Þekkingarblekkingin

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Eins og kunnugt er dóu goðsagnir og trúarbrögð ekki þegar Friedrich Nietzsche lýsti yfir andláti Guðs. Þvert á móti. Dauði Guðs er ekki fullnaðarsigur skynsemi og vísinda yfir hindurvitnum og óskhyggju; heldur fremur einskonar valdarán. Guð þessi hafði einokað andlega sviðið að miklu leyti um nokkrar aldir; formgert trúarþörf mannskepnunar og stjórnað vöru- og þjónustuframboðinu. Þegar veldi hans brast og laskaðist á þar síðustu öld; svo mikið að Nietzsche gaf út dánarvottorð; sköpuðust ómæld tækifæri til að beysla trúarþörf mannskepnunnar til þjónustu við önnur fyrirbrigði en Guð. Eða aðra guði; ef fólk vil orða það þannig. Þjóðríkið og þjóðernishyggjan náði mestu af þessu undir sig og endurbyggði í raun kirkju Guðs í eigin nafni með sínum þjóðernissálmum, sköpunarsögu þjóða og eigin lögmálum, fagnaðarerindum og goðsögnum.

Hér er ekki tilefni til að rifja upp goðsöguna um okkur Íslendinga; hvernig við spruttum fram alskapaðir kyndilberar frelsisins úr norskum fjörðum (eins og viskan úr höfði Seifs); hvernig við misstum sjálfstæði okkar vegna sundrungar en endurheimtum það aftur þegar við lærðum á ný að elska landið, tunguna og söguna (einkum Sögurnar); og hvernig við nýttum nýfengið sjálfstæði til að brjótast út úr moldarkofunum og urðum þjóð meðal þjóða; úr örbrigð til alsnægta á áður ókunnum hraða; nýju heimsmeti. Og bárum af öðrum á flestum sviðum. Sérstaklega þegar tekið er tillit til höfðatölu; einkum í handbolta, fiskveiðum og á öðrum sviðum þar sem gott er hrópa: Kommaso.

Íslenska goðsögnin er eiginlega þessi: Safnaðu hópi Íslendinga saman og láttu þá hrópa “kommaso”; og þá eru þeim allir vegir færir. Þetta var gert í vestfjörðum Noregs 874 og gekk vel; var endurtekið í Breiðafirði 985 og við námum Grænland; árið 1000 sagði einhver “kommaso” á Grænlandi og við fundum Ameríku. Og svo koll af kolli. Við borguðum síðast fyrir Icesave með kommaso. Og við erum að endurreisa heimilin og millistéttina með kommaso. – Því er alla vega haldið fram.

En ég ætla ekki að fjalla um goðsögnina um Ísland heldur goðsögnina um þetta síðast nefnda fyrirbrigði; millistéttina.

gott-ist-tot

Tilbiðjum snjóbolta

En fyrst þurfum við að rifja upp goðsagnirnar um stéttirnar sem mótuðu samfélagið áður en millistéttin gerðist þungamiðja alls; verkalýðinn og kapitalistana.

Sagan kennir okkur að menn á borð við Thor Jensen og Pétur J. Thorsteinsson hafi komið með iðnbyltinguna til Íslands; þeir vélvæddu útgerðina, fundu markaði fyrir íslenskar sjávarafurðir og sköpuðu þannig gjaldeyristekjur sem færðu samfélagið að nútímanum, sem það hafði algjörlega farið á mis við. Þessum frumkvöðlum var launuð hugkvæmni sín og kjarkur með ómældum auði; sem aftur gaf þeim þrótt til að standa fyrir alskyns atvinnuuppbyggingu víða um land og færði þeim margháttuð ítök í samfélaginu.

Auðvitað leið sagan ekki eftir þessum þræði. Þeir Thor, Pétur og önnur Þríhross gripu vissulega tækifærin sem aðrir létu fram hjá sér fara eða gátu ekki hreppt og þeir auðguðust mjög. En auður þeirra byggði fyrst og fremst á fáranlega lágum launum verkafólks (ástand sem vanalega varir fyrstu hálfa öldina frá því að stórkostlegir fólksflutningar úr sveit í borg hefjast) og hyndrunarlausum og ókeypis aðgangi að auðlindum (sem er líka oftast tímabundið ástand; þótt það vari yfirleitt lengur en smánarlaunin). Þríhrossin okkar eru týpískir kapitalistar á mörkum nýlendutíma; innlendir menn sem auðgast hratt og mikið af misnotkun á vinnuafli meðbræðra sinna og –systra og með því að hrifsa til sín auðlindir lands og sjávar.

Auður hefur síðan sömu náttúru og snjóbolti á leið niður brekku. Auður safnar utan á sig enn meiri auð án erfiðis. Þetta á sérstaklega við um smá samfélag. Þar getur verið nóg fyrir mann að koma vel undir sig fótunum í einni atvinnugrein og smátt og smátt munu bankar og lánastofnanir færa honum önnur fyrirtæki í öðrum greinum. Þeir hafa lánstraust sem eiga eitthvað fyrir og tilheyra hópi hinna velsettu og viðurkenndu. Þannig getur útgerðarmaður fljótlega náð undirtökum í tryggingarfélagi, banka, flutningafyrirtæki, fjölmiðli, stjórnmálaflokki og svo framveigis. Að endimörkum samfélagsins.

Við getum hlegið af goðsögnum Norður-Kóreu um hvernig þeir feðgar Kim Il-sung, Kim Jong-il og Kim Jong-un hafa fært landsmönnum veröldina og allt sem í henni er. En þessi goðsögn er ósköp lík goðsögnum kapitalismans um framlag hinna ríku og voldugu til samfélagsins; hvernig við værum enn týnd í forneskju ef ekki hefði verið fyrir dugnað, framsýni og elju þessara manna. Eins og með goðsögn Norður Kóreu er þetta bölvað kjaftæði. Ísland færðist frá oki innilokaðs og staðnaðs bændasamfélagi (það er; samfélag þar sem vinnufólk bar bændurna) í átt að nútíma iðnaðar- og þjónustusamfélagi á herðum verkafólks sem þrælaði á síldarplönum og um borð í fiskiskipum fyrir skammarlega lág laun. Ísland dagsins í dag var byggt upp með svita þessa fólks; þreytu og erfiði; en ekki hugkvæmni þeirra sem auðguðust af að misnota þetta fólk.

Þótt goðsaga kapitalismans sé hlægilega heimskuleg þá lifir hún enn. Núverandi stjórnarflokkar halda því til dæmis fram að það sé ekki fiskurinn í sjónum, sjómennirnir sem veiða hann eða verkafólkið sem vinnur fiskinn sem séu undirstöður sjávarútvegs á Íslandi heldur útgerðarfyrirtæki. Til að efla sjávarútveg þurfi fyrst að efla útgerðarmennina! Þetta er álíka speki og bæta megi lífsgæði þræla með því að gefa þrælahaldaranum vindil.

graffiti-walls-banksy-graffiti-workers-of-the-world-unite-8352

Verkalýðurinn skapar samfélag

Það var verkalýðurinn sem skapaði Þríhrossin; vinnufólk sem flúði í sjávarþorpin undan ánauðarkerfi bændanna, kerfi sem var aðeins skör yfir þrælahaldi (þrælahald lagðist af á Íslandi án átaka vegna þess að ánauðarkerfið var hagkvæmara fyrir bændurnar). Í fyrstu var vinnufólkið frelsinu fegið; fegið að geta stofnað fjölskyldu og reynt að skrimta í verstöðvum af daglaunum eða aflahlut. En fljótlega myndaði verkalýðurinn samtök og gerði kröfur um að samfélagið yrði aðlagað að þeirra þörfum; að laun yrðu hækkuð, hvíldartími tryggður og vinnutími styttur en líka að heilsugæsla og skólaganga yrði almenn og að fjölskyldum yrði tryggt öruggt húsnæði; sem sagt hefðbundnar kröfur lágstéttar um samhjálparkerfi sem byggt er upp af skattlagningu tekna og ekki síður eigna.

Yfirstéttin þurfti ekki slíkt kerfi. Hún gat tryggt sér öruggt húsnæði, veitt börnum sínum menntun og byggt upp afkomu á efri árum með sparnaði af tekjum sínum. Lágstéttin gat ekki staðið undir slíku af lágum launum sínum. En hún var fjölmenn og með samtakamætti gat hún þrýst á um að samfélagið þjónaði ekki aðeins hinum ríku og völdugu (lögga og dómstólar til að verja eignarrétt) heldur líka að þörfum alþýðufólks (almenn velferð). Hver láglaunamaður var fátækur og valdalaus en saman gat alþýðan sótt sér næstum takmarkalaus völd til að breyta samfélaginu. Hún varð ekki rík af slíkri baráttu en samfélagið varð mannúðlegra og sanngjarnara; á endanum svo að það var hægt að lifa með reisn þótt maður væri blankur.

Verkalýðsstéttin flutti með sér hugmyndir úr sveitunum um hvernig gott samfélag ætti að vera; hugmyndir sem höfðu kviknað í sveitunum urðu stórar í bænum: Lestrafélög urðu að bókasöfnum, farandkennarar að skólum, yfirsetukonur að heilsugæslu. Og svo framveigis. Verkalýðurinn stofnaði með sér samtök, byggði upp sparisjóð og kaupfélag, gaf út blað og bækur, hvatti fólk til mennta, heilsueflingar, listiðkunar og útiveru; til sjálfsköpunar. Á breyttum tímum var það nauðsyn hvers manns og konu að breytast sjálf og styrkjast.

Þetta er goðsögnin um lágstéttirnar. Hún var í fyrstu misnotuð en náði með samtakamætti að þröngvað yfirstéttunum til að draga úr stéttarmun með sanngjarnari launagreiðslum og samrekstri á þeirri grundvallar velferðarþjónstu sem allir þurfa á að halda; heilbrigði, menntun og framfærslu tilhanda þeim sem geta ekki vegna fötlunar, lasleika eða elli brauðfætt sig og sína. Með þessu batnaði líf alþýðunnar, stéttarmunur minnkaði og börn verkafólks gátu sótt sér menntun og unnið sig þannig upp úr lágstéttinni.

Í þessu lá hins vegar fræ fyrirsjánlegra vonbrigða. Þótt verkalýðurinn byggi við betri kjör og meiri reisn en vinnufólkið á tímum ánauðar þá bjó í hverri fjölskyldu draumurinn um að næsta kynslóð yfirgæfi verkalýðsstéttina; stigi upp um eitt þrep hið minnsta. Og síðan myndi næsta kynslóð taka enn annað skref upp á við.

Það getur náttúrlega hver séð að þetta er ekki sjálfbært væntingakerfi. Það er innbyggt inn í það einskonar verðbólga væntinganna. Ef allir ná að klifra upp hlýtur fjöldinn að dunka niður. Það geta ekki bara verið liðþjálfar í hernum.

Screen Shot 2014-10-11 at 16.24.04

Hrunin sjálfsmynd

Ef það tekur hálfa öld fyrir lágstéttirnar að komast undan taumlausri misnotkun fyrstu kynslóða kapitalista; þá tekur það líklega álíka langan tíma fyrir samtök verkalýðsins að flytja áherslurnar frá uppbyggingu sanngjarns samfélags sem hentar eignalausri lágstétt yfir í kröfur um samfélag sem þjónar þörfum og væntingum millistéttarinnar. Fyrir það fyrsta tekur það skemmri tíma fyrir forystusveit verkalýðsins að aðlagast millistéttarlífi og taka upp lífsviðhorf millistéttarinnar. Forystan verður á skömmum tíma að stjórnsýslustétt verkalýðsins. En megindriftin að baki færslu samtaka verkalýðsins frá kröfum um almenna velsæld og yfir í kröfur um að hver eigi rétt á tækifærum til að byggja upp sína eigin einkavelsæld liggur í væntingaskekkjunni sem ég nefndi áðan.

Kúgaður hópur þarf að byggja upp og viðhalda sterkri sjálfsmynd til að halda sig við þær kröfur sem sannanlega þjóna best hagsmunum hans. Ef sjálfsmyndin er veik upplifir hópurinn sig alltaf sem gallaða útgáfu af kúgara sínum; konur sem veika karla, svartir sem lélega hvíta, fatlaðir sem gallaða heilbrigða. Og svo framveigis. Ef hópurinn sækir ekki stolt sitt í stöðu sína, eiginleika og uppruna; veikjast og útvatnast kröfur hans. Á endanum verða þær aðeins umsókn um að fá að vera sem líkastur andstæðingnum; kúgaranum.

Kannski var íslenskur verkalýður aldrei ýkja stoltur. Mér sýnist þó af þeim heimildum um baráttuna á fyrri helmingi síðustu aldar sem ég hef séð að hann hafi þá verið margfalt stoltari en í dag. Ég man hins vegar varla eftir stoltum verkamönnum. Í barnsminni mínu eru aðeins nokkrar myndir af ungkörlum með vinnuvettlinga upp úr rassvasanum gasprandi hátt út í sjoppu yfir dagblöðunum; lemjandi í borðið eins og valdið væri þeirra. Þegar ég fór að fylgjast með pólitík var Gvendur Jaki hins vegar sestur að tafli með Albert Guðmundssyni. Síðustu stóru átökin á almennum vinnumarkaði voru 1978. Hjá opinberum starfsmönnum 1984. Stéttaátök voru að mestu aflögð á Íslandi fyrir 35 árum.

Hugsið um verkalýðsfélagið ykkar í dag ef þið efist um að svo sé. Lokið augunum og sjáið formanninn fyrir ykkur á mynd. Hver er við hliðna á formanninum? Jú, einmitt; formaður samtaka þeirra sem kaupa vinnuna ykkar (sem vildu fyrst heita vinnuveitendur en seinna atvinnulífið – pælið í því; samtök fyrirtækjanna heita samtök atvinnulífsins).

Screen Shot 2014-10-11 at 16.52.07

Millistéttin er hin gelda verkalýðsstétt

Löngu áður en stéttarátök voru svæfð hafði forysta verkalýðsins tekið upp kröfur um að lágstéttirnar mættu líka feta leið millistéttarinnar að farsæld. Um miðja síðustu öld gat millistéttarfólk keypt eigið húsnæði og byggt upp ævisparnað af launum sínum. Láglaunafólk gat það hins vegar ekki. Þrek þess fólst í samtakamættinum. Á sjöunda og áttunda áratugnum tók verkalýðshreyfingin hins vegar upp leið millistéttarinnar; séreignastefnu í húsnæðismálum og uppbyggingu lífeyrissjóðs fyrir hvern launamann.

Þetta tvennt – lífeyrissjóður og séreignarhúsnæði sem aðalbaráttuamál launþega – átti ekki aðeins eftir að brjóta niður og gelda verkalýðsbaráttuna og stöðva þannig þróun almennrar velferðar í þágu fjöldans; heldur varð þetta síðar meir (ásamt menntunarblekkingunni) að rótarmeini hinnar útblásnu millistéttar. Eftir að tekist hafði með alskyns brellum að halda lífi í væntingum meginþorra fólks, byggðum á þessum stoðum, féllu þær saman í Hruninu. Þá afhjúpaðist að væntingar útblásinnar millistéttar um góða afkomu og öryggi voru reistar á sandi. Þær höfðu verið innistæðulausar áratugum saman. Trú meginþorrans á þessa blekkingu hafði hins vegar opnað tækifæri fyrir þá ríku og valdsmiklu til að sópa til sín meiri auð en sést hafði síðan á frumbýlisárum kapitalismans.

Það kom í ljós í Hruninu að millistéttin getur ekki verið mótvægi við yfirstéttina eða haldið aftur að henni. Hún er í vitlausri stöðu á vellinum. Henni er eiginlegt að vera samverkamaður og þjónn yfirstéttarinnar. Millistéttin hefur engin tæki til baráttunnar. Þegar verkalýðsstéttin beitir samtökum sínum fyrir vagninn leitar millistéttin til ríkisvaldsins. Ríkisvaldið er hins vegar ekki vald fólksins og hefur aldrei verið. Ríkisvaldið er alltaf í höndum þeirra ríku og voldugu. Aðhaldið með því valdi getur aldrei verið innan þess.

Millistéttin trúði sögusögnum um að hún væri hjarta og nýru lýðræðiskerfisins og þar með meginstoð ríkisvaldsins. Hún lagði traust sitt á stofnanir þess; að þær tryggðu öryggi, ykju jöfnuð og sköpuðu velferð og velsæld. Hrunið afhjúpaði þá blekkingu. Þá kom ekki aðeins í ljós að þessar stofnanir voru ófærar um að veita aðhald heldur kom í ljós að þær höfðu einmitt alla tíð þjónað sérstaklega hinum ríki og voldugu. Það er í eðli þeirra. Ríkið þjónar þeim sem hafa völdin. Ef ríkið á að þjóna lágstéttunum (og þeim tilheyrir meginþorri þess fólks sem heldur að það tilheyri millistétt) þurfa lágstéttinrar að sækja sér aukið vald – utan ríkisvaldsins.

Þetta er súpan sem við sitjum í. Samtök lágstéttanna eru ófær um að gæta hagsmuna launamanna eða móta samfélagið að þörfum hinna valda- og eignalausum. Óraunsær draumur stærsta hluta millistéttarinnar um velsæld og velferð byggðri á eigin mætti til að byggja upp eignir og sparnað er fallinn. Þessi draumur var enn nýtt tæki hinna ríku og valdamiklu til að mjólka almúgann. Á leiðinni í súpuna höfum við týnt hæfninni til að tala um samfélagið eins og það er. Það er víðtæk skoðun í samfélaginu að við séum á sameiginlegu ferðalag í sama bátnum og þurfum öll að þola sömu ágjafirnar. Reyndin er að við höfum siglt á þessum báti inn svo mikla misskiptingu auðs, valda og öryggis að við þurfum að rifja upp bernskuár kapitalismans til að finna samjöfnuð.

Þetta gerðist á vakt millistéttarinnar, sem allir vildu tilheyra og allir telja sig tilheyra; vöggu lýðræðis og góðra siða. Að sumu leyti er vond staða samfélagsins afleiðing af því að millistéttin vildi taka yfir hlutverk verkalýðsstéttarinnar í að móta réttlátt og sanngjarnt samfélag. Hlutverk sem hún gat ekki valdið – ekki með hugarfari millistéttarinnar.

Gunnar Smári Egilsson
Þessi pistill var áður grein í Fréttatímanum

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram