Luciano: Uppsveiflan ýtti undir stétta- og misskiptingu

Hin Reykjavík

28. Luciano Dutra
Hin Reykjavík

„Ég fæddist í neðra lagi samfélagsins í Brasilíu. Brasilía er mjög stéttskipt, og manni hættir til að festast í stéttinni sem maður fæðist í. En með því að feta menntaveginn á maður möguleika.

Á unglingsárum hjálpaði ég verkamannaflokki Brasilíu, undir forystu Lula. Hann bauð sig fram nokkrum sinnum og náði loks kjöri árið 2002. Bandalagið sem hann leiddi til valda skilaði miklum árangri og bætti hag og rétt fátækra og verkafólks svo um munaði.

Ég las ungur Jorge Luis Borges, en hann var mikill aðdáandi íslenskra bókmennta, og ég smitaðist af honum. Þess vegna hélt ég náminu mínu áfram á Íslandi, lærði að þýða úr íslensku í portúgölsku, til að geta miðlað þessum bókmenntum á móðurmálinu.

Þegar ég kom hingað, um leið og ég gat lesið mér til gagns, gat ég ekki annað en fylgst með samfélagsumræðunni. Mér þótti merkilegt hvað hægriflokkurinn hafði mikinn stuðning. Ég vann á veitingastað, og aðalkokkurinn, ungur strákur, sagði á kjördag að hann vildi hafa hlutina einsog þeir voru. Margt ungt fólk var í þessum gír. Það kom flatt uppá mig. Venjulega hallar ungt fólk sér til vinstri, og til breytinga.

Þegar einkavæðingin byrjaði á fullu hérna 2003, þá fékk ég deja-vu tilfinningu. Við höfðum reynt þetta á tíunda áratugnum heima og það hafði ekki farið vel. Fylkisbankarnir, lestarkerfið, járn- og stálverksmiðjur og símafyrirtæki voru einkavædd. Þetta leiddi af sér fákeppni, verri þjónustu, há gjöld, og atvinnuleysi. Þetta var mjög slæmt fyrir launafólk. Og ég hef ekkert minnst á heilbrigðis- og menntakerfið, sem voru skilin eftir í molum.

Undir Lula var sett á bótakerfi svo börn kæmust í skóla. Mæðurnar fengu bætur svo karlarnir eyddu ekki öllum peningunum í brennivín. Þetta var mjög sniðugt. Alls kyns aðrar bætur voru settar á til að hjálpa fátækum. Þetta hefur hjálpað Brasilíu alveg ofboðslega. Áhrif heimskreppunnar voru til dæmis milduð mikið, því innlend neysla hafði aukist og aðgengi fátækra að íbúðalánum á lágum vöxtum var greiðara.

Uppsveiflan og einkavæðingin á Íslandi ýtti í mínum augum undir stétta- og misskiptingu. Ísland er búið að brenna sig, svo góðærið núna er á öðrum forsendum. Ef flokkar gætu staðið við loforð sín um að styrkja heilbrigðiskerfið og innviði, þá væri það ágætis byrjun. Eins og er eru það helst litlir hópar, einstaklingar, sem græða á þessu ástandi. Góðærið ætti að skila sér í betri kjörum fyrir verkafólk og bættri grunnþjónustu. Bótakerfið ætti að vera einfaldara og það ætti að hætta þessu bulli með að smáskammta fólki peninga. Við eigum nóg til.“

Luciano Dutra er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík í vor #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram