Daníel: Innprentað í okkur að ef þú kemur úr fátækt verðurðu fátækur alla tíð

Hin Reykjavík

2. Daníel Örn Arnarsson
Hin Reykjavík

„Ég var alinn upp í Breiðholtinu af einstæðri móður. Hún vann fram eftir degi og skúraði svo í bílaumboðinu Heklu á kvöldin. Þó hún væri alltaf í vinnunni áttum við bara fimmtánþúsundkall eftir þegar var búið að borga alla reikninga. Ég fór stundum í bíó með poka fullan af krónum, afgangsklinki, mér fannst það mjög kúl.

Ég fann aldrei voða mikið fyrir að við værum fátæk, nema kannski á jólunum. Ég var samt oft að elda fyrir systur mína og sækja hana í skólann. Stundum fórum við með mömmu í vinnuna á kvöldin og vorum að leika okkur innan um alla flottu bílana. Þetta var um aldamótin, þegar þetta svokallaða góðæri var að fara af stað. Við fundum ekkert fyrir því, nema kannski að ég átti auðveldara með að fá vinnu. Þrettán ára byrjaði ég að taka vaktir í búðinni sem mamma vann í og þegar vinir mínir fóru í unglingavinnuna var ég farinn að moka skurði.

Þegar ég flutti að heiman bjó ég fyrst hjá tengdó og fór svo á leigumarkað. Þar fundum við konan fyrir þessu valdi sem leigusalar hafa. Þeir geta haldið manni á stuttum samningum og breytt þeim og hent manni út. Einu sinni vorum við búin að finna og skoða íbúð og vorum alveg að flytja í hana þegar leigusalinn hætti við og gaf frænku sinni hana í staðinn, hún var nýkomin frá útlöndum. Svo við fluttum inn á hótelið þar sem ég var að vinna og bjuggum í hótelherbergi í hálft ár. Konan mín vann á daginn og ég vann á hótelinu á nóttinni.

Á þessu hóteli sá ég allskonar glataða framkomu. Það voru bara útlendingar sem þrifu, konur á lágmarkstaxta að vinna allt of mikið, og það var stöðugt verið að breyta vöktunum þeirra án þess að láta þær vita. Nú er ég að vinna með pólskum strák sem borgar upp undir tvöhundruðþúsund krónur á mánuði fyrir einhverja holu. Konan hans þarf að vinna sjö daga í viku. Það eru margir sem sjá ekki að þetta sé vandamál, sjá ekki fólkið, því þau eru alltaf í vinnunni. Þetta er mér hugleikið, þetta eru náttúrulega vinir manns.

Nú er ég giftur tveggja barna faðir. Við vinnum bæði og ég setti námið á pásu, er núna að borga námslánin. Sem betur fer er ég ekki á leigumarkaði lengur, en við eigum samt aldrei pening um mánaðamótin. Ég tel dagana þar til yngra barnið okkar fer í leikskóla, því við borgum núna áttatíu og fimm þúsund krónur á mánuði fyrir dagforeldri.

Það er einhvern veginn orðið innprentað í mann að ef maður kemur af fátækt, þá eigi maður von á að verða fátækur líka. Við erum sjúklega heppin, við höfum aðstandendur sem geta hjálpað okkur og mér finnst ég hafa það gott, miðað við hvaðan ég kem. En það er auðvitað glatað að maður hafi þurft að reiða sig á það. Við eigum öll að hafa jöfn tækifæri, það ætti ekki að vera undir ríkidæmi eða tekjum fjölskyldunnar komið hvort fólk fái tækifæri í lífinu. Við eigum öll að geta staðið á eigin fótum.“

Daníel Örn Arnarsson var kjörinn í stjórn Eflingar í mars. Hann er nú í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram