Stöðvið árásir á Gaza

Stjórnir flokksins Tilkynning

Sósíalistaflokkur Íslands tekur undir áskorun samstöðufundar með Palestínsku þjóðinni á Austurvelli 15. október 2023. Þar segir: 

„Í augsýn alls heimsins er framið þjóðarmorð sem verður að stöðva.

Ísland hefur viðurkennt rétt palestínsku þjóðarinnar til að stofna eigið ríki og að palestínskir flóttamenn eigi rétt á að snúa aftur til heimkynna sinna. Það er skylda íslenskra stjórnvalda, sem lýsa yfir mikilvægi og réttmæti mannréttinda og alþjóðalaga, að liðsinna Palestínumönnum í baráttu þeirra fyrir frelsi og mannréttindum í eigin landi.

Með ofurefli liðs og öflugum hernaðartækjum ræðst her Ísraels til atlögu gegn Palestínumönnum á Gaza. Hús eru jöfnuð við jörðu, sjúkrahús og skólar eyðilagðir og þúsundir manna drepnir. Á hverjum degi ræðst landtökufólk úr ólöglegu landtökubyggðunum á Vesturbakkanum gegn bændum og öðrum íbúum Palestínu, þeir brenna akra, höggva olífutré sem tekur áratugi að rækta, bera eld að húsum og bifreiðum – og drepa jafnt unga sem aldna.

Við skorum á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra að senda ríkisstjórn Ísraels skorinorða kröfu um að stöðva fjöldamorðin á Gaza tafarlaust!“

 

Ísland er herlaus þjóð og ætti ætíð að standa með friði gegn stríði, krefjast vopnahlés og viðræðna en ekki leggjast á sveif með þeim sem vilja beita hervaldi til að knýja fram þá niðurstöðu sem þeir telja æskilega.

Jöfnuður, mannvirðing og samkennd er bestu leiðarljósin til að fyrirbyggja stríðsátök. Því miður hafa svokölluð Vesturlönd aldrei verið fjær því að láta þessi markmið vísa sér leið. Lýðræðið innan ríkjanna er veikt, áhrif almennings lítil og stjórnvöld þjóna fyrst og fremst fjármagnseigendum og eigendum stórfyrirtækja. Og þar með hergagnaframleiðendum. Afleiðingin er viðvarandi stríð undanfarna áratugi og vaxandi spenna í samskiptum þjóða, grimmari ofbeldi og linnulausar mannfórnir samhliða hervæðingu hugarfarsins.

Sósíalistaflokkurinn hvetur fólk til að láta ekki undan þrýstingi stjórnvalda um að velja ætíð stríð og ógn, láta undan þeim ótta og þeirri andúð sem alið er á. Við munum ekki eignast bjarta framtíð nema hún sé byggð á von, virðingu og kærleika. Framtíð sem byggð er upp með hervaldi verður grimm, myrk og andstyggileg. Ef almenningur lætur undan stjórnvöldum sem knúin eru áfram af hagsmunum hergagnaframleiðenda mun hann uppskera heim þar sem stríð verður viðvarandi. Og stríð magna upp hatur og hefnd, allt það sem við ættum helst að forðast.

Ekki trúa hergagnaframleiðendum sem segjast ætla að færa okkur frið með vopnavaldi. Þau loforð stóðust ekki í Írak eða Afganistan, Sýrlandi eða Líbíu og þau munu heldur ekki rætast í Úkraínu eða Palestínu. Leiðin til friðar liggur út úr stríði.

Í stefnu Sósíalistaflokksins um utanríkismál segir:

 

„Ísland er smáþjóð sem hefur þurft að berjast fyrir fullveldi í tímans rás en hefur þrátt fyrir smæð sína náð að öðlast sjálfstæði frá nýlenduríkjunum. Þá dýrmætu reynslu ber að virða og ber okkur skylda til standa með öðrum undirokuðum þjóðum í svipuðum sporum. Í því samhengi má nefna grannþjóðir okkar eins og Grænlendinga og Færeyinga sem og fjarlægar og stríðshrjáðar þjóðir eins og Palestínumenn og Kúrda.

Í stað þess að vera máttlaus smáþjóð innan hernaðarbandalags viljum að þjóðin styrki samband sitt og samvinnu við nágrannaþjóðirnar og aðrar smáþjóðir og komi á friðarbandalagi. Slíkt bandalag verði valkostur á móti núverandi veru landsins í Nató. Á sínum tíma var innganga í Nató ekki borin undir þjóðina. Það ætti að gera sem fyrst. Á þann hátt má vinna betur að mannréttindum og lýðræðislegri stjórnskipan innan heimsins gegn auðvaldi og kúgun stærri ríkja gegn smærri. Þá skal Ísland ævinlega vera herlaust og vopnlaust. Við fordæmum allt ofbeldi og styðjum á engan hátt stríðsátök eða kúgun eins ríkis gegn öðru.“

Samið og samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins laugardaginn 21. október 2023.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram