Hvar endar þetta?

Símon Vestarr Pistill

Þessi pistill snýst um þig og mig.

En ég ætla að byrja hann á nítjándu öldinni.

Þegar Lincoln Bandaríkjaforseti lagði fram tillögu um stjórnarskrárbreytingu til að afnema þrælahald hélt þingmaðurinn George Yeaman ræðu þar sem hann lagðist gegn þeirri tillögu. Fullvissaði reyndar þingheim um að hann hefði ímugust á þræhaldi sem slíku en lagði um leið samviskuspurningu fyrir kollega sína: Eruð þið tilbúnir að samþykkja afleiðingar afnáms? Ef svartir menn verða leystir úr þrældómi hlýtur að vera eðlilegt að þeir öðlist kosningarétt. Og hvað svo? Almennur kosningaréttur? Kerlingar að kjósa?! Hvar endar þetta?

Hið fyndna er að þingmaðurinn frá Kentucky hafði rétt fyrir sér. Eitt leiðir af öðru. Frelsi getur af sér meira frelsi. Á endanum varð kosningarétturinn almennur og jafnt blökkumenn sem kvenfólk fengu að taka þátt. Þeir sem aðhyllast hugmyndir um að mannslíf hafi gildi í sjálfu sér myndu jafnvel halda því fram að sá sjálfsákvörðunarréttur hafi alltaf verið til staðar. Að hann sé meðfæddur. Að ráðamenn hafi í raun ekki þurft að búa hann til heldur einfaldlega hætta að standa í vegi fyrir honum. Einn baráttumaður fyrir réttindum svartra í Bandaríkjunum, Stokely Carmichael, sagði að lögin um borgaraleg réttindi og kosningarétt hörundsdökkra (sem litu reyndar ekki dagsins ljós fyrr en heilli öld eftir ræðu Yeaman) hefðu ekki verið sett til að færa blökkumönnum þau skilaboð að þeir væru frjálsir, heldur til að fræða hvíta menn um það.

Eitt auðveldar alla frelsisbaráttu: sú staðreynd að við erum öll frjáls. Ef við berjumst fyrir jafnrétti höfum við sannleikann okkar megin í slagnum. Enginn þarf að réttlæta fyrir neinum kröfuna um að valdhafar virði mannréttindi hans. Sönnunarbyrðin er alltaf á herðum kúgarans. Þessu gleymum við oft en í hvert sinn sem við knýjum fram litla sigra rifjast það upp. Þá hugsum við: „Hvað annað höfum við haldið að við gætum ekki framkvæmt?“ og valdhafar fá ræpu af tilhugsuninni um að missa forréttindi sín.

Þess vegna gefa þeir EKKERT eftir fyrr en samankreppt krumla þeirra er spennt upp með sameiginlegu átaki. Hefurðu ekki stundum hugsað með þér: „Myndu ráðamenn ekki spara sér talsverða illvild með því að koma ööörlítinn spöl til móts við fólkið? Myndu þeir ekki í raun framlengja völd sín með pínulitlum málamiðlunum, t.d. í heilbrigðis-, húsnæðis- eða menntamálum? Þurfa þeir virkilega að standa svona á hálsinum á okkur?“ Þessar spurningar hljóma rökréttar þar til maður tekur ályktun Yeaman með í reikninginn.

Eitt leiðir af öðru.

Ef þeir láta undan kröfum landsmanna í litlum hlutum þá skapast fordæmi. Í kjölfar slíks ósigurs gagnvart þjóðarviljanum myndi almenningur fá þá flugu í höfuðið að hann ráði einhverju. Hvar endar það? Kári Stefánsson kom áttatíu þúsund nafna undirskriftalista til yfirvalda með kröfu um aukin fjárútlát til heilbrigðismála. Hann hefði allt eins getað mætt í stjórnarráðið með Kalasnikoff-riffil. Ríkisstjórn sem stjórnar í krafti þess að fólkið í landinu upplifi sig fullkomlega vanmáttugt má ALDREI láta undan slíkum kröfum, hversu sanngjarnar sem þær eru. Hvar endar það? Með beinu lýðræði. Og hvaða tilgangi myndi kapítalískur stjórnmálaflokkur þjóna í samfélagi þar sem fólkið réði sér sjálft? Hann myndi enda uppi á háalofti við hliðina á fótanuddtækinu og Wham-kassettunum.

Þetta er tilvistarbarátta þeirra.

Gegn okkur.

Og við erum miklu fleiri.

Samtímamaður Georgs Yeaman, leysinginn og mannréttindafrömuðurinn Frederick Douglass, sagði eitt sinn að valdhafar létu aldrei neitt af hendi án þess að gengið væri hart eftir því; hvorki fyrr né síðar. Og að án baráttu yrðu engar framfarir. Berjumst því saman. Leysum okkur undan oki eignastéttarinnar. Og losum hana um leið úr viðjum óverðskuldaðrar forréttindastöðu.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram