Hvurs lags -isti ert þú?

Símon Vestarr Pistill

Hlutleysi er vinsælt en misskilið hugtak. Allir vilja vera yfir hugmyndafræði hafnir. Sérstaklega fólk með hugsjónir. Þetta er arfur frjálshyggjunnar og upp að vissu marki er þetta göfugt. Hver vill verða uppvís að því að hygla einhverjum lífsskoðunarhópi fremur en öðrum? Hver vill ekki geta sett sjálfan sig fram sem boðbera ómengaðs sannleika?

Málið er bara að slíkt hlutleysi er hrævareldur.

Hlutleysiskrafa er mikilvæg hvað varðar hagsmuni en hún er ómöguleg gagnvart hugmyndum.

Allir hafa sjónarhorn. Þess vegna er það í besta falli tilgerðarlegt sjálfshól og í versta falli óheiðarleg hugarleti að lýsa því yfir að maður aðhyllist engan -isma eða sé enginn -isti. Það er ekkert að því að segja: „Ég veit ekki hvers konar -isti ég er.“ Ef ég þyrfti að kortleggja hvern krók og kima minnar eigin hugsunar væru vandræðalegir skallablettir á því korti. En að halda að -ismar séu bara fyrir fólk með kröfuspjöld er kjánalegt. Ég væri t.d. reiðubúinn að veðja líffæri upp á það að lesandi þessa pistils sé húmanisti. Það þýðir að viðkomandi líti svo á að gildi sem séu sammannleg eigi að vera ráðandi í stefnumörkun og að manneskjum sé betur treystandi til að vita hvað þeim sé fyrir bestu en skýjadraugum eða steinlíkneskjum. Og ef maður tekur undir það þá getur maður ekki lengur sagt að maður sé skoðanalaus. Maður er þó alla vega húmanisti.

Allir samþykkja að andóf gegn ríkjandi skipan sé afstaða og því ber ekki að neita. En samþykki á ríkjandi skipan er alveg jafn afgerandi afstaða jafnvel þótt samþykkið sé svo að segja þögult. Maður er ekki hlutlaus þótt maður láti sig vanta í baráttunni gegn kúgun rétt eins og maður er ekki í rétti í umferðarslysi ef maður stígur á kúplinguna í brekku og lætur bílinn renna á rafmagnsstaur. Blaðamaðurinn Robert Fisk, sem hefur skrifað um stríðin í Mið-Austurlöndum frá því á áttunda áratuginum, hefur oft sagt um stríðsfréttaflutning að blaðamenn ættu ekki að vera algjörlega hlutlausir heldur hlutlausir í þágu þeirra sem þjást. Þetta á við um öll átök, líka stéttaátök, þrátt fyrir að hryðjuverkin í þeim slag séu oftar framin með arðráni en með sprengjum. Þeir sem þjást í kapítalisma eru þeir sem hafa ekkert annað að selja en vinnuafl sitt og eru því fyrstir til að kremjast undir þegar spilaborgin hrynur.

Ég hef samúð með þeim sem hafa ímugust á hugtaki eins og kommúnisma. Það er erfitt að veifa sama flaggi og Maó formaður. En að láta sögulegan farangur fæla sig frá orðinu sósíalismi er til marks um lítilfjörlega söguþekkingu. Það orð hefur mikið víðari skírskotun og þess má geta að orðið lýðræði hefur verið misnotað jafn mikið ef ekki meira. Íraksinnrásin var gerð undir yfirskini lýðræðis og ríki eins og Austur-Þýskaland, Norður-Kórea og Kongó hafa líka kennt sig við það. Samt er ég lýðræðissinni og ég er viss um að lesandinn er það líka. Sama gildir um kynjavíddina. Ef einhver fær hroll við að heyra orðið femínismi vegna þess að sumir undir þeim hatti láta biturleikann stíga sér til höfuðs þarf sá hinn sami bara að hrista það af sér. Jafnrétti skiptir of miklu máli til að við höldum áfram með það rifrildi.

Allir hafa afstöðu.

Enginn er hlutlaus í þeim skilningi að hann sé skoðanalaus.

En hlutleysi er mikilvægt hvað varðar peninga og völd. Ef manneskja getur hagnast á kostnað annarrar manneskju eða almannahags með því að halda einhverju fram þá gengisfellir það hagsmunasamband fullyrðingu hennar. Ef maður hagnast t.d. á því að viðskipti fari sem mest fram í gegnum posa þá gengisfellir það hagsmunasamband hugmynd mannsins um að takmarka seðlaframleiðslu (hugmynd sem var blessunarlega hlegin út af borðinu). Þess vegna skulum við alltaf vera á varðbergi þegar fólk með feykinægar tekjur segir okkur að engin betri samfélagsskipan sé möguleg. Það fólk græðir á því að við trúum ósannindum.

Að kalla sig -ista er að lýsa yfir upplýstri afstöðu. Málið er að maður þarf fyrst að upplýsa sig og það er vesen. Maður þarf bara að gera það upp við sig hvort það sé meira vesen að lesa hluti með opnum huga eða að sætta sig við óréttlæti. Og eins og sósíalistinn Martin Luther King benti á þá er óréttlæti á einum stað ógnun við réttlæti alls staðar.

Húmanisti eins og þú hlýtur að samsinna því.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram