Bíddu en af hverju?
Pistill
10.05.2017
Þegar ég var lítil var það illa séð að ég svaraði spurningu með af því bara. Mér var sagt að það væru engin rök. Þetta hefur fylgt mér síðan og þegar ég var í skóla voru margir orðnir leiðir á mér þegar ég gekk á eftir kennurum með rök og skýringar. Ég vildi sum sé skilja viðfangsefnið til fulls. Eins er það með rökin við spurningum um kvótakerfið.
„Heyrðu Katrín mín, það er langbest að kvótinn sé í höndum einkaframtaksins og mönnum sem kunna á viðskipti.“ Bíddu af hverju? „Af því að almenningi er ekki treystandi fyrir auðlindinni og að reka kerfið með hagnaði.“ Bíddu af hverju? „Ja, sagan segir að fyrirtæki í eigu ríkisins skila ekki eins miklum hagnaði og einkarekin.“ Bíddu en hvað með orkufyrirtækin, bankana sem núna er að mestu í eigu ríkisins, Landssímann áður en hann var einkavæddur, bankana áður en þeir voru einkavæddir, ÁTVR og fleiri ríkisfyrirtæki sem eru að skila miklum hagnaði? „Já en það fer ekki vel á því að ríkið sé að vasast í svona rekstri sem hentar frekar einkaframtakinu.“ Bíddu af hverju? „Menn þurfa að hafa kjark og þora að taka áhættu upp á eigin spýtur.“ Bíddu eins og þegar mennirnir sem áttu bankana keyrðu alla þjóðina í gjaldþrot svo úr varð hrun.“Nei ég meina ekki þannig.“
En við vorum að tala um kvótakerfið, finnst þér ekki eðlilegt að öll þjóðin fái arðinn af auðlindinni? „Katrín, það er ekkert kerfi í sjávarútvegi í heiminum sem hefur gefið eins góða raun og kvótakerfið og menn í öðrum löndum líta til þess með öfundaraugum. Þetta eru framsæknir menn sem höndla með kvótann og greiða gríðarlega fjármuni í sjóði landsmanna.“ Bíddu en þeir hirða mest af þeim sjálfir. Ef þjóðin fengi arðinn af kvótanum, þá væri sennilega hægt að halda upp heilbrigðiskerfinu ókeypis fyrir alla, menntakerfinu ókeypis fyrir alla, samgöngukerfinu líka og kannski fleiru, fer svona eftir því hvernig þetta er reiknað. „Nei þetta myndi enda illa því að það sem rekur þetta áfram er gróðavon þeirra sem fara með kvótann. Meðal annars þess vegna gengur þetta svona vel. Það er gróðavonin.“
Bingó, þarna er komin kjarni málsins og í raun réttlæting kvótagreifananna á því að viðhalda kerfinu. Gengið út frá því að maðurinn sé í eðli sínu eigingjarn og gráðugur og einstaklingshyggjan sé honum í blóð borin. Þetta eðli mannsins sé hægt að nýta og virkja til gróða á markaði þannig að það komi heildarhag samfélagsins til góða, þótt óbeint sé.
Dr. Níels Einarssonar, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, segir um kvótakerfið í umbeðnu erindi sínu til Alþingis í apríl 2012, að framsal aflaheimildanna sé drifkraftur og hreyfiafl þessa fiskveiðistjórnunarkerfis, þar sem aflaheimildirnar leiti með tilstilli hinnar ósýnilegu handar markaðarins til þeirra sem geri út á sem hagkvæmastan hátt, með minnstum tilkostnaði og mestum afrakstri. Þeir duglegu í útgerð kaupi þannig smám saman upp aflaheimildir skussanna sem sjái sitt óvænna og hverfi til annarrar iðju. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að þessi ákveðna stefna, sem hefur orðið nokkuð ráðandi innan alþjóðlegrar hagfræði fiskveiðistjórnunar, byggi á ákveðinni heimspekilegri stjórnmálastefnu og hugmyndafræðilegri heimssýn, sem gegnsýrir allar ályktanir og ráðleggingar þeirra sem hana aðhyllast. Nýfrjálshyggja í fiskveiðistjórninni sé þannig ekki tæknileg og hlutlaus skynsemisstefna eða iðja sérfræðinga heldur afsprengi hugmyndafræðilegra viðhorfa.
Þú vilt sem sé meina að ávinningsvonin réttlæti kvótakerfið? „Eins og ég sagði áðan þá er ég nokkuð viss um að arðurinn yrði ekki eins mikill ef almenningur fengi kvótann í hendurnar.“ Bíddu heldur þú að almenningur sé svona vitlaus að hann mundi glutra þessu niður? „Einkavæðing hentar betur á samkeppnismarkaði.“ Bíddu, en kvótakerfið íslenska einkennist af fákeppni en ekki samkeppni. Af hverju viltu ekki að afraksturinn af auðlindinni renni allur til þjóðarinnar? „Af því bara.“ Lengra komust þessar samræður ekki.
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert þá kröfu til íslenskra stjórnvalda að aflaheimildir verði innkallaðar og þeim endurúthlutað á sanngjarnan og réttlátan hátt. Það hefur ekki verið gert. Dr. Níels segir í fyrrnefndu erindi sínu til Alþingis að varla sé hægt að sjá að lítill hópur kvótagreifa geti til langs tíma staðist kröfur um sjálfbæra samfélagsþróun, jafnræði og réttlæti.
Katrín Baldursdóttir