Stefnan

Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.

Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og handbendi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.

Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því. Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð.

Sósíalistaflokkur Íslands vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.

Taktu þátt

Byltingin verður ekki án þín! Skráðu þig í flokkinn og taktu þátt í baráttunni!

Skráning

close

Fyrstu baráttumál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.

01.01

Aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði.

02.01

Aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.

03.01

Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.

04.01

Enduruppbygging skattheimtunnar með það fyrir augum að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.

05.01

Húsnæðismál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að húsnæðisöryggi sé tryggt á öllu landinu. Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar.

01.02

Að tekin verði upp langtíma húsnæðisstefna og nýtt húsnæðiskerfi sem tekur mið af ólíkum þörfum mismunandi þjóðfélagshópa. Hafist verði handa við mótun þeirra strax.

02.02

Að sett verði á laggirnar nútíma verkamannabústaðakerfi, samvinnufélög um húsnæðisbyggingar og rekstur þeirra sem og opinber leigufélög sem ekki eru hagnaðardrifin.

03.02

Að réttindi leigjenda séu tryggð og stuðlað að traustum leigumarkaði með langtímaleigusamningum og reglum um þak á leiguverði.

04.02

Að námsmönnum í háskóla-eða fagnámi verði tryggt húsnæði á nemendagörðum.

05.02

Að skylda öll sveitarfélög til að tryggja lágmarksfjölda félagslegra íbúða miðað við íbúafjölda auk þess að mæta bráðavanda.

06.02

Að byggingareglugerðum verði breytt í samræmi við ný og fjölbreytt búsetuform (samvinnubústaði, smáhýsi og nýjar útfærslur á búsetuformum).

07.02

Ítarefni

Húsnæðisöryggi er ein grunnforsenda velferðar í landinu og er aðgangur að húsnæði sjálfsögð mannréttindi. Húsnæðisöryggi felur meðal annars í sér að tekjulágir og tekjulausir eigi ávallt að njóta forgangs við ráðstöfun húsnæðis og að hagsmunir barna og fjölskyldna séu hafðir að leiðarljósi.  Til að svo megi verða þá þarf að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði um land allt.

Við skipulagningu nýrra byggða og endurskipulagningu eldri hverfa skal gert ráð fyrir að hæfilegu  hlutfalli lóða sé úthlutað undir samvinnubyggingarfélög og félagshúsnæðis innan hvers hverfis/byggðar.  Þannig verði búsetufrelsi einstaklinga og fjölskyldna tryggt óháð efnahag. Með búsetufrelsi er átt við að fólk geti valið sér staðsetningu og gerð húsnæðis m.t.t. aðstæðna hverju sinni.

Stofnframlög til nýrra húsnæðiskerfa skuli koma frá ríki og sveitarfélögum en stofna skal nýjan íbúðalánasjóð sem hefur það hlutverk að tryggja öllum öruggt og sómasamlegt húsnæði á hagstæðum kjörum. Nýr íbúðalánasjóður verði fjármagnaður af Seðlabanka Íslands með vaxtalausum lánum. Íbúðalánasjóður veitir síðan hagstæð lán til húsnæðisfélaga til bygginga á nýjum íbúðum.  Tryggt verði að íbúðir fjármagnaðar af hinum nýja íbúðalánasjóði verði ekki seldar á hinum almenna markaði. Verð íbúða taki mið af byggingavísitölu og húsnæðisfélög hafi forkaupsrétt á íbúðir sem seldar eru innan kerfisins.    

Með því að setja þak á leiguverð má tryggja ákveðin réttindi leigjenda en einnig skal auka rétt leigjenda með eflingu leigjendasamtaka og beita skattalegum úrræðum til þess að ná jafnvægi á leigumarkaði t.d. með því að auka skattlagningu á húsnæði án fastrar búsetu.

Með nýrri lagasetningu er hægt að skylda öll sveitarfélög til að tryggja lágmarksfjölda félagsbyggðra íbúða miðað við íbúafjölda.

Tryggja skal aðgengi allra hópa að húsnæði og sjá til þess að neyðarhúsnæði sé til staðar í öllum sveitarfélögum til að mæta bráðavanda.

Til að mæta núverandi húsnæðisvanda er lagt til að félagsbyggingar verði mótaðar eftir lausnum sem nú þegar eru til í nágrannalöndunum. Hafist verði strax handa við þróun nýs íbúðalánasjóðar og ekki gert ráð fyrir að innleiðing á nýju kerfi taki lengri tíma en 3 mánuði.

Heilbrigðismál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að á Íslandi verði gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta rekin af skattfé borgaranna.

01.03

Að unnið verði gegn allri markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustu og jafnvægi komið á þjónustuna miðað við þarfagreiningu.

02.03

Að unnið verði markvisst að eflingu heilsugæslunnar.

03.03

Að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði samþykktur.

04.03

Að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði notuð á markvissan hátt við þjónustu við fatlaða.

05.03

Að skýrsla Sameinuðu þjóðanna um geðheilbrigði (júní 2017) verði virt.

06.03

Að unnið verði samkvæmt langtímamarkmiðum í heilbrigðisþjónustu og fjármagn til heilbrigðismála og reksturs Landspítala Háskólasjúkrahúss verði í samræmi við kröfur um nútímavædda heilbrigðisþjónustu.

07.03

Að lyfjakostnaður verði að fullu niðurgreiddur og lyfjaverslun almennings sett á fót, með sterku gæðaeftirliti og bestu lyfjum sem völ er á.

08.03

Að forvarnir og lýðheilsa verði efld og stuðlað að því að ríkið veiti þá þjónustu.

09.03

Að komið verði á fót embætti umboðsmanns sjúklinga.

10.03

Að geðsvið Landsspítala Háskólasjúkrahúss, sem og Barna- og unglingageðdeild verði efld og geti sinnt eðlilegri neyðarþjónustu.

11.03

Að endurhæfing sé ávallt í boði fyrir langveika, sem vilja bæta heilsu sína og lífsskilyrði.

12.03

Að öldruðum sé tryggð þjónusta við hæfi hvort heldur með heimahjúkrun, plássi á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun.

13.03

Að heilsugæsla og sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni verði efld og þau sjúkrarými, tæki og búnaður sem þar er til staðar verði nýttur sem kostur er og að fjarlækningar verði efldar.

14.03

Að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna verði bætt og teymisvinna efld.

15.03

Að grundvöllur velferðar og heilbrigðis sé einnig tryggður með öðrum nauðsynlegum umhverfisþáttum svo sem réttlátu og góðu húsnæðiskerfi, menntakerfi, atvinnulífi og launastefnu sem og almannatryggingakerfi.

16.03

Ítarefni

Heilbrigðisþjónusta tekur til allra þátta heilbrigðis: líkamlegs, tilfinningalegs og geðræns. Þar með talið tannlækningar og tannéttingar, sálfræðiþjónusta, sjúkra-og iðjuþjálfun sem og þjónusta talmeinafræðinga, áfengis- og fíkniefnameðferðir auk ráðgjafar og stuðnings fyrir fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi og öðrum áföllum.

Heilsugæslan verði efld og að heilbrigðisstarfsfólk nálgist lækningar í heildrænu ljósi með tilliti til félags-og umhverfisþátta. Einnig skulu heilsugæslur bjóða uppá þjónustu fagfólks sem halda utan um réttindamál og aðstoða fólk við að sækja rétt sinn og vísa því veginn innan heilbrigðis- og almannatryggingakerfisins.

Samhliða því að Ísland setur sér langtímamarkmið, sem nær til lengri tíma en eins kjörtímabils, skal sinna þarfagreiningu, gæðamati og samkeppnishæfni við önnur lönd. Eftirlit skal vera í höndum óháðs aðila en ekki landlæknisembættisins.

Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla innan spítala og á heilsugæslu sem og neyðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að því fyrr sem brugðist er við þroskaröskunum eða geðröskunum því meiri líkur eru á að koma megi í veg fyrir alvarlegri afleiðingar síðar. Skólar á öllum menntastigum skulu hafa aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki í gegnum heilsugæsluna.

Setja þarf hömlur á fjárveitingar ríkisins til einkarekinna aðila og kanna hvort Sjúkratryggingar Íslands verði aftur sameinaðar Tryggingastofnun ríkisins eða búið til nýtt kerfi af velvirkandi fyrirmynd. Stýra þarf fjárúthlutunum út frá þarfagreiningum og forgangsröðun hverju sinni og að gæðaeftirlit tryggi að komið verði í veg fyrir að fé renni úr ríkissjóði til einkageirans að ástæðulausu. Heilbrigðisþjónusta verði ekki rekin í arðsemisskyni og jafnvægi verði komið á innan þjónustunnar svo ekki skapist tækifæri til oflækninga né að stíflur myndist eða langir biðlistar.

Lyfjaverslun í almannaþágu mun hafa það að markmiði að kaupa lyf á sem hagstæðustu kjörum t.d. með lyfjainnkaupum í samvinnu við nágrannalöndin og bjóða upp á bestu lyf sem völ er á í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Þá verði kostnaður vítamína og næringadrykkja einnig niðurgreiddur þar sem það á við.

Forvarnir og lýðheilsa verði ávallt í forgrunni og notast verði við stefnu sem skilgreinir ítarlega hlutverk hvers aðila sem að málum kemur hverju sinni. Þannig má koma í veg fyrir tvíverknað innan kerfisins.

Hægt verði að leita til Umboðsmanns sjúklinga með mál er varða öngstræti innan kerfisins eða þegar einstaklingur telur á sér brotið á einhvern hátt. Umboðsmaður sjúklinga muni hafa tilskipunarvald.

Efla skal endurhæfingu á vegum heilbrigðisþjónustunnar. Langveikir ættu ávallt að eiga greiðan aðgang að endurhæfingu til að koma í veg fyrir hnignun á heilsufari sínu óháð því hvort þeir stefni út á vinnumarkaðinn eða ekki.

Að endurhæfingastofnanir í einkarekstri eða reknar af frjálsum félögum lúti eðlilegri eftirlitsskyldu sem vel er sinnt.

Eldri borgarar skulu njóta efri áranna með reisn og fá þá þjónustu sem þeir þurfa án þess að vera hegnt fyrir það að fjölskyldumeðlimir sinni þeim. Í því ljósi þarf að fjölga opinberum hjúkrunar- og elliheimilum og efla heimaþjónustu.

Með bættu starfsumhverfi innan heilbrigðisþjónustunnar verður meðal annars komið í veg fyrir að hjúkrunarfólk hvort heldur er á sjúkrastofnunum eða við heimaþjónustu þurfi að taka óeðlilega margar vaktir til að halda mannsæmandi launum.

Öflugar  göngudeildir verði byggðar upp innan Landsspítala þar sem markmiðið er að ráða ekki lækna í hlutastörf heldur tryggja að starfskraftar þeirra og þekking nýtist sem best bæði hvað varðar kennslu innan Háskólasjúkrahússins sem og í þágu sjúklinga.

Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni taki mið af þeim fjölda sem þarf að sinna þar með talið ferðamönnum og fólki í orlofshúsum. Sjúkraflutningar verði skoðaðir í samræmi við byggingu nýs Landspítala.

Lýðræðismál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að jöfnuður sé hornsteinn lýðræðis.

01.04

Að réttlátt kosningakerfi verði tryggt með jöfnu vægi atkvæða óháð búsetu.

02.04

Að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna séu ávallt virtar.

03.04

Að ný stjórnarskrá taki gildi hið fyrsta.

04.04

Að lýðræðismál séu hluti af grunnmenntun.

05.04

Að aðgengi almennings að áreiðanlegum og réttum upplýsingum verði tryggt.

06.04

Að lýðræðisvæða verkalýðsfélög og lífeyrissjóði.

07.04

Að rekstrargrundvöllur öflugra félaga í þágu almannahagsmuna, svo sem samtökum neytenda af hvaða tagi sem er, verði tryggður.

08.04

Að náttúruauðlindir verði ávallt í eigu þjóðarinnar.

09.04

Að lýðræðisvæða vinnustaði og stjórn fyrirtækja.

10.04

Ítarefni

Þar sem jöfnuður er lykillinn að lýðræðislegu samfélagi skal ríkið tryggja borgurum sínum viðunandi lífsskilyrði, kjör, menntun og heilbrigðisþjónustu. Þannig ber einnig að tryggja jöfn atkvæði í alþingiskosningum óháð búsetu.

Þjóðaratkvæðagreiðslur ber að nýta í mikilvægum málum er varða almannaheill og skal Alþingi virða þær eins og krafist er í nýrri stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá skal taka gildi strax samkvæmt því ferli sem hófst með kosningu til stjórnlagaráðs árið 2010, sem lagði fram drög sem kosið var um og samþykkt með 66.9% greiddra atkvæða. Þá ber í framhaldinu að virða stjórnarskrána en jafnframt að umgangast hana sem lifandi samfélagssáttmála, sem getur tekið breytingu með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Til að auka lýðræðislega þátttöku og skilning fólks á mikilvægi þess, þarf skólakerfið að veita nemendum strax í grunnskóla fræðslu og þjálfun í verki við lýðræðislega stjórnarhætti og vinnubrögð.

Ríkisútvarpið gegni lykilhlutverki í því að tryggja það að upplýsingar séu sem áreiðanlegastar og öllum landsmönnum aðgengilegar. Rannsóknarblaðamennska verði efld og njóti lagaverndar.

Mikilvægt er að lýðræðisvæða verkalýðsfélög og lífeyrissjóði svo sérhagsmunir stýri ekki fjármagnssteymi og framkvæmdum. Efla þarf þessi félög svo þau vinni í þágu launþeganna og standi vörð um þeirra hagsmuni. Embættisseta verði takmörkuð (t.d. að hámarki 8 ár) og félagsmenn kjósi sér forystu með beinum hætti. Slembival verði einnig notað í auknum mæli innan slíkra félaga en slembival er áhrifaríkt vopn gegn spillingu og gefur almenningi tækifæri til að hafa bein áhrif.

Með því að tryggja rekstrargrundvöll félaga sem vinna að almannahagsmunum svo sem félag neytenda, félag leigjenda, öryrkjabandalags og fleiri aðila, má efla jöfnuð og lýðræði og stuðla að samfélagi sem styður við almannahagsmuni fremur en sérhagsmuni. Það er gríðarlegt hagsmunamál að almenningur eigi sér talsmenn á sem flestum sviðum sem viðkemur lífi og lýðheilsu.

Arður af auðlindum renni til sameiginlegra sjóða allra landsmanna. Réttur komandi kynslóða til auðlindanna verði tryggður.

Sameiginlegir sjóðir

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að sameina hin sundurleitu kerfi bóta og lífeyris í eitt almennt tryggingakerfi svo tryggja megi öllum mannsæmandi líf.

01.05

Að einfalda tryggingakerfið.

02.05

Að námsstyrkir komi í stað lána.

03.05

Að skattrannsóknir og opinbert eftirlit á fjármálakerfinu verði eflt og beint í auknum mæli að fjársterkum aðilum og stórfyrirtækjum.

04.05

Að skattkerfið verði nýtt sem jöfnunartæki.

05.05

Að stutt verði betur við barnafjölskyldur með hærri barnabótum.

06.05

Að gjöld fyrir opinbera grunnþjónustu verði afnumin. Arðurinn af auðlindum verði þjóðnýttur.

07.05

Ítarefni

Sameiginlegir sjóðir og arður af sameiginlegum auðlindum eiga að stuðla að félagslegu réttlæti og öryggi fyrir alla, með mannhelgi að leiðarljósi svo veita megi öllum gott líf í réttlátu samfélagi.

Lífeyrisgreiðslur, sem skyldugreiðslur launþega má einnig kalla dulda skattheimtu á launafólk. Lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið lúta ekki sömu lögmálum og mismuna fólki verulega þegar kemur að tryggingum. Kerfin eru sundurleit og ógagnsæ og erfiðust fyrir þá sem þurfa mest á þeim að halda. Í stað áhættufjárfestinga og gríðarlegra launagreiðslna æðstu stjórnenda, sem í dag sitja á fjármagni lífeyrissjóðanna, mætti með sameiningu þessara kerfa nýta það fjármagn í þágu velferðar.  

Skattkerfið eins og það er í dag er hannað í þágu hinna efnameiri með lögleiddum skattsvikum stórfyrirtækja eða skattaundanskotum og líður almenningur og samneyslan fyrir. Vald og auður hafa safnast á hendur fárra aðila og auðlindarenta hefur verið einkavædd.  Barnafjölskyldur sjá litlar sem engar barnabætur lengur nema vera langt undir fátæktarmörkum.  Gróðasjónarmið ráða fjárfestingu, frekar en manngildi og sköpun góðs samfélags. Þennan vaxandi ójöfnuð þarf að rjúfa með réttlátu skattkerfi og eflingu opinberra eftirlitskerfa um skattrannsóknir og fjármagn.

Gjöld eru innheimt fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun, bankaþjónustu og samgöngur og gjöldin eru þau sömu óháð tekjum. Með eðlilegum auðlindagjöldum og sameiningu lífeyrissjóða við ríkissjóð á þjóðfélagið að geta staðið undir allri grunnþjónustu án sérstakra gjalda á almenning.

Auðlinda- og umhverfismál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að allar sjávarnytjar sem veiðast innan íslenskrar landhelgi tilheyra íslensku þjóðinni og eins og með aðrar auðlindir skal þessi eignarréttur aldrei framseldur til einkaaðila frekar en eignarréttur annarra auðlinda.

01.06

Að allur kvóti verði afturkallaður í hendur ríkisins og honum útdeilt með hliðsjón af því að milliliðir í viðskiptum hagnist ekki óhóflega á kostnað eigenda auðlindarinnar eða þeirra sem vinna í sjávarútvegi. En einnig að byggð geti haldist sem jöfnust á landsbyggðinni.

02.06

Að vatn, í hverju formi sem það finnst, skal skilgreint sem náttúruauðlind og sem slík er hún sameign þjóðarinnar og ekki framseljanleg. Nýtingarréttur skal aldrei framseldur, hvort heldur til einkafyrirtækis eða sveitarfélags, nema til skamms tíma í senn.

03.06

Að íslenska ríkið standi vörð um grunnvatn, heitt jafnt sem kalt, og ákvarðanir varðandi nýtingu þess skulu alltaf teknar lýðræðislega og með beinni aðkomu almennings.

04.06

Að allt sem hægt er að endurnýta verði endurnýtt og allt sem hægt er að endurvinna verði endurunnið, þ.m.t. vatn.

05.06

Að hætt verði að nota einnota plastumbúðir á Íslandi og skal það tekið í skrefum.

06.06

Að affall verði nýtt sem áburður og sem endurunnið vatn.

07.06

Að 80-90% af plasti verði endurnýtanlegt. Þeir sem hagnast á framleiðslu og notkun þess beri ábyrgð á endurvinnslunni.

08.06

Að fyrirtækjum og öðrum stofnunum beri að bjóða til nota útlitsgallaða eða útrunna matvöru, sé hún neysluhæf. Kostnaður fylgi því að fleygja slíkri matvöru í óflokkað sorp.

09.06

Menntamál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að menntun barna og ungmenna sé með öllu gjaldfrjáls sem og háskóla- og framhaldsnám á vegum hins opinbera.

01.07

Að skólamáltíðir á grunn- og framhaldsskólastigi séu gjaldfrjálsar.

02.07

Að komið sé í veg fyrir stéttskiptingu milli skóla og innan þeirra með aðgerðum til jöfnuðar.

03.07

Að skólinn stuðli að vellíðan nemenda og starfsfólks með því að draga úr samkeppni innan skólaumhverfisins og tryggja smærri hópa í námi.

04.07

Að allir skólar bjóði upp á þann stuðning sem nemendur þurfa á að halda óháð biðlistum og greiningum.

05.07

Að börnum og ungmennum séu tryggðar gjaldfrjálsar tómstundir og að þær séu færðar inní skólahúsnæðið eins og kostur er og metnar til náms.

06.07

Að innflytjendum á öllum aldri sé tryggð íslenskukennsla og innflytjendabörnum einnig móðurmálskennsla.

07.07

Að börnum á flótta sé tryggð menntun til jafns við önnur börn.

08.07

Að lýðræðisvitund nemenda og starfsfólks á öllum skólastigum sé virkjuð.

09.07

Að störf kennara séu metin að verðleikum og gerð eftirsóknarverð.

10.07

Að öll tengsl menntunar og vinnumarkaðar séu í samstarfi við verkalýðsfélög.

11.07

Að auka verk-, tækni- og listnám á öllum skólastigum.

12.07

Að tekið verði upp námsstyrkjakerfi.

13.07

Að tryggja virkt rannsókna-, vísinda- og fræðaumhverfi á Íslandi.

14.07

Ítarefni

Skólakerfið skal rekið af hinu opinbera og nægt fjármagn tryggt til allra menntastofnana í opinberum rekstri. Allar fjárveitingar miðist við raunverulegar þarfir út frá faglegri þarfagreiningu. Gjaldfrjáls grunnskóli felur m.a. í sér námsgögn, næringarríkan mat, frístundaheimili ásamt ferðalögum og skemmtunum, foreldrum skólabarna að kostnaðarlausu. Þá skal skólinn opna aðstöðu sína og húsnæði fyrir borgarana án endurgjalds. Framhaldsskólinn skal einnig vera gjaldfrjáls og bjóða nemendum uppá einfaldan morgun- og hádegismat nemendum að kostnaðarlausu. Háskólar í opinberum rekstri skulu einnig vera reknir nemendum að kostnaðarlausu og skulu aðrir háskólar eða sérskólar gæta hófs við innheimtu gjalda.

Skólinn skal vera stéttlaus og tryggja verður að þeir efnaminni hafi sömu tækifæri og aðrir á öllum skólastigum. Þá sé spornað gegn allri aðgreiningu sem leitt geti til jaðarsetningar svo sem aðgreiningu fátækra og ríkra, fólks af ólíkum uppruna, á grundvelli fötlunar, aldurs eða kyngervis. Þá er mikilvægt að minnka aðstöðumun þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda t.d. iðn- og verknám sem eingöngu er kennt á höfuðborgarsvæðinu með framboði á heimavist eða námsíbúðum. Þá skal einnig tryggja fullorðnu fólki sem ekki hefur klárað framhaldsskólanám á tilsettum tíma skólavist og auka námsúrræði fyrir þann hóp.

Minni hópar eru forsenda einstaklingsmiðaðra námsskráa. Leggja þarf meiri áhersla á samkennd, vellíðan og samvinnu en minni á samkeppni. Þá skulu samræmd próf gerð valkvæð í grunnskólum. Ennfremur er þarft að takmarka heimanám. Mikilvægt er að áfallateymi sé ávallt til staðar og bregðist við af festu þegar áföll verða í fjölskyldum eða meðal kennara. Sömuleiðis þurfa að vera starfandi sálfræðingar innan allra skóla og að nemendur geti leitað til þeirra milliliðalaust.

Öll börn eiga rétt á stuðningi og aðstoð í skóla óháð því hvort þau eru á biðlista eftir greiningu eða ekki. Þarft er að öll stuðnings- og aukakennsla sé á vegum skólanna svo foreldrar þurfi ekki sjálfir að koma börnum sínum til og frá fagaðila á skóla/vinnutíma.

Innflytjendabörn skulu eiga rétt á íslenskukennslu sem og móðurmálskennslu og fólk af erlendum uppruna komið af skólaskyldualdri skal einnig eiga rétt á íslenskukennslu á öllum námsstigum. Þá skuli börn og ungmenni innflytjenda fá stuðning á öllum skólastigum, ekki síst framhaldsskólastigi. Þá þarf túlkaþjónusta að vera tryggð af hinu opinbera.

Börn á flótta skulu eiga rétt á námi á sama hátt og önnur börn á landinu og séu þeim búnar viðunandi aðstæður til að stunda nám í venjulegum hverfisskóla svo í kringum þau myndist eðlilegt tengslanet.

Lýðræðisvæðing skólakerfisins er mikilvæg, ekki hvað síst til að venja börn við lýðræði og efla sjálfstæða hugsun. Vert er að leyfa nemendum að hafa meira um námið að segja auk þess sem gagnkvæm virðing verði höfð að leiðarljósi í öllu skólastarfi. Val á skólastjórnendum þarf einnig að vera lýðræðislegt ferli sem vinnur gegn pólitískum ráðningum og spillingu.

Menntun kennara er afar mikilvæg enda sinna þeir einu ábyrgðarmesta starfi samfélagsins. Því ber að styðja við nám þeirra með öflugum hætti. Símenntun þarf að vera eðlilegur hluti af starfinu og þurfa kennarar tíma til að sinna henni. Fjölga þarf námsleyfum og veita þau fyrr á starfsferlinum en nú er gert. Þá þarf að tryggja eðlilega nýliðun háskólakennara og bæta launakjör og stöðu stundakennara. Námsefnisgerð og þýðing á námsefni verði tekin alvarlega meðal skólayfirvalda og metin til launa.

Efla skal tengsl menntunar og vinnumarkaðs í nánu samstarfi við verkalýðsfélögin og ASÍ. Þá skal huga sérstaklega vel að iðngreinum og mismuna ekki námsgreinum út frá kostnaði. Mikilvægt er að auka við nýsköpun í skólastarfi; auka list- og verknám strax á grunnskólastigi og leggja meiri áherslu á iðn- og verkgreinar á framhaldsskólastigi. Þá verði lýðháskólar raunhæfur valkostur. Raunfærnimat skal viðhaft svo að fólk með reynslu eða menntun erlendis frá fái þekkingu sína metna.

Huga þarf að orsökum brottfalls úr skóla og að framhaldsskólanemendum standi til boða að taka styttri brautir sem skili þeim prófgráðu en þeir geti einnig tekið lengra nám sem skili þeim stúdentsprófi. Ennfremur er mikilvægt að öll skólastig vinni betur saman; að nám í gegnum leik haldi áfram upp í grunnskóla og að aukin áhersla verði lögð á rökhugsun, gagnrýna hugsun, sköpun, samkennd og vellíðan. Stytting framhaldsskólans verði endurskoðuð með tilliti til líðan og streitu nemenda.

Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) taki upp styrkjakerfi og kerfið sé gert manneskjulegra þar sem allir hafi færi á að mennta sig hvort heldur er á iðn-, tækni-, háskóla- eða sérskólastigi. Endurskoða þarf gamla námslánakerfið með leiðréttingu í huga og gera fólki kleift að gera upp lánin sín með eðlilegri greiðslubyrði og fella þau niður þegar við á.

Mikilvægt er að styðja í auknum mæli við rannsóknir og stofnun nýrra námsbrauta einkum í grunnnámi á háskólastigi til að búa okkur undir framtíðina. Þá verði boðið upp á fjölbreytt framhaldsnám á háskólastigi og tryggt að ný þekking berist til landsins.

Tryggja þarf sjálfstæða rannsóknarsjóði og koma í veg fyrir að hægt sé að greiða arð úr þeim. Endurskoða skal ráðningarferli háskólakennara og tryggja nægilegt fjármagn fyrir lausráðið akademískt starfsfólk. Þá skal auka og efla styrki til rannsóknar- og doktorsverkefna.

Sveitastjórnarmál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að tryggja að grunnþörfum allra íbúa sveitarfélaga sé mætt, almenn velferð verði að veruleika fyrir alla, að allir lifi með reisn og önnur mannréttindi séu virt í takt við fremstu ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga. Sérstaklega sé öryggi barna tryggt og að ákvarðanir séu teknar í samræmi við velferð þeirra.

01.08

Að sveitarfélög vinni í þágu einstaklinga og fjölskyldna og hlúi sérstaklega að velferð þeirra sem eru í veikri aðstöðu og hafa færri úrræði í lífinu eins og öryrkjar, eldra fólk, innflytjendur og láglaunafólk.

02.08

Að yngstu börnunum séu búnar aðstæður til þess að þroskast og dafna með fjölskyldu sinni og síðar með jafnöldrum og félögum.

03.08

Að börnum og ungmennum sé tryggð menntun við hæfi og tryggt verði fjármagn til að skólinn og námsgögn nemenda séu gjaldfrjáls. Framfylgja þarf ítrustu kröfum um jafnrétti í skólastarfi, heilbrigði og velferð barna, læsi og sköpun og kröfur um lýðræði og mannréttindi þeirra virtar til fulls.

04.08

Að sveitarfélög útbúi raunhæf framfærsluviðmið fyrir þá sem þurfa framfærslu og stuðning frá sveitafélögum þannig að einstaklingum og fjölskyldum sé tryggð örugg framfærsla.

05.08

Að setja þarfir og rödd notenda félagsþjónustu í fyrsta sæti og auka alla aðgengilega velferðarþjónustu.

06.08

Að allir eigi rétt á góðu húsnæði. Sveitarfélögunum verði skylt að mæta þörfum íbúa fyrir félagslegt húsnæði. Félagslega rekin leigufélög og einstaklingar gangi fyrir í úthlutun lóða og sveitarfélögin styðji íbúðauppbyggingu á félagslegum forsendum. Að búsetumöguleikum innan sveitarfélaga verði fjölgað og settar verði strangar reglur um starfsemi leigufélaga. Þak verði sett á leiguverð.

07.08

Að allir eigi rödd sem skiptir máli í samfélaginu. Að íbúar sveitarfélaga verði efldir til að hafa meiri áhrif. Að boðið verði upp á samráðshópa sveitarstjórna með slembivöldum einstaklingum. Sérstaklega verði hugað að sjálfræði íbúa í hverfum stórra sveitarfélaga.

08.08

Að sveitarfélög hverfi frá láglaunastefnu sinni, útrými henni alveg og verði leiðandi fyrirmynd á vinnumarkaði hvað varðar laun, vinnutíma og önnur kjör starfsfólks.

09.08

Að tryggja réttindi íbúa til heilsusamlegs umhverfis og efla umhverfisvitund.

10.08

Að samgöngur miði að því að þjóna íbúum sveitarfélaga og ekki síst þeim tekjulægri. Horfið verði frá því eins og mögulegt er að höfuðborgarsvæðið og stærri sveitarfélög verði áfram bílaborgir. Nýjum hverfum fylgi góðar almenningssamgöngur, það er hluti af innviðum.

11.08

Að standa vörð um fyrirtæki í eigu sveitarfélaga; að fyrirtæki sem þjóna íbúum sveitarfélaganna verði ekki seld, aðhald og gengsæi verði aukið í stjórnsýslu og rekstri fyrirtækja í eigu sveitarfélaga.

12.08

Að öll sveitarfélög taki sameiginlega ábyrgð í málefnum fólks í landinu og tryggi jöfnuð íbúa, sveitarfélaga og landshluta. Samvinna sveitarfélaga verði aukin og samræmi verði í gjaldtöku þeirra þannig að ekki myndist „skattaparadísir“.

13.08

Að sveitarfélögin geri átak í innleiðingu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga í starfsemi sinni og auki gegnsæi starfa sinna. Sveitar- og bæjarstjórar og borgarstjóri verði fagmenn en ekki pólitískir foringjar. Leitað verði leiða til þess að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa og eðlilega ábyrgðarkeðju og gegnsæi í starfi fyrirtækja í eigu sveitarfélaga; jafnvel með stofnun nýs stjórnsýslustigs.

14.08

Vinnumarkaðsmál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að gætt sé að manngildi, reisn og öryggi á vinnumarkaði með mannsæmandi kjörum og vinnuaðstæðum.

01.09

Að grunntaxti lágmarkslauna og skattleysismörk séu aldrei undir opinberu framfærsluviðmiði.

02.09

Að ríki og sveitarfélög séu ekki leiðandi í láglaunastefnu.

03.09

Að dregið verði úr mun hæstu og lægstu launa.

04.09

Að útvistun starfa á vegum hins opinbera verði hætt.

05.09

Að jafnréttis sé gætt á vinnumarkaði og að ólíkir hópar njóti sömu kjara fyrir sömu vinnu.

06.09

Að sérstaklega sé gætt að því að erlent starfsfólk njóti sömu kjara og réttinda og íslenskt starfsfólk og hafi gott að aðgengi að upplýsingum um vinnulöggjöf og kjarasaminga.

07.09

Að skýr aðgerðaáætlun fari í gang þegar mansal uppgötvast og að fylgst sé sérstaklega vel með því að starfsmannaleigur fylgi lögum og reglum ellegar sæti viðurlögum.

08.09

Að komið verði í veg fyrir óeðlilega tengingu milli vinnuveitanda og leigusala.

09.09

Að komið sé í veg fyrir kennitöluflakk og launaþjófnað með öflugri lagasetningu og viðurlögum.

10.09

Að atvinnuþátttaka skerði ekki framfærslu lífeyrisþega eða annarra sem reiða sig á tekjur frá hinu opinbera.

11.09

Að tekið sé undir kröfur ÖBÍ um að starfsgetumati sé hafnað og krónu-á-móti-krónu-skerðing lífeyrisþega verði hætt.

12.09

Að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði.

13.09

Að stuðlað sé að auknu lýðræði á vinnustöðum.

14.09

Að stuðlað sé að stofnun samvinnufélaga í formi lýðræðislegra fyrirtækja í eigu starfsfólks.

15.09

Að efla manneskjuvænna samfélag með 32 stunda vinnuviku.

16.09

Að standa vörð um lýðræði í stéttarfélögum.

17.09

Ítarefni

Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Fólk skal njóta virðingar, mannsæmandi kjara, góðra vinnuaðstæðna og öryggis á vinnustað. Styrkur launafólks felst í einingu þess í gegnum sterk verkalýðs- og stéttarfélög.

Aðilar vinnumarkaðarins, opinberir eða almennir skulu ætíð hafa viðurkennda opinbera framfærslu að viðmiði í lægstu grunntöxtum. Skattleysismörk skulu hækkuð svo lægstu laun séu sldrei skattlögð. Lág laun skaða samfélagið þar sem þau leggja gífurlegt álag á láglaunafólk, oft með þeim afleiðingum að það dettur út af vinnumarkaði fyrir aldur fram. Hækka skal því lægstu laun og jafnframt stefnt að því að hæstu laun hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki nema í mesta lagi þreföld á við þau. Þá verði dregið úr hvata til að borga ofurlaun með skattkerfi og lagasetningu.

Koma skal í veg fyrir að ríki og sveitafélög útvisti tilteknum starfssviðum (t.d. þrifum og mötuneyti) innan vinnustaða sinna og ráði þess í stað starfsfólk til langtíma, sem sinni þessum störfum á sömu kjörum og með sömu réttindi og aðrir opinberir starfsmenn.

Þá skal gætt að jafnrétti á vinnustöðum og tryggt að ekki sé brotið á rétti fólks út frá kyni, uppruna, trú, fötlun eða aldri.
Mótuð skal stefna um hvernig sé tekið á móti erlendu starfsfólki svo það þekki réttindi sín og skyldur og að innviðir samfélagsins geti tekið á móti því, t.d. Þegar kemur að húsnæði, velferðarþjónustu, eftirliti með vinnustöðum og íslenskukennslu. Þá sé haft eftirlit með því að erlent starfsfólk sem ekki þekkir til íslensks vinnumarkaðar sé ekki sjálfkrafa sett á lægsta taxta og menntun þess og reynsla ekki metin til launa. Einnig skal setja skýrar reglur um sjálfboðavinnu svo hún gangi ekki gegn kjarabaráttu launafólks.

Verkalýðshreyfingin í samvinnu við yfirvöld og atvinnurekendur skulu sjá til þess að öll upplýsingagjöf um kjarasamninga sé aðgengileg á ýmsum tungumálum og fólk hvort sem er íslenskt eða erlent, ungmenni eða fatlað starfsfólk sé betur varið fyrir því að verða hlunnfarið af vinnuveitendum. Þá skal fólk hafa eignarrétt á vinnuframlagi sínu og lög sem hefta almennan verkfallsrétt afnumin.

Lífeyrisþegar og aðrir þeir, sem vilja og geta unnið hlutastörf eiga ekki að horfa fram á lakari kjör fyrir vinnuframlag sitt, hvorki í formi launa né krónu-á-móti-krónu-skerðingum svo koma megi í veg fyrir að fólk lendi í fátækrargildru. Þá skal unnið að útrýmingu fötlunarfórdóma á vinnustöðum og aðgengismál tekin fastari tökum.

Auka verður aðkomu starfsfólks að ákvörðunartöku fyrirtækja og gefa því aukna hlutdeild í arði þeirra. Leitast skal við að starfsfólk eigi fulltrúa í stjórn vinnustaða sinna og stefnt að stofnun samvinnufélaga í formi lýðræðislegra fyrirtækja í eigu starfsfólks. Við eignarskipti eða gjaldþrot fyrirtækja, hafi starfsfólk ávallt forkaupsrétt á því.

Stofnun lýðræðislegra fyrirtækja verði auðvelduð m.a. Með skattaívilnunum og hagstæðum rekstrarlánum. Hlutafélögum verði jafnframt gefinn kostur á að breyta sér í samvinnufélög og fá þá aðgang að sömu ívilnunum og lánum. Við stofnun samvinnufélaga þurfi aðeins tvo stofnfélaga.

Standa skal vörð um lýðræði í stéttafélögum m.a. með ákvæðum um hámarkstíma stjórnar- og nefndasetu og með því að efla virkni félaga.

Stjórnir lífeyrissjóða skuli ávallt vera skipaðar sjóðsfélögum, sem í þá greiða eða hafa greitt í þá og unnið sér réttindi og engum öðrum.

Velferðarmál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að hér á landi sé rekið velferðarsamfélag þar sem unnið er markvisst að réttlátri skiptingu gæða og útrýmingu fátæktar.

01.10

Að öllum sé tryggður aðgangur að velferðarkerfi með lögum án tillits til greiðslugetu, óháð kyni, uppruna, trú, fötlun, aldri, eða kynverund.

02.10

Að velferðarþjónusta sé ekki rekin í hagnaðarskyni.

03.10

Að notendur komi að stjórnun velferðarmála, hafi rétt á að kjósa sér fulltrúa og sitja í nefndum og stjórnum sem hið opinbera setur á stofn.

04.10

Að enginn verði framfærslulaus og skal íslenska ríkið tryggja lífeyrisþegum, öldruðum, atvinnulausum og öðrum sem þess þurfa öruggt lífsviðurværi.

05.10

Að ríkið sem og stærri sveitarfélög setji fram framfærsluviðmið sem taki mið af launaþróun, húsaleigu og öðrum sveiflum í kostnaði.

06.10

Að tryggja greiðan aðgang að öllum réttindum í velferðarkerfinu í gegnum þjónustufulltrúa sem veitir aðstoð sem og umboðsmann velferðarmála sem hægt er að leita til ef brotið er á rétti einstaklings.

07.10

Að fólk haldi réttindum sínum innan velferðarkerfisins þrátt fyrir að flytjast milli sveitarfélaga eða til annarra landa til tímabundinnar dvalar.

08.10

Að félagsleg úrræði séu óháð búsetu og fólki því ekki mismunað milli sveitarfélaga.

09.10

Að börn og barnafjölskyldur njóti sérstakrar verndar og að öll börn sitji ætíð við sama borð efnahagslega.

10.10

Að þjónusta við langveik börn og réttindi þeirra rofni ekki við sjálfræðisaldur.

11.10

Að öllum sé tryggð búseta við hæfi samanber stefnu sósíalista í húsnæðismálum.

12.10

Að örorkulífeyriskerfið verði eflt en starfsgetumati hafnað í samræmi við vilja ÖBÍ og krónu-á-móti-krónu-skerðingum hætt.

13.10

Að eldri borgurum sé tryggð þjónusta við hæfi hvort sem um heimaþjónustu eða þjónustu á hjúkrunar- eða sjúkrastofnunum sé að ræða eða aðra félagslega þjónustu.

14.10

Að sérstaklega sé hugað að velferð ýmissa viðkvæmra hópa og jaðarsettra.

15.10

Að fíknisjúkdómurinn sé afglæpavæddur og tekið á honum sem heilbrigðisvanda.

16.10

Ítarefni

Á Íslandi er velferð lögbundin og skal vera aðgengileg öllum án skilyrða, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, fötlun eða kynhneigð einnig þeim sem hingað koma vegalausir. Velferðarkerfið snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólk finni til öryggis og líði vel, tryggja að grunnþörfum allra sé mætt svo fólk geti lifað með reisn og notið almennra mannréttinda í samræmi við ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.

Tryggja skal samstarf milli ríkis og sveitarfélaga svo grunnþjónusta velferðarmála sé ávallt áreiðanleg. Þá skal vera lögbundið að sveitarfélög veiti þjónustu í velferðarmálum hvort heldur er um húsnæði eða aðra grunnþjónustu að ræða. Þá skal ríkið sem og sveitarfélög reikna út og birta raunhæf neysluviðmið sem opinberar stofnanir og aðrir geta notast við í útreikningum sínum.

Opinberar stofnanir í þjónustu almennings skal ekki einkavæða og skal ríkið ekki styrkja hagnaðardrifna velferðarþjónustu. Þá skulu gilda ströng lög um hvaða eignar- og rekstrarform verði heimilt að nota í slíkri þjónustu og eftirlit haft þar með.

Notendur eiga að hafa virka og gilda aðild að stjórn velferðarkerfis í gegnum hagsmunahópa notenda. Þá sé hlustað á kröfur og ályktanir slíkra hópa en einnig sé hlustað á þarfir og vilja barna og í tilfelli barnaverndar sé einnig hlustað á fólk sem hafði reynslu af kerfinu á barnsaldri.

Velferðarkerfið á að stuðla að góðri andlegri sem líkamlegri heilsu og styðja þá sem missa færni og framfærslutekjur. Kerfið á að gagnast notendum vafningalaust. Þá skal tryggja betri samfellu í stefnumótun þess og undirstrika mannhelgi og velferð í íslensku samfélagi.

Ríkið á að sjá íbúum hvers sveitarfélags fyrir þjónustufulltrúa velferðarmála sem veitir að fyrra bragði upplýsingar um réttindi fólks og tryggir þannig upplýsingaflæði þegar aðstoðar er þörf. Fólk á ekki að þurfa að bíða í óvissu með framfærslu og sanna fyrir stofnunum á hvers hendi það sé að greiða; sveitarfélagsins, ríkisins, stéttafélagsins eða annarra. Þannig er mikilvægt að starfsmenn velferðarkerfisins skapi einstaklingnum ekki meira óöryggi en hann stendur frammi fyrir þegar neyðin kallar. Þá skal ríkið skipa umboðsmann velferðarmála til að gæta réttaröryggis fólks í tengslum við stjórnsýsluframkvæmdir, kæruleiðir og fleira. Til að tryggja hlutleysi í málum skal slíkt umboðsmannsstarf vera kostað af ríki en ekki sveitarfélagi svo hagsmunagæsla byggðarlags ráði ekki för.

Tryggja skal að réttindi séu virt og að íbúar mismunandi sveitarfélaga sitji við sama borð þegar kemur að þjónustu og velferð. Þannig skal efla samstarf ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að þjónustustig félagslegrar þjónustu sveitarfélaga sé hátt og að þau geti ekki firrt sig ábyrgð þegar kemur að velferð. Þá sé aðstöðumun fólks sem býr á landsbyggðinni eytt þegar kemur að kostnaði við að sækja sér þjónustu á vegum ríkisins.

Tryggja skal að fólk missi ekki réttindi sín við flutninga hvort heldur sé milli sveitarfélaga eða tímabundið til útlanda. Langveik börn missi ekki réttindi og þjónustu við sjálfræðisaldur og þörfum barnafjölskyldna sé sérstaklega mætt svo öll börn sitji við sama borð. Tryggja skal sérstaklega réttindi fatlaðra barna með tvöfalda búsetu. Þá skulu öll opinber úrræði fyrir börn svo sem skólar og heilbrigðisþjónusta ætíð vera gjaldfrjáls.

Vikið sé frá hugmyndinni um starfsgetumat í stað örorkumats en endurhæfing og möguleikar til atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega efldir og unnið gegn fordómum gegn fötlun á vinnumarkaði. Jafnframt sé afnumin krónu-á-móti-krónu-skerðing.

Mikilvægt er að málefni eldri borgara séu tekin föstum tökum og unnið markvisst að því að útrýma fátækt og biðlistum eftir viðunandi úrræðum. Þá verði persónulegt og félagslegt tengslanet fólks eflt og unnið gegn einmanaleika. Það verði meðal annars gert með nýjungum í hönnun sambýlishúsa fyrir eldri borgara. Þá skal hverfisbundin félagsþjónusta efld og sveitarfélög sem og hverfamiðstöðvar sporna gegn einangrun og einmanaleika í gegnum félagsleg úrræði og iðju sem efla tengslanet fólks.

Lífeyrisþegar, atvinnulausir og aðrir sem reiða sig á velferðarkerfið geti ávallt sótt sér endurhæfingu og virkni sér að kostnaðarlausu til að efla lífsgæði sín. Þá skal markvisst barist gegn fordómum gegn þeim sem þurfa að þiggja félagslega aðstoð eða framfærslu.

Fíknisjúkdómurinn skal vera afglæpavæddur en tekið á þeim vanda sem fíkniefnaneysla skapar sérstaklega innan heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustunnar og úrræði fíknimeðferða stórlega efld. Sérstaklega verði hugað að forvörnum og taki þær mið af gagnreyndri þekkingu á þeim áhættuþáttum sem leiða til upphafs fíkniefnaneyslu.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram