Rokkstjarnan Jeremy Corbyn

Guðmundur Auðunsson Frétt

„Ef ég má, þá vildi ég gjarnan vitna í eitt af uppáhalds skáldum mínum, Percy Byssche Shelly, sem orti mörg ljóð snemma á 19. öldinni og ferðaðist út um alla Evrópu. Sú staka sem ég kann best við er þessi: „Rís up sem ljón eftir lúr, í krafti fjöldans, hrist burt hlekkina á jörðina eins og dögg sem fell á þig í svefninum-þið eruð mörg, þau eru fá““

Þessi orð voru töluð af Jeremy Corbyn, formanni breska Verkamannaflokksins á Glastonbury tónlistarhátíðinni, sem er ein stærsta tónlistarhátíð í heimi. Yfir hundrað þúsund gestir, hrópandi “oh Jeremy Corbyn” eins og á fótboltaleik hlustuðu á töluna hans. Stærri hópur hafði ekki sést þar síðan Rolling Stones voru með tónleika þar fyrir nokkrum árum. En hver er þessi Jeremy Corbyn, sem gersamlega hefur tekið æsku Bretlands með stormi? Hvernig stendur á því að þessi gamalreyndi baráttumaður sem er búinn að vera eins og hrópandinn í eyðimörkinni síðan á 8. áratug síðustu aldar er nú orðinn eins vinsæll og rokkstjarna meðal unga fólksins, aldamótakynslóðarinnar sem átti samkvæmt skrifum að vera áhugalaus með öllu um stjórnmál? Þessi 68 ára gamli pólitíkus, hetja unga fólksins. Maðurinn sem Tony Blair og hægriklíkan í kringum hann almennt hlógu að, hann væri ekki til meira brúks en sem táknrænn vinstrimaður, háttvirtur þingmaður Islington North í norður London, á svæði sem er líklega þekktast fyrir að vera heimasvæði knattspyrnufélagsins Arsenal.

Ég fékk innsýn inn í hvað var á seiði þegar ég í fyrsta sinn síðan ég flutti til London var að labba í hús með stuðningsmönnum Verkamannaflokksins í kjördæmi mínu í vestur London. Fyrir 2 árum vann Verkamannaflokkurinn þetta kjördæmi af íhaldsþingmanni með einungis 271 atkvæða mun, svo þetta kjördæmi var ofarlega á lista yfir kjördæmi sem Íhaldsflokkurinn ætlaði að vinna auðveldlega í kosningum sem flokkurinn ætlaði sér stórsigur í. Á flokkskrifstofu Verkamannaflokksins var mættur mörg hundruð manna hópur fólks, svo stór að nágrannakjördæmum var boðin aðstoð, margir fóru yfir til Kensington, ekki vegna þess að flokkurinn hafi búist við að vinna þingsæti þar (sem gerðist reyndar, með 20 atkvæðum!), Kensington hafði kosið íhaldsþingmann síðan 1918! Ég og nokkrir krakkar, flestir rétt rúmlega tvítugir, löbbuðum af stað um hverfið að banka á dyr. Ég notaði tímann á milli hurða að spjalla við krakkana. Það eru varla til orð til að lýsa því hversu miklar stjörnur í augunum þetta unga fólk var með gagnvart Corbyn. Þau voru þarna til að styðja JC og stefnu hans, miklu frekar en Verkamannaflokkinn. Hann var stjórnmálamaðurinn sem þau voru búin að bíða eftir allt sitt líf, með stefnu sem talaði beint til þeirra.

Jeremy Corbyn á sér langa og merka sögu í breskri pólitík. Allt frá því hann var ungur á 8. áratugnum hefur hann verið fremstur í flokki í baráttu fyrir sósíalisma og réttlæti, frá andstöðu gegn Apartheid í Suður Afríku, til baráttu fyrir réttlæti til handa Palestínumönnum, baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra og umfram allt harðri andstöðu við stríðsrekstur í Mið-Austurlöndum. Corbyn var einn af helstu leiðtogum „Stop the War Coalition“ sem barðist harkalega gegn stríðsrekstri George W. Bush og Tony Blair í Írak. Allt frá því að Corbyn var kosinn á þing árið 1983 þá hefur hann skipað sér í hóp róttækustu þingmanna Verkamannaflokksins, þingmanna sem hafa haldið sósíalisma og stéttabaráttu á lofti. Það var einmitt þessi staðfesta sem átti eftir að vera lykilþátturinn í að höfða til unga fólksins sem stuðlaði að kjöri Jeremy Corbyn sem formanns Verkamannaflokksins 2015.

Eftir að Íhaldsflokkurinn náði völdum í Bretlandi 2010, með stuðninga Frjálslynda flokksins, hefur Bretland gengið í gegnum hart niðurskurðartímabil. Bætur hafa verið stórskertar, framlög til sveitarfélaga skorin niður um helming og tugum þúsunda lögreglumanna og slökkviliðsmanna var sagt upp (átti eftir að koma upp á yfirborðið í kjölfar hryðjuverkanna í London og Manchester, auk hins hryllilega bruna í norður Kensington). Á sama tíma hefur Verkamannaflokkurinn verið í upplausn. Kosið var á milli Miliband bræðranna David og Ed í formannskosningum 2010, með táknrænni þátttöku Jon Cruddas, sem var talinn eitthvað til vinstri í flokknum. David var frambjóðandi Blairistanna en hann tapaði naumlega fyrir yngri bróður sínum Ed. Þegar kosningar voru næst 2015 þá rak flokkurinn litlausa kosningabaráttu undir fána miðjumoðskosningastefnuskrá. Eins og við var búist fór hægripressan (80% bresku blaðanna) í harða ófrægingarherferð gegn Ed Miliband. Verkamannaflokkurinn fékk einungis 9,347,304 atkvæði eða 29% og Íhaldsflokkurinn náði hreinum meirihluta á þingi. Miliband sagði af sér sem formaður og við tóku formannskosningar sem voru álitnar verða á milli hægrimanneskjunnar Liz Kendall, sem studd var af Blairistum, og miðjumannanna Yvette Cooper og Andy Burnham (núverandi borgarstjóra Manchester). Cooper var talin til Brownarmsins en Burnham var talinn vægur vinstrimaður, studdur af stuðningsmönnum Ed Miliband. Til viðbótar þessum „þungavigtarmönnum“ var síðan hinn táknræni frambjóðandi harða vinstrisins í flokknum, Jeremy Corbyn, sem rétt skrapaði saman nógu mörgum tilnefningum þingmanna til að fá að vera með. En þá gerðist eitthvað. Corbyn, með sáralítinn stuðning frá þingflokki Verkamannaflokksins, tók baráttu sína beint til fólksins. Það hlustaði, sérstaklega unga fólkið sem gekk í stórum stíl í flokkinn til að geta kosið Corbyn. Svo bættust líka eldri vinstrimenn eins og ég við, fólk sem var búið að fá upp í kok af Blairismanum og uppgjöfinni við Thatcherismann. Corbyn vann stórsigur, fékk tæp 60% atkvæða. Næstur kom Burnham með rúm 19% og Blairistinn Kendall fékk einungis 4.5%. Það ótrúlega hafði gerst, sannur sósíalisti hafði verið kjörinn formaður Verkamannaflokksins! Hægrimennirnir og miðjumoðararnir í flokknum sleiktu sár sín, töldu sér trú um að Corbyn myndi ekki endast lengi. Öll pressan, líka svokölluð vinstripressa eins og the Guardian, fóru í stríð við Corbyn á klassískan hátt, fyrst var reynt að gera grín að honum, síðan hófst ófrægingarherferðin sem náði hámarki á kjördag 2017.

Skyndikosningar voru boðaðar nú í júní. Þegar May kallaði á kosningarnar var flokkurinn með 25 prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn og Corbyn talinn óvinsælasti formaður Verkamannaflokksins frá upphafi. En Corbyn og Verkamannaflokkurinn rak magnaða kosningabaráttu, sem blandaði saman fjöldafundum með Corbyn og stórfelldri netbaráttu til að vega upp á móti hinni ráðandi hægripressu. Árangurinn var stórkostlegur, Íhaldsflokkurinn missti meirihluta sinn á þingi, hékk uppi á góðum árangri í Skotlandi í fyrsta sinn í mannsaldur og vegna hruns UKIP, sem er popúlískur öfgahægriflokkur. Fylgi Verkamannaflokksins jókst meira en í öllum kosningum síðan 1945. Flokkurinn fékk 40% atkvæða, 12,877,869 atkvæði, og bætti þar með við sig um 3.5 milljón atkvæðum. Unga fólkið mætti á kjörstað betur en í langan tíma. Kosningarnar sem áttu að rústa Corbyn gerðu hann að þjóðhetju, og flestir eru á því að það sé bara tímaspursmál hvenær hann taki við sem forsætisráðherra.

Þessi ótrúlega atburðarás er ekki einsdæmi í Bretlandi. Við fylgdumst með uppgangi Bernie Sanders í Bandaríkjunum, annars sósíalista í eldri kantinum sem náði til unga fólksins. Á Íslandi sjáum við róttækni aukast og Enhedslistinn (flokkurinn sem er lengst til vinstri í Danmörku) er á mörkum þess að verða stærsti flokkurinn í borgarstjórnarkosningunum í Kaupmannahöfn. Sérstaklega er unga fólkið að vakna, vill ekki þennan heim sem við höfum búið til handa þeim. Klassísk sósíalísk gildi eru aftur í tísku, í nýjum 21. aldar búningi. Baráttan er rétt að byrja, auðurinn heldur áfram að safnast í sífellt færri hendur. En alvöru vinstrimennska, sósíalismi er svo sannarlega á uppleið. 21. aldar sósíalismi sem byggir á aldagamalli baráttuhefð. Því orð Shelleys sem Corbyn vitnaði í á Glastonbury hátíðinni eru jafn gild í dag eins og þau voru fyrir 200 árum. Við erum mörg, þau eru fá.

Guðmundur Auðunsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram