Anna: Borgin ætti að vera mórölsk fyrirmynd
24.04.2018
—
3. Anna Maria Wojtynska
Hin Reykjavík
Hin Reykjavík
„Ég kem frá Varsjá. Ég vildi frá unga aldri sjá Ísland og fékk tækifæri til þess gegnum námsstyrk þegar ég var í háskólanámi árið 1996. Með dálítilli eftirgrennslan hafði ég komist að því að hér væri pólskt samfélag, um þrjú hundruð manns, og planið var að athuga hvers vegna þau höfðu flust hingað og þessháttar. Ég hélt fyrst að ég gæti talað við alla. En svo hefur rannsóknin víkkað út og í millitíðinni hefur Pólverjum á Íslandi fjölgað upp í fjórtán þúsund manns!
Á þessum tíma var dýrt og erfitt fyrir Pólverja að komast til Íslands. Maður þurfti að sanna að maður gæti séð fyrir sér, eða að maður hefði miða úr landi aftur. Fólkið sem kom hingað fór mikið til í fiskvinnslu, sem voru þá margar nýlega einkavæddar bæjarútgerðir. Eins og hefur gerst víða með svona ný opnaðan einkageira, þá sóttust eigendurnir mikið eftir erlendu starfsfólki.
Í bólunni 2006 gerðist þetta sama í byggingargeiranum. Og svo aftur núna í ferðamannabólunni. Munurinn er sá að áður voru starfsmenn ráðnir beint af vinnuveitanda, sem tryggði þeim betri réttindi. Nú er fólk mikið til starfsmenn undirverktaka, ráðið til skamms tíma eða ráðið gegnum starfsmannaleigur. Þetta á ekki bara við um erlenda verkamenn. Ég er til dæmis ekki ráðin beint hjá háskólanum, heldur gegnum tímabundin rannsóknarverkefni. Þannig hef ég ekki réttindi fastráðins starfsmanns.
Verkefnið sem ég er að vinna í núna er til þriggja ára. Mér finnst ég mjög heppin, það gefur mér andlega ró og smá fjárhagsstöðugleika. Þannig vinn ég mér líka inn réttindi hjá stéttarfélaginu, en yfirleitt missi ég þau strax aftur því verkefnin eru til skamms tíma og ekki samfelld. Þetta verkefni klárast í ágúst á næsta ári.
Einu sinni, í dálítilli örvæntingu, fór ég að þrífa hjá Þjóðminjasafninu. Þar hafði þrifunum ekki verið úthýst, heldur var ég ráðin beint. Það var alger opinberun. Það var passað mikið betur uppá réttindin mín, ég þurfti ekki að berjast fyrir þeim, og ég fékk alls kyns bónusa og uppbót. Ég hélt þau ætluðu aldrei að hætta að borga mér.
Stofnanir eins og háskólinn og borgin ættu að vera móralskar fyrirmyndir í þessum efnum. Auðvitað ætti háskólinn að bjóða nemum sem vilja spreyta sig að kenna í tímum en það ætti ekki að vera grundvöllur kennslunnar. Reykjavíkurborg gæti líka passað betur upp réttindi verktaka og annars starfsfólks sem ekki er ráðið beint. Kannski kostar aðeins meira að fara vel með fólk, en það ætti samt að gera það.“
Anna Maria Wojtynska er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins