Helga: Bærinn hefur algjörlega brugðist börnunum mínum

Hinn Kópavogur

13. Helga Hólmfríðardóttir
Hinn Kópavogur

Ég er yngst sex systkina en við fluttum fyrst í Kópavoginn þegar ég er átta ára. Þrjú af mínum systkinum voru með þroskaröskun og það gekk á ýmsu heima. Fjölskyldan var mjög brotin og ég ólst upp við stanslaust ofbeldi og barsmíðar. Maður vissi aldrei í hvernig skapi pabbi yrði og mamma réð engan veginn við hlutina. Bæði beitti faðir minn hana og okkur krakkana ofbeldi og hún þjáðist sennilega af miklum kvíða og þunglyndi. Hún lést eftir að hún varð fyrir bíl í Kópavoginum þegar ég var 11 ára gömul.

Minningar mínar frá bernskuárunum eru á þá leið að mér fannst aldrei vera til matur og allir voru alltaf öskrandi og berjandi. Ég var lögð í einelti í skólanum en ég man eftir krökkunum gera aðsúg að mér í fyrsta leikfimitímanum því ég var bara grútskítug. Kennarinn kom og skrúbbaði mig í sturtunni en allir voru í leikfimifötum nema ég enda átti ég ekki slík föt. Það var hræðilegt að fara í skólann en enn hræðilegra að fara heim. Ég vissi í raun ekkert hvert ég ætti að fara.

Eftir að mamma dó tók pabbi saman við aðra konu og þá lærði ég hvað reglur eru. Það voru oft ansi harkalegar reglur og ég man að ég gerði iðulega hluti sem voru bannaðir bara af því þeir voru bannaðir. Þau skildu seinna en faðir minn er búinn að loka á samskipti við okkur öll systkinin í dag og sakna ég einskis þar.

Ég flutti að heiman átján ára og fór að búa með þáverandi kærastanum mínum sem hefur alla tíð reynst mér ótrúlega vel. Ég var afskaplega villuráfandi unglingur og vissi einhvern veginn ekki neitt en ég var heppin að kynnast þessum strák því hann kenndi mér margt. Það var ekkert mál að vera á leigumarkaðnum á þeim tíma en ég man ekki eftir neinum sérstökum fjárhagsáhyggjum þrátt fyrir að lifa ekki í neinu ríkidæmi. Ég kláraði aldrei stúdentinn en ég var eiginlega ákveðin í því að klára hann aldrei af því það var eitthvað sem allir gerðu. Ég vann hin ýmsu störf á þessum árum, vann mikið í búðum og sjoppum og mér fannst virkilega gaman að vinna.

Seinna tók ég saman við fyrri barnsföður minn og við keyptum okkur íbúð í Grafarvoginum í gegnum Verkó. Við eignuðumst tvö börn með stuttu millibili en ég var á þessum tíma bæði að vinna og taka nám í kvöldskóla. Ég vissi aldrei hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór því það var enginn sem ráðlagði mér neitt. Ég átti ekki mömmu eða neitt bakland í fólki sem talaði við mig um hlutina. Ég endaði þó á því að fara í læknaritaranám og naut þess að læra. Eftir námið gat ég valið úr vinnum en ég fór að vinna á slysadeild landspítalans.

Sonur minn var greindur ungur á einhverfurófinu og var erfiður svo ég lenti stundum í vandræðum með að fá pössun fyrir hann þegar ég var að reyna að vera í vaktavinnu. Við skildum svo hjónin þegar yngra barnið mitt var sex ára og ég tók saman við mann sem ég gerði mér enga grein fyrir þá að væri beinlínis siðblindur og stórhættulegur. Ég hélt virkilega að hann væri einstakt ljúfmenni og skildi ekkert í því þegar fólk var að benda mér á að það væri eitthvað bogið við hann. Við eignuðumst dóttur saman en ég fékk gríðarlega mikla grindargliðnun sem olli mér verulegum heilsufarsvandamálum auk þess sem ég fór versnandi af kvíðaröskun.

Það endaði því með því að ég varð óvinnufær og fékk örorkumat. Við vorum í miklu fjárhagsbasli og fljótlega eftir að kreppan skall á fluttum við til Danmerkur. Þar reyndi ég að fara í áframhaldandi nám en varð á endanum að gefast upp vegna mikillar kvíðaröskunar.

Eldri dóttir mín var tólf ára þegar við fluttum út og þegar hún var orðin fimmtán ára leið henni orðið svo illa að hún fékk að fara aftur til Íslands og flutti þá til pabba síns. Hún fór í skóla á Íslandi en var enn í mikilli vanlíðan. Það er svo ekki fyrr en að Blátt áfram kemur í heimsókn í skólann hennar og er með fræðsluerindi að hún brotnar saman og segir frá þriggja ára samfelldri kynferðislegri misnotkun af hendi stjúpföður síns. Á þeim tímapunkti var sambandið orðið verulega slæmt en tíminn í kjölfarið er meira og minna í móðu í minningunni hjá mér.

Ég kom þó fljótlega heim til Íslands með hin börnin mín og við gerðum allt til að reyna að kæra málið. Það vann hins vegar gegn okkur að brotin höfðu átt sér stað í öðru landi og þrátt fyrir að sálfræðingar dæmdu hana fullkomlega trúverðuga var málið fellt niður. Dóttir mín gekk í kjölfarið í gegnum ofboðslega erfiða tíma og er varanlega markeruð af þessari reynslu. Hún mun aldrei bera þess bætur þrátt fyrir að vera að standa sig ótrúlega vel í dag. Það má eiginlega segja að við séum öll búin að vera í margra ára áfalli eftir þetta.

Ég bjó inná ættingjum í Kópavoginum þegar ég kom heim og fékk svo félagslega íbúð hjá bænum og yngri dóttir mín sem er greind með taugaraskanir fór í stóran skóla í nýrri hluta bæjarins. Það gekk ekki nógu vel enda skólinn bara allt of stór fyrir hana svo ég sótti á endanum um flutning yfir í skóla miðsvæðis í gamla bæjarhlutanum. Ég var sjálf á örorkubótum ein með þrjú börn og sótti því um strætókort hjá bænum svo hún gæti tekið strætó milli skólahverfanna en því var synjað. Ég fékk hins vegar á endanum aðra félagslega íbúð nær nýja skólanum hennar.

Hún var ekki búin að vera lengi í skólanum þegar kom að Reykjaferð í árganginum og þá vildi skólinn ekki taka hana með að Reykjum á þeim forsendum að þau væru ekki örugg með hennar greiningar og atferli. Það var alveg gríðarlegt áfall fyrir hana og okkur fjölskylduna enda áttum við í fullu fangi við að reyna að byggja okkur upp og halda geðheilsunni á þessum tíma og hún aldrei þekkt fyrir annað en að vera ljúf og blíð. Þetta hafði þær afleiðingar í för með sér að hún gat ekki hugsað sér að mæta í skólann. Hún var því án skóla um tíma en komst svo í skammtímaskólavist í nokkrar vikur áður en hún fékk skólavist í þriðja skólanum. Henni leið heldur ekki nógu vel í þeim skóla og var afskipt svo sálfræðingurinn hennar mælti með að hún færi í einkarekinn skóla í Reykjavík. Ég hef auðvitað ekki mikil fjárráð og sótti um að Kópavogsbær aðstoðaði með skólagjöldin en því var synjað hjá bænum svo ég þurfti á endanum að leita til Velferðarsjóðs Barna.

Skólaganga barna ætti auðvitað að vera algjörlega gjaldfrjáls, bæði hvað varðar námsgögn, skólaferðalög og máltíðir en mér finnst svo mikilvægt að við höldum vel utan um börnin okkar. Bærinn hefur algjörlega brugðist hvað það varðar. Öll börn eiga að passa í einhvern ramma en börnin mín hafa aldrei passað í þennan ramma ekki frekar en ég sjálf. Það er líka bara svo margt að í samfélaginu okkar sem ætti ekki að þurfa að vera þannig og ætti að vera nokkuð einfalt að laga.

Ég varð fyrir því að TR ofgreiddi mér eitthvað í fyrra og þeir eru að draga það af mér núna svo ég er mun tekjulægri í ár. Og svo kemur LÍN og rukkar mig fyrir eitthvað sem ég get ekki greitt af. Hjá þeim var ég orðin of tekjuhá á síðasta ári. Ég skil heldur ekki hvers vegna námslán eru ekki felld niður hjá fólki sem er nokkuð útséð með að nái ekki að komast á vinnumarkaðinn aftur.

Ég er sjálf búin að fara í gegnum VIRK og reyna að fara út á vinnumarkaðinn aftur en það hefur ekki gengið enda fer stoðkerfisvandi minn versnandi. Ég hef enga möguleika á að vinna mig upp úr því ástandi sem ég bý við en ég finn fyrir fordómum fólks í minn garð fyrir að búa í félagslegri íbúð. Ég kvíði líka alltaf samtalinu sem íslendingar fara gjarnan í þegar þeir fara að spyrja mann út í hvað maður geri. Það er alltaf öll áhersla á vinnuna og hvað maður vinni við.

Ég á erfitt með að skilja hvers vegna fólk í erfiðri stöðu kýs hægri flokka en ég lærði það snemma eða þegar ég var á Núpi í skóla sem unglingur hvernig maður greinir skoðanir sínar út frá hægri og vinstri mennsku og ég er og hef alltaf verið langt til vinstri. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með vinstri pólitíkina undanfarin ár og legg því Sósíalistaflokknum heilshugar lið. Við verðum að laga hlutina í þessu samfélagi.

Helga Hólmfríðardóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Kópavogi #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram