagi í Sósíalistaflokknum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram