Við viljum bæði brauð og rósir

Ræða Sólveigar Önnu Jónsdóttur á 1. maí Pistill

Kæru félagar!

Við erum hér saman komin á þessum eldheita og byltingarrauða alþýðudegi alþýðufólks til að minnast þeirra sem vörðuðu brautina; þeirra sem bjuggu við hrikalega vinnuþrælkun frá barnsaldri fram á dauðadag, þeirra sem bjuggu við ömurlegan húsakost, þeirra sem nutu varla nokkurrar menntunar, þeirra sem voru nær réttlaus með öllu, voru kúguð, smánuð og beitt grimmilegu og stofnanavæddu ofbeldi af kapítalistum og yfirvöldum, en risu samt upp, sameinuð, stolt, sterk, herská þrátt fyrir kúgun aldanna og gerðust baráttufólk, sameinuð í trúnni á samtakamátt fjöldans, gerðust kommúnistar, sósíalistar, anarkistar, stofnuðu verkalýðsfélög, samtök og flokka í óþökk auðvaldsins og tóku þá merkilegu, sögulegu en jafnframt algjörlega augljósu ákvörðun að standa saman vörð um hagsmuni alþýðunnar, standa saman um eigin hagsmuni og hagsmuni hvers annars, og við erum komin hér saman til að blása hvort öðru baráttuanda í brjóst því baráttan er endalaus í kapítalísku samfélagi, í ljósi sögunnar litum við, alþýðan, undan í eitt augnablik en misstum á þessu augnabliki sem var í ljósi sögunnar stórsögulegt, máttinn og getuna og tungumálið okkar um stéttastríð, auðvald, arðrán, eldmóð, baráttu, og sigur.

Félagar, í dag, á þessum fyrsta maí, líkt og alla hina dagana, er staða okkar sem tilheyrum verkalýðnum óviðunandi, hún er svívirðileg, og staða þeirra sem af einhverjum ástæðum geta ekki selt aðgang að vinnuafli sínu, enn verri; það skiptir ekki máli hvort við vinnum öll þau mörgu og mikilvægu störf sem við höfum tekið að okkur eða hvort við erum óvinnufær: við erum dæmd í króníska fátækt og áhyggjur og til þess að lifa í þessum undarlega samfélagslega ósýnileika sem ríkt hefur um líf okkar og kjör, þar sem enginn hefur í raun haft áhuga á að vita nokkuð um tilveru okkar, áhuginn er svo lítill að þegar við stígum svo fram og lýsum fáránleikanum sem auðvaldssamfélagið neyðir okkur til að búa við erum við ásökuð um að segja ekki satt eða vera með rangan frásagnarmáta eða viðmælanda, því eins og öll vita í þjóðfélagsskipulagi nýfrjálshyggjunnar gerum við ekkert rétt, ef við kynnum að gera hlutina rétt værum við ekki svona undirsett, svona leiðinleg, svona vælin.

Kæra fólk, það getur verið erfitt að horfast í augu við arðránið, það er ekki auðvelt að lifa í samfélagi þar sem vinna þín er undirstaða verkefnisins Ísland en þú ert samt alltaf á hlaupum að græja, redda, semja, þar sem tilvera þín er aðeins röð mánaðamóta sem koma og fara, í samfélagi yfirgengilegra efnahagslegra öfga þar sem firrt yfirstétt valsar um algjörlega ósnert af lífi verkafólks, öryrkja, fátækra, þar sem vitfirrt yfirstétt hefur sölsað undir sig svo gríðarlegar eignir að hún byggir sér hallir og herragarða sem hún fyllir af gersemum svo að öllum séu augljósir æðisgengnir efnahagslegir yfirburðir hennar, á meðan börn fátæks fólks og fátækt fullorðið fólk er dæmt til félagslegrar einangrunar í þessu grimma samfélagi nýfrjálshyggjunnar, þar sem nokkurskonar félagslegur sadismi ræður ríkjum, þar sem enginn af þeim sem tekið hafa að sér að stýra ríki eða sveitafélögum er tilbúinn til að axla nokkra ábyrgð á lágum launum eða bótum, þar sem algjörlega ólýðræðislegar stofnanir eins og Kjararáð bæta klámfengnum summum við laun þessara sömu óábyrgu stjórnmálastjórnenda, sem hafa enga veraldarsýn aðra en þá að fá í stutta stund að stýra þessu óbærilega ríki nýfrjálshyggjunnar, fá að vera framkvæmdarstjórar, sýna æðisgengna hugmyndaauðgi en aðeins þegar kemur að niðurskurði, rekstrarafgöngum, hagræðingu og eignatilfærslum í þágu auðvaldsins, í samfélagi þar sem framkvæmdarstjórar yfirvaldsins tryggja að auðstéttirnar njóti yfirgengilegs skattadekurs, svo yfirgengilegs að ekki aðeins geta þær lifað eins og aðall, heldur einnig sent afrakstur arðránsins í skattaskjól, til að tryggja að afkomendur þeirra verði raunverulegur aðall, til að ríkja hér yfir okkur vesalingunum, í samfélagi þar sem stöðugt þyngri byrgðar eru lagðar á okkur; verkafólk og alþýðu, þar sem við eigum ekki aðeins að sætta okkur við glæpsamlega lág laun heldur einnig að rogast um með hrörnandi velferðarkerfið á öxlunum, þar sem við eigum ekki aðeins vinna eins og skepnur heldur einnig að sætta okkur við að sturlaðir kapítalistar sölsi undir sig húsnæði til að leigja okkur og börnunum okkar á uppsprengdu verði, þar sem við eigum ekki aðeins að sætta okkur við það að svokölluð kostnaðarvitund okkar sé aukin með því að gera læknisheimsóknir að lúxus, heldur einnig það auðstéttin graðki til sín sjálft heilbrigðiskerfið, til þess að græða á veikindum okkar og fólksins okkar. Já, þvílík æðisgengin hugmyndaauðgi!

Kæra fólk, við horfumst í augu við arðránið, við getum ekki beðið lengur, við getum ekki setið hjá á meðan samfélagsleg gildi okkar lúta sífellt í lægra haldi fyrir viðbjóðslegri hugmyndafræði um yfirdrottnun auðsöfnunnar nokkurra á kostnað fjöldans, þar sem stöðugt er grafið undan hugmyndunum um samhygð, samhjálp og samvinnu og í stað þeirra neydd uppá okkur and-siðferðisleg gildi kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar.

Kæru félagar. Við getum ekki beðið lengur og við ætlum ekki að bíða lengur, við ætlum að mynda sósíalíska hreyfingu, þar sem við berjumst fyrir okkar gildum, okkar heimssýn, okkar samfélagi; þar sem við höldum verndarhendi yfir hvert öðru, þar sem samhygð er kostur, ekki íþyngjandi galli sem best er að niðurskera, samfélagi þar sem öll börn geta notið æskunnar og eru ekki dæmd úr leik vegna fötlunar eða efnahagslegrar stöðu foreldra, samfélagi þar sem enginn þarf að standa í biðröð til svelta ekki, samfélagi þar sem allt fólk á rétt á ókeypis læknisþjónustu, samfélagi þar sem gamalt fólk nýtur umhyggju og umönnunar og upplifir þakklæti kynslóðanna fyrir unnin störf,
samfélagi þar sem allt fólk á rétt á öruggu og góðu húsnæði, samfélagi þar sem öllum er tryggð mannsæmandi afkoma, samfélagi þar sem ákvarðanir um atvinnumál eru teknar á lýðræðislegum forsendum og með hag almennings fyrir brjósti, þar sem arðræningjar geta ekki upp á sitt einsdæmi kippt fótunum undan afkomu fólks og lagt bæjarfélög í rúst, samfélagi þar sem tekið er með vinsemd og virðingu á móti aðfluttu fólki, þar sem erlent verkafólk nýtur sömu réttinda og aðrir en er ekki leiksoppar óforskammaðra kapítalista, samfélagi þar sem fólk hefur nægan tíma til að sinna sjálfu sér, fjölskyldu og vinum.

Akkúrat núna, akkúrat hér, á þessum byltingarrauða alþýðudegi alþýðufólks ætlum við að stofna sósíalíska hreyfingu og við ætlum að berjast, sameinuð, við auðvaldið. Þetta samfélag tilheyrir ekki kapítalistum, við erum ekki hér til þess að auðga þá, við byggðum þetta samfélag, það tilheyrir okkur, ekki fámennri auðstétt!

Líf einnar manneskju er milljón sinnum meira virði en allt ríkidæmi auðugustu manneskju veraldar, sagði merkilegur maður um miðbik síðustu aldar, og fyrir meira en hundrað árum síðan sagði sósíalistinn, femínistinn og baráttukonan fyrir réttindum verkakvenna, Róse Schneiderman þetta: Það sem verkakonan vill er rétturinn til þess að lifa lífinu, ekki aðeins komast af – rétturinn til að njóta lífsins líkt og ríka konan hefur rétt á, og rétturinn til að njóta sólarinnar og tónlistarinna og listarinnar. Þið hafið ekkert sem hin lægst setta verkakona hefur ekki einnig rétt á. Verkakonan þarf brauð en hún þarf líka rósir.

Við tökum undir þessi orð, við sósíalistar, við verkafólk, við öryrkjar, við gamalt fólk, við fátækt fólk, við fatlað fólk, við innflytjendur, við sem byggjum þetta samfélag:

Við viljum brauð og við viljum líka rósir!

Takk fyrir.

Sólveig Anna Jónsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram