Magnea: Mikil veikindi meðal kennara og starfsfólks vegna mikils álags og launin í engu samræmi við álagið
17.05.2018
—Hinn Kópavogur
Ég er 28 ára og uppalin í Kópavoginum, en ég hef búið miðsvæðis í gamla bæjarhlutanum alla mína ævi. Fyrstu sex árin bjó ég í Hamraborg, en síðan þá hef ég búið á Digranesheiðinni. Ég gekk í Digranesskóla sem heitir í dag Álfhólsskóli Digranes og Hjalla en ég hef seinni ár einnig unnið í báðum þessum skólum.
Mér fannst skólaganga mín ólík skólagöngu barna í dag, enda er búið að spjaldtölvuvæða allan Kópavoginn. Krakkar læra ekki næstum því jafn mikið í dag og fyrir 10-15 árum. Þau lesa mun minna af bókum, en eru þeim mun meira í afþreyingu í gegnum tölvur. Mér fannst sjálfri ekki mjög gaman í skóla en ég átti mjög erfitt með að læra. Ég er greind með ad/hd, lesblindu og talnablindu svo það háði mér í námi. Það var ekkert gaman að vera í sérkennslu í lestri á þeim tíma.
Eftir grunnskólann komst ég ekki inn í hverfisskólann, Menntaskólann í Kópavogi, af því ég var ekki með nógu góðar einkunnir úr samræmdum prófum. Mér var í staðinn boðið að fara í Fjöltækniskóla Íslands sem heitir núna Tækniskólinn og þar var ég í eitt ár á almennri braut. Eftir það fór ég yfir í Iðnskólann í Reykjavík að læra múrsmíði og var þar í tvö ár. Eftir það tók ég mér pásu frá múrverkinu, en mig langaði að klára stúdentinn. Í það skipti komst ég inn í MK. Mér gekk miklu betur að læra í menntaskóla en grunnskóla. Ég lagði miklu meira á mig og setti mér markmið og stóð við þau. Það tók mig samt sex ár að klára menntaskólann. Mér finnst það þó ekki skipta máli hversu langan tíma það tekur, bara að maður klári það sem maður ætlar sér.
Í dag starfa ég sem stuðningsfulltrúi í einhverfudeild Álfhólsskóla-Hjalla. Þetta er starf er ekki fyrir alla og það er mikil mannekla. Það vantar jafnan bæði almennt starfsfólk og kennara. Það eru einnig mikil veikindi meðal kennara og starfsfólks vegna mikils álags, en launin ættu líka vera hærri og í einhverju samræmi við vinnuálagið. Það er þrátt fyrir það rosalega margt gott fólk að vinna á þessum vinnustað. Þetta er mjög gefandi starf þrátt fyrir að vera oft á tíðum krefjandi, en mér finnst alltaf gott að finna að ég sé að hjálp krökkunum í einhverfudeildinni, sjá þau ná árangri og hjálpa þeim að líða betur.
Mig langar til að fara í frekara nám, en það er erfitt fyrir unga foreldra að fara í framhaldsnám þar sem það er kostnaðarsamt. Það er jafnvel erfitt fyrir ungt fjölskyldufólk að spara í dag ef tekjurnar eru ekki þeim mun meiri. Við höfum fengið gefins barnaföt og leikföng fyrir dóttur okkar og við erum nægjusöm. Þrátt fyrir það er erfitt að safna sér fyrir útborgun í íbúð, en maður bindur vonir við að það ástand breytist einhvern daginn. Í sósíalískara samfélagi verður sá draumur kannski að veruleika.
Magnea Hildur Jónsdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Kópavogi #valdiðtilfólksins