Hólmsteinn: Lausnirnar koma frá fólkinu og samtökum fólksins

Hin Reykjavík

14. Hólmsteinn A. Brekkan
Hin Reykjavík

„Drifkraftur minn í stjórnmálaþátttöku er baráttan gegn óréttlæti. Ég er sannfærður um að betra samfélag sé mögulegt og tilbúinn að berjast fyrir því. Grunnur þess samfélags er rétturinn til húsnæðis, atvinnu, skólagöngu og umönnunar. Aðgengi að grundvallar mannréttindum og vellíðan má ekki stjórnast af þyngd pyngjunnar.

Húsnæðismál, húsnæðismál og húsnæðismál eru mín helstu baráttumál því þau snerta alla þætti samfélagsins; atvinnu-, heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál svo nokkur séu nefnd. Húsnæðisöryggi er einn af hornsteinum samfélagsins, öruggt húsaskjól er ekki forréttindi heldur sjálfsögð mannréttindi. Hlutverk ríkis, sveitarfélaga og opinberra aðila er meðal annars að beita íhlutandi frumkvæði og eftirliti til að auðvelda fjármögnun og lágmarka húsnæðiskostnað almennings með samhæfðum aðgerðum. Þörf er á virkum húsaleigumarkaði sem starfar til langs tíma á Íslandi líkt á hinum Norðurlöndunum og víðar. Með því að beina stuðningi að, og auka framboð á, leigu-, kaupleigu- og búseturéttarhúsnæði og stýra fjármögnun í farveg hjá opinberum íbúðalánasjóði án hagnaðarsjónarmiða verða til forsendur til að jafna sveiflur á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir verðbólumyndun og þá um leið hrun í framhaldinu.

Séreignarstefnan hér á landi hefur undanfarna áratugi verið samkomulag ráðandi afla. Gengið hefur verið út frá því að allir kaupi íbúð, líka sá hluti launafólks sem ræður ekki við íbúðarkaup á því verðlagi og með þeim okurvaxtakjörum sem verðtryggingin leiðir af sér. Vitað er að fyrir hrun lenti nær þriðjungur íbúðakaupenda í erfiðleikum með húsnæðislán og enduðu í vítahring sem ekki var hægt að losna úr. Árið 2008 var 90% af íbúðarhúsnæði á Íslandi skráð sem séreign en það var með því mesta sem gerðist í heiminum. Gögn benda til þess að fjármagnskreppur komi yfirleitt hvað harðast niður í löndum þar sem mest er um séreign á íbúðarhúsnæði.

Augljós lausn felst því í að hlúa að húsnæðissamvinnufélögum með leigu- og búseturétt og sjálfseignarstofnunum við fjármögnun íbúðarhúsnæðis á kostnaðarverði og án hagnaðarkröfu. Stóraukið framboð af leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum í húsnæðissamvinnufélögum gæti orðið skilvirkasta leiðin til að veita markaðsaðhald, samkeppni, og draga með því úr sveiflum á húsnæðismarkaði og ósjálfbærri hagnaðarkröfu fjárfesta og spákaupmanna á íbúðamarkaði.
Samfélög þróast, búsetu- og fjölskyldumynstur breytast og því verður skýr opinber húsnæðistefna að fylgja þeirri þróun. Markmið húsnæðisstefnu stjórnvalda á því að beinast að því að tryggja öllum aðgang að öruggu húsnæði.

„Réttur á öruggu húsnæði“ ætti að vera meðal grundvallarlaga íslenska lýðveldisins.

Virk vitund landsmanna um þann rétt sinn styrkti ákveðnari kröfur þeirra á hendur stjórnvöldum að beita skilvirkum tækjum svo veita megi öllum almenningi aðstöðu til að njóta slíkra gæða án þess að taka á sig áhættu og greiðslubyrðar til langs tíma, umfram getu og vilja.

Nú er skortur á íbúðarhúsnæði fyrir fjölmenna hópa fólks til viðbótar þeim sem standa veikt fjárhagslega eða eru að koma inn á húsnæðismarkaðinn að lokinni skólagöngu. Því er nauðsynlegt að grípa til róttækra aðgerða strax og voga sér að hugsa út fyrir kassann. Einhverjir stjórnmálamenn gera sér grein fyrir þeim bráðavanda sem ríkir á húsnæðismarkaðnum, einkum skorti á leiguíbúðum, en afneitun flestra þeirra er hrópandi.

Lausnirnar koma frá fólkinu í landinu og samtökum fólksins.“

Hólmsteinn Brekkan er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram