Opið bréf til íslensku hægrimanneskjunnar

Símon Vestarr Frétt

Þú ert sósíalisti.

Ekki örvænta. Þú þarft ekki að fá þér Ché Guevara bol eða syngja með í viðlaginu: „Fuck you, I won‘t do what you tell me!“ Auðvitað hafa þeir hlutir eitthvað með sósíalisma að gera en sósíalisti er hver sá sem lætur sig samfélagsleg hugðarefni varða. Í bókinni Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason segir aðalpersónan um róttækni sína á yngri árum: „Að vera sósíalisti var að vera maður.“ Þar hittir hann í raun naglann á höfuðið, nema hvað þátíðarmyndin er örlítið villandi. Að vera sósíalisti er að vera maður.

Sanngirni er samofin eðli okkar sem spendýrum. Allir sem eru í einhverjum tengslum við samvisku sína vilja að fólk fái að njóta afraksturs erfiðis síns burtséð frá því hvert eignarhaldssamband þess við framleiðslutækin er. Ég leyfi mér að ganga svo langt að segja að allir nema siðblint fólk séu í raun sósíalistar. Flestir hægrisinnar sem ég þekki eru sammála vinstrisinnum með allar hugsjónir. „Auðvitað væri það best ef við gætum haft jöfnuð, réttlæti og bræðralag,“ segja þeir en bæta svo við: „Það er bara ekki framkvæmanlegt.“

Sko, ég sagði þér: þú ert sósíalisti. Þú ert bara svartsýnn sósíalisti.

Grunnhugsjón sósíalismans er sú að allir eigi að gera það sem þeir geta og uppskera það sem þeir þurfa. (Samkvæmt Karl Marx var þetta sjálfur hornsteinn kommúnismans en við skulum endurheimta eitt hugtak í einu.) Eins og mannfræðingurinn David Graeber bendir á þá væru vinsamleg samskipti manna á milli ómöguleg ef þau byggðu ekki á þessum grunni. Þá hefðum við ekkert mannlegt samfélag. Þá væri mannkynið útdauð tegund. Útspil Graebers í umræður sem hefjast á staðhæfingunni: „Sósíalismi virkar ekki“ er einfalt. Svo ég umorði hann lítillega: „Sósíalismi er það eina sem virkar.“

Ef þú mættir velja annað hvort að leyfa fjárfestum að græða á sjúklingum eða veita Íslendingum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu myndirðu alltaf velja það síðarnefnda.

Ef þú mættir velja annað hvort að leyfa sægreifum að mokgræða á auðlind þjóðarinnar og geyma peningana í aflandsfélögum eða leyfa þeim sem veiða fiskinn og verka hann að njóta gróðans af honum myndir þú alltaf velja það síðarnefnda.

Ef þú mættir velja annað hvort að leyfa starfsmannaleigum að stunda þrælahald á íslenskri grundu eða veita erlendu starfsfólki samningsrétt um mannsæmandi afkomu myndirðu alltaf velja það síðarnefnda.

Ef þú mættir velja annað hvort að leyfa fjármálafyrirtækjum að kaupa upp íbúðir og mokgræða á þeim og keyra upp húsnæðisverð eða veita ungu fólki von á því að eignast eigið húsnæði einhvers staðar sunnan við fimmtugsaldurinn myndirðu alltaf velja það síðarnefnda.

Þú myndir alltaf velja það síðarnefnda.

Af því að þú ert sósíalisti.

Málið er bara að þú heldur að þú hafir ekkert val.

Góðu fréttirnar eru þær að það er ekki rétt hjá þér.

Símon Vestarr

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram