Hver vill vera Heiðursláglaunakona?

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

Ég hef frá árinu 2008 starfað sem ófaglærður leikskólastarfsmaður hjá Reykjavíkurborg. Ég tilheyri einni ósýnilegustu og ónefnanlegustu starfsstétt á Íslandi, stétt sem er að mestu mönnuð konum; konum sem koma allsstaðar að og eiga ótrúlega fjölbreyttan bakgrunn en eiga þótt eitt sameiginlegt; að geta ekki lifað af laununum sem borgin kýs að greiða fyrir vinnu þá sem innt er af hendi. Þegar ég hef greitt öll gjöld og skatta fæ ég inn á reikninginn minn umþb. 245.000 krónur, fyrir fulla vinnu.

Sem þýðir að ég þarf að vera í aukavinnu, eins og stór hluti þeirra kvenna sem ég vinn með. Við skúrum, prjónum, vinnum í búð, á veitingastöðum, til að komast af. Við hlægjum og grínum og segjum Fake it till you make it og og tökum íbúfen og voltaren og gefum hvor annarri High five og höldum svo áfram að vinna. Um meðferðina á okkur ríkir þögn sem okkur hefur ekki tekist að rjúfa, þrátt fyrir að vera fjarska margar, við rjúfum enga þögn og við erum bæði ósýnilegar og ónefnalegar. Það talar enginn við okkur og það talar enginn um okkur. Allt starfsfólk leikskólanna er nú kallað Leikskólakennarar, í fréttum og í allri umræðu hjá þeim sem vilja vorkenna vesalingum. En við erum það alls ekki allar; sem leikskólakennari áttu mögulega séns á því að lifa af sem einstæð móðir en ófaglærður leikskólastarfsmaður á ekki séns. En kannski á engin okkar séns; ég þekki konu, háskólamenntaðan leikskólakennara sem bar út blöð árum saman, samhliða leikskólavinnunni, allan ársins hring, til að komast af. Kannski erum við allar alveg sénslausar.

Mig hefur í dálitla stund langað til að kalla borgarstjóra á teppið, ef svo má orða það, karlinn sem trónir á toppi valdapíramídans í borginni, karlinn sem ríkir yfir þessari hjörð láglaunakvenna, þennan brosmilda karl sem ma. segist glaður vera Drusla, nokkurskonar heiðursdrusla, mig hefur td. langað að skrifa honum opið bréf og segja:

Sæll Dagur, ég heiti Solla og ég vinn í leikskóla í borginni. Ég fæ umþb. 245.000 krónur inná reikninginn minn fyrir 100% vinnu. Nú vorum launin þín nýverið hækkuð uppí umþb. 2.000.000 króna. Geturðu útskýrt fyrir mér hvernig það samræmist femínískum áherslum þínum sem borgarstjóri? Geturðu útskýrt fyrir mér hvernig stendur á því að ég sé myndir af þér í Fréttablaðinu einu sinni í viku, við leik og störf, en ég og ófaglærðu félagar mínir eru bókstaflega ósýnilegar? Er það af því þú ert karl og við konur? Er það af því að þú ert menntaður og við ómenntaðar? Er það af því að vinnan þín er merkileg, en okkar vinna, á leikskólum borgarinnar, ómerkileg? Er það vegna þess að borgin telur sig aðeins þrífast ef hún hefur á botni valdapíramídans heila hrúgu af fátækum konum sem þurfa að leggja á sig mikið erfiði, bara til að komast af? Er það vegna þess að borgin er á mála hjá kapítalistum sem umbera ekki að lægstu laun séu hækkuð? Er það vegna þess að borgin vill ekki bera ábyrgð á svokölluðu launaskriði og uppnámi á vinnumarkaðnum? Er það vegna þess að borgin trúir því að fátækar og ómenntaðar konur geti bara kennt sjálfum sér um; þær hefðu átt að vera duglegri, ekki svona miklir aumingjar?

Samkvæmt borgarstjóra hefur Reykjavíkurborg verið í fararbroddi í baráttunni gagnvart kynbundnu ofbeldi. Ég veit ekkert um það, kannski er það satt. Kannski hafa samt aðallega aktivistar verið í fararbroddinum, það er oftast svoleiðis. En eitt er alveg á hreinu; með viðbjóðslegri láglaunastefnu sinni er borgin sannarlega í fararbroddi þegar kemur að grímulausri misnotkun á ómenntuðum konum. Hún skipar sér þar í flokk með ósvífnustu kapítalistum okkar tíma. Ég fullyrði að með því að greiða þeim ófaglærðu konum sem starfa á leikskólum borgarinnar laun sem eru langt undir því sem þarf til að lifa mannsæmandi lífi gerist Reykjavíkurborg sek um glæp gagnvart konum. Ég fullyrði að borgin á beinan þátt í heilsuleysi, vonleysi og peningaleysi fátækra kvenna í Reykjavik. Algjört skeytingarleysi Reykjavíkurborgar um lífskjör þeirra verkakvenna sem halda leikskólunum starfandi er til svo háborinnar skammar að allur almenningur hlýtur að sjá óréttlætið og taka undir kröfur okkar um breytingar.

Hver vill vera Heiðursláglaunakona?

Við vitum allar svarið: Enginn. Við eigum okkur enga málsvara, við erum jaðarsettar og valdalausar, ósýnilegar, ónefnanlegar. Við vorum skildar eftir á botninum, okkur var úthlutað hlutverkinu Haltu kjafti og farðu að vinna í þessu óbærilega leikriti sem auðvaldssamfélagið hefur sett á svið, með aðstoð borgar og ríkis. Störf sem áður hlekkjuðu konur innan veggja heimilisins, án nokkurra tekna, eru nú unnin af verkakonum, vissulega ekki launalaust, en því sem næst. Því það allar heiðarlegar manneskjur vita að enginn lifir mannsæmandi lífi fyrir 245.000 krónur á mánuði.

Kúgun kvenna á sér engin landamæri, hún er allstaðar. Mannkynssagan öll er saga endalausrar og forhertrar kúgunar á fátækum konum. Staðan í borginni er sannarlega ekkert einsdæmi, borgin er einfaldlega að vinna eftir líkaninu Líf sumra kvenna er einskis virði. Heimsþekkt og ævafornt líkan.

Það vill engin vera heiðursláglaunakona, það ætlar enginn stíga niður úr 2.000.000 króna turninum sínum og sjá líf okkar, sjá okkur á hlaupum til að sjá fyrir okkur og börnunum okkar, með kerfið glefsandi í hælana á okkur.
Við þurfum sjálfar að stíga fram, þessi fjöldi ósýnilegra kvenna sem rogast um með risavaxinn hluta af samfélaginu á herðum sér, við þurfum sjálfar að leiða eigin baráttu og í krafti þess að málsstaður okkar er svo sannarlega réttlátur, krefjast mannsæmandi launa, samstundis.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram