Sósíalistaflokkurinn fordæmir tilraunir ríkisstjórnarinnar til að varpa af sér ábyrgð á hrörnun velferðarkerfa og innviða yfir á flóttafólk

Stjórnir flokksins Tilkynning

Það er öllum augljóst að sveltistefna allra ríkisstjórnar frá því fyrir aldamót hefur veikt velferðarkerfi og innviði samfélagsins. Sveltistefnan hefur grafið undan lífskjörum og öryggi almennings, einkum hinna tekjulágu. Nauðsynlegt er að endurreisa og efla velferðarkerfin og styrkja innviði, ekki síst félagslegt húsnæðiskerfi. Þetta eru aðkallandi verkefni sem stjórnvöld ætti að einbeita sér að.

Það er því skammarlegt og siðlaust þegar ráðherrar kasta allri ábyrgðinni á þessari stöðu yfir á fámennan hóp hælisleitenda. Fyrir utan langvarandi sveltistefnu má rekja aukið álag á veiklaða innviði síðustu misseri fyrst og fremst til stjórnlausrar fjölgunar ferðamanna og hingaðkomu verkafólks til að sinna þeim. Flóttafólki hefur líka fjölgað en fyrst og fremst frá Úkraínu og Venesúela, fólki sem ráðherrar buðu sérstaka vernd á Íslandi. Flóttafólki annars staðar frá hefur lítið sem ekkert fjölgað. Koma þess skapar hér engan sérstakan vanda.

Til að styrkja og efla grunnkerfi og innviði til að mæta fjölgun landsmanna og ofþenslu ferðaþjónustunnar er eðlilegast að leggja gjöld á ferðaþjónustuna svo hún greiði fyrir aukið álag sem hún veldur. Þetta er lagt til í auðlindastefnu flokksins. Þar er bent á komugjöld eða gistináttagjald. Nærtækast er að afnema sérstakan skattafslátt ferðaþjónustunnar, færa hana úr 11% þrepi virðisaukaskattsins yfir í 24% þrep, þar sem svo til öll atvinnustarfsemi er. 

Í utanríkisstefnu Sósíalistaflokksins er lögð áhersla á mannúð gagnvart flóttafólki en líka bent á hversu mikilvægt fólkið er fyrir framtíð okkar. Þar stendur:

„Í dag stendur heimsbyggðin frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar og flóttamenn hafa ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta er afleiðing styrjalda og valdabaráttu, efnahagslegs vanda veikstæðra þjóða í alþjóðavæddum kapítalisma og loftslagsbreytingar. Gera þarf ráð fyrir því að flóttafólki muni fjölga verulega á næstu árum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Allar þjóðir heimsins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að endurskoða útlendingalögin sem við störfum eftir í dag. Innflytjendum mun fjölga næstu ár og áratugi og styrkja íslenskt samfélag, rétta við óhagstæða aldurssamsetningu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir velferð og réttlæti innan samfélagsins. Hagsmunir okkar fara því saman með fólkinu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sér að nýju heimili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokkalega afkomu. Taka verður á móti flóttafólki með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð.“

Í stað þes að byggja stefnu sína í málefnum flóttafólks á mannúð og mildi hefur ríkisstjórnin kosið að kasta flóttafólki út á götu, út á guð og gaddinn, eins og landsmenn hafa fengið að horfa upp á þessa dagana. Þessi framkoma gengur þvert gegn vilja mikils meirihluta landsmanna, sem vill leyfa fólki að leita öryggis og gæfu í íslensku samfélagi.

Sósíalistaflokkurinn fordæmir framgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart flóttafólki og ráðagerðir hennar um að gera bjargarlaust fólk að sökudólgum fyrir langvarandi vanrækslu stjórnvalda sjálfra gagnvart innviðum, húsnæðisuppbyggingu og velferðarkerfum samfélagsins. 

Samið og samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram