Jón: Mér var sagt að strípaðar örorkubæturnar væru of háar til að fá félagslega íbúð

Hinn Kópavogur

21. Jón Baldursson
Hinn Kópavogur

“Ég er fæddur í Reykjavík en var í barnaskóla í Svíþjóð, fluttist síðan með fjölskyldunni til Akureyrar og fór þar í iðnskóla. Ég var strax farinn að vinna verkamannavinnu í grunnskóla en fór síðan á síðutogara 18 ára gamall og starfaði þar í 2 ár. Ég var búinn að upplifa mjög ungur hvað það er að vinna erfiðisvinnu. Tók síðan hlé frá sjónum, lærði smíðar en svo á sjóinn aftur.

Á sjónum var ég á netum, línu og nót en síðan lá leiðin á varðskipin. Ég er nú orðinn svo gamall að ég tók þátt í 50 mílna og 200 mílna þoskastríðunum á gamla varðskipinu Þór, síðan á Árvakri og síðast varðskipinu Baldri. Þetta var auðvita gríðarleg lífsreynsla og reyndi heilmikið á mann. En ævintýralegt var það. Eftir þennan tíma sneri ég mér alfarið að smíðunum og hef verið í þeim bransa í 40 ár. Þetta er orðinn mjög löng starfsævi fyrir mann sem er þó ekki eldri en 67 ára. Erfiðisvinna öll þessi ár. En oft á tíðum var líf og fjör. Virkilega gaman.

Það fór þó svo að stoðkerfið gaf sig undan álaginu. Og hvað tók þá við? Jú handónýtt almannatryggingakerfi. Maður getur ekki lifað af þeim launum sem maður fær frá tryggingakerfinu. Húsnæðið sem ég var með á leigu stóð mér ekki lengur til boða. Ég fékk 6 mánaða uppsagnarfrest. Þá fór ég á félagsmálaskrifstofu Kópavogsbæjar til að athuga hvort ég ætti ekki rétt á félagslegu húsnæði þar sem ég gæti engan veginn leigt á almennum markaði.

Ég sótti um félagslega íbúð en mér sagt að það væri 2ja ára biðtími. Svo var mér líka sagt að örorkubæturnar væru of háar til að sækja um svoleiðis íbúð, jafnvel þó örorkubæturnar væru alveg strípaðar og ég fengi engar aðrar tekjur. Ég varð svo gáttaður að ég átti ekkert einasta orð. Manni eru sem sagt allar bjargir bannaðar.

Ég stóð á götunni þegar leigusamningurinn rann út eftir þessa 6 mánuði. Ég barðist við bæjaryfirvöld eins og ég gat og gerði þeim grein fyrir því að ég yrði á götunni en allt kom fyrir ekki. Núna er ég búinn að vera upp á ættingja og vini kominn og húsnæðislaus í fimm mánuði.

Þetta gengur ekki lengur og Kópavogsbær verður að taka á húsnæðismálunum og senda fólk ekki á götuna sem getur engan veginn greitt þá himinháu leigu sem er á hinum almenna markaði. Ég vil berjast fyrir bættu ástandi í þessum málum sem og betra lífi fyrir fátæka, öryrkja og ellilífeyrisþega í bænum. Börn eiga ekki að þurfa að lifa við fátækt og það verður að búa svo um hnútana að svo verði ekki. Þetta snýst um forgangsröðun.„

Jón Baldursson er í framboði fyrir sósíalista í Kópavogi #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram