5 atriði sem gera prollur* borgarinnar tjúll

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

*Prolla er kvenkyns meðlimur próletaríatsins, þeirra sem hafa ekkert nema sig sjálf til að selja aðgang að. Við erum konurnar með stoðkerfisvandamálin.

1. Ósýnileiki

Einu sinni, fyrir ekkert svo löngu, voru konur sem tilheyrðu verkalýðsstétt áberandi og jafnvel í framvarðarsveit baráttunnar fyrir réttlátum heimi. Þangað höfðu þær troðið sér af dæmalausu og æðisgengnu hugrekki, þrátt fyrir að verða fyrir stöðugum og margþættum níðingshætti. Þær sögðu launaþrældómi þeim sem þær höfðu öldum saman verið neyddar til að lifa við stríð á hendur, tóku að sér að fræða kynsystur sínar, sem og karla, um samþætt eðli kúgunar kapítalismans og feðraveldisins á fátækum konum, börðust fyrir réttindum barna, gegn blóðugum stríðsátökum þar sem karlmönnum af verkalýðsstétt var fórnað fyrir hagsmuni valdastéttanna, og svo mætti lengi telja. Innblásnar af draumum um nýja og betri veröld ætluðu þær sér ekkert minna en samfélagslegan sigur; þær ætluðu sér að kremja arðránskerfið og verða frjálsar manneskjur.

En nú er svo komið, eftir algjört skipsbrot róttækrar verkalýðsbaráttu og nær allt um lykjandi yfirráð nýfrjálshyggjunnar á öllum sviðum mannlegs lífs að konur sem tilheyra verkalýðnum, prollurnar, eru því sem næst alveg horfnar af sjónarsviðinu, þrátt fyrir að vera kerfinu öllu lífsnauðsynlegar. Engir sjást nema karlarnir við stýrið á verkalýðsgaleiðunni, karlarnir sem fá næstum jafn mikið útborgað og kapítalistarnir, enda hallir undir mikla sátt við markaðinn. Við, blönku og fátæku konurnar erum ekki í neinum framvarðarsveitum, ósýnilegar í verkalýðsbaráttunni og jafn ósýnilegar í hinni femínisku meginstraumsbaráttu. Lífskjör okkar hafa í raun versnað; þar sem launakjör okkar eru svo slök að ekki er hægt að lifa af þeim þurfum við oftar en ekki að vera í fleiri en einni vinnu til að eiga fyrir brauði og bleium. Við erum öllum gleymdar, við erum ósýnilegar, pikkfastar í samkrulli feðraveldisins, auðvaldsins og sveitarfélaganna, en þau hafa tekið að sér hlutverk aumingjans úr gamalli og ljótri sögu; selja aðgang að konum svo að hjól atvinnulífsins geti haldið áfram að snúast.

Það að við, svo mikilvægar, séum ósýnilegar, gerir hjörtu okkar að krepptum tjúll-hnefum.

2. Laun

Prollur í vinnu hjá borginni eru oftast mest af öllu tjúll yfir launakjörum sínum. Það er alveg sérstök og ærandi tilfinning sem vaknar við og við; tilfinning sem aðeins þau sem strita til að hafa í sig og á þekkja, tilfinning sem dýpkar og þroskast eftir því sem árin líða og vitneskjan um fáránlega stöðu í arðránskerfinu verður ekki lengur umflúin, tilfinning sem vaknar oftar og oftar eftir því sem krísutilhneiging kapítalismans eykst og hann kemst ekki hjá því að opinbera viðbjóðslegt eðli sitt með sífellt æðisgengnari hætti, tilfinningin sem vaknar þegar fullorðin kona fær af því fréttir á hverjum degi að sumir fá pening fyrir ekkert nema það að eiga pening og hún fái ekkert fyrir heila ævi fulla af erfiðisvinnu nema ónýtan skrokk.

Óréttlæti reykvísks samfélags, einhverskonar tragíkómedía með vísunum í verk Markgreifans de Sade, í uppfærslu okkar fremstu borgarastéttar, í senn hlægilegt og hrollvekjandi, gerir prollur alveg snar tjúll.

3. Að okkur sé vorkennt/að það þurfi að bjarga okkur

Fátt gerir okkur eins tjúll og löngun þeirra sem mega ekkert aumt sjá, þeirra lausnamiðuðu, í að -bjarga- okkur. Þarftu ekki bara að fá þér aðra vinnu? heyrast vinveittir oft segja. Svar okkar er Nei, það sem við þurfum eru mannsæmandi laun, virðing og kven- og barnvænt samfélag byggt á félagslegum og efnahagslegum jöfnuði! Ekkert meira og ekkert minna.

Við erum stoltar af því sem við gerum, stoltar af óumdeilanlegu mikilvægi okkar í samfélaginu, við satt best að segja elskum það sem við gerum. Við erum þátttakendur í systralagi kvennavinnustaðarins, við erum þátttakendur í lífi hvor annarrar. Við erum líka mikillar gæfu aðnjótandi því eins og öll sem eitthvað vita átta sig á eru á vinnustöðum verkalýðsins oftast stórkostlega fjölbreytt samsetning af fólki; á leikskólum borgarinnar vinna hlið við hlið konur frá Íslandi og Kúbu, Póllandi og Spáni, o.s.frv. Börnin sem við gætum og kennum eru einnig bókstaflega alls staðar að úr heiminum, hér er ekki pláss til að nefna alla þá stórmerkilegu mannlífsflóru sem vex og dafnar undir handleiðslu okkar.

Arðránssamfélagið hefur vissulega gleymt okkur, en við erum sannarlega í framvarðarsveit móttökunefndar alþýðunnar, hjá okkur eru öll börn og fjölskyldur velkomin, til okkar getur aðflutt fólk, foreldrar barnanna sem við gætum, leitað með allskyns mál og við gerum okkar besta til að aðstoða þau við að komast af í þessu brútal kerfi sem íslenskt samfélag er. Sá ómetanlegi mannauður sem býr til dæmis í konum af erlendum uppruna sem starfa á leikskólunum, konum sem gefa af fádæma gjafmildi tíma sinn í að útskýra, túlka o.s.frv., tja, það er mannauður sem þau sem aðhyllast kapítalíska hugmyndafræði fíflsins um að fólk geri ekkert nema fyrir fé og af eigingjörnum sökum, fá aldrei skilið.

Plís, ekki vorkenna prollu, viðurkenndu mikilvægi hennar og sýndu svo samstöðu!

4. Brauðmolafemínismi

Hagsmunir allra kvenna eru ekki allir þeir sömu. Hverjir hagsmunir konu eru fer ekki síst eftir því hver stéttarstaða hennar er. Þetta ætti auðvitað að vera augljóst öllum en nútíminn er guð hræsninnar og elskar ekkert meira en fólk sem lætur sem það sjái ekki brjálsemina í kringum það.

Eitt sinn var femínisminn, sá femínismi sem konur af minni kynslóð ólust upp við, ef þær voru svo heppnar að eiga aðstandendur með femíniska tendensa, partur af stórkostlega merkilegu frelsunarverkefni; frelsunarbarátta kvenna var samtengd baráttunni gegn rasisma, gegn heimsvaldastefnunni, baráttu samkynhneigðs fólks og baráttunni gegn ægivaldi kapítalismans. Í baráttunni gegn feðraveldinu sáu femínistar ekki aðeins fyrir sér möguleikann á frelsi konunnar til að ráða yfir eigin líkama og kynferðistjáningu heldur einnig möguleikann á því að afnema hið stéttskipta samfélag kúgaranna.

Nú er svo komið að femínisk barátta sem snýst um að bæta kjör kvenna í verkalýðsstétt er því sem næst alveg horfin af sjónarsviðinu. Sem dæmi um hversu fjarlæg slík barátta er öllum, líka leiðtogum íslenskra vinstristjórnmála, má nefna að borgarstjóra og öðrum úr efsta lagi valdapýramída borgarkerfisins verður tíðrætt um femíniska forystu borgarinnar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi en líta af bláköldu tómlæti kapítalistanna fram hjá því að kona sem tilheyrir neðsta lagi borgarinnar getur svo dæmi sé tekið varla sagt skilið við ofbeldisfullan maka. Hvert á sú kona að leita með sínar smánarlegu tekjur; hvar á hún að finna samastað á martraðarkenndum húsnæðismarkaði samtímans, hvernig á hún að borga af húsnæði og verða sér útum nauðsynjar þegar það hefur verið samþykkt af samfélaginu og femínistunum í borginni að hún fái að halda eftir tæplega 250.000 krónum á mánuði? Femínisk barátta sem lítur fram hjá grunnþætti efnahagslegrar misskiptingar í kvennakúgun og því að konur af verkalýðsstétt þurfa oft að sætta sig við óboðlegar aðstæður einfaldlega vegna stéttarstöðu er ekki femínisk barátta verkakonunnar.

Konur sem tilheyra efri stéttum samfélagsins njóta góðs af arðránskerfinu og stéttskiptu samfélagi, og eru oftar en ekki fullir þátttakendur í því að viðhalda þeirri kúgun sem nauðsynleg er til að hámarka gróða á kostnað lífskjara verkafólks. Ekki heyrist stakt orð frá konum úr efnahagslegum forréttindahópum um þá samfélagslegu hneisu að leikskólar borgarinnar séu reknir á kostnað lágstéttakvenna sem geta ekki lifað af tekjum sínum. En við, prollurnar, eigum að gleðjast yfir frama og launahækkunum kvenna sem eru fullir þátttakendur í samfélagslegri eyðileggingu nýfrjálshyggjunnar? Afsakið, en bara drullusokkar með siðblindutendens geta látið eins og það sé eðlilegt!

Svo við vitnum í Klöru okkar Zetkin: Konur af verkalýðsstétt heyja stéttabaráttu og konur af borgarastétt standa hinumegin víglínunnar.

Þess vegna höfnum við brauðmolakenningu femínismans, höfnum henni af tjúllaðri bræði.

5. 400þúsundkallinn!

42 ára prolla í vinnu hjá Reykjavíkurborg fær u. þ.b. 320-330 þúsund krónur í laun. Af því sér hún sirka 240-260 þúsund kall. Þegar prollan les svo frétt um það að borgin hafi haldið partý fyrir 400 þúsund krónur, með blómum, brauði og brennivíni, af því einhvern fansí manneskja var að skipta um starfsvettvang tjúllast hún. Fyrir því eru fyrst og fremst tvær ástæður:

Sú fyrri er að borgin gefur leikskólaprollunum ekki einu sinni konfekt á jólunum, ekki einn skitin konfektkassa til að samnýta á kaffistofunni. Ekkert nema fjárans jólakortið frá borgarstjóra, sem er næstum meira ergjandi en vikulegur pósturinn um hvað allt er frábært í þessari frábærustu borg allra borga með Birtíng B. Altúnguson við stjórnvölinn. Jiminn, hvað við getum tjúllast svona rétt fyrir jólin og alla hina dagana líka. Fyrir prollu geta allir dagar verið tjúlldagar.

Síðari ástæðan er svo sjálfur fjögurhundruðþúsundkallinn! Þessi hrúga af peningum!

Ó, hvað prollan gæti gert við svona mikinn pening! Þvílíkt æðisgengið hóglífi, þvílíkur metnaðarfullur lúxus! Að þau skuli bara henda svona smáauðæfum útum gluggann kremur satt best að segja hjörtu kvenna í verkalýðsstétt. Og öll vita að blönk kona með kramið hjarta er tjúll kona.

Starfsemi leikskólanna í borginni byggir á aldagömlu vestrænu módeli þar sem konur úr verkalýðsstétt eru nýttar til að vinna erfið störf og uppskera lítið sem ekkert fyrir erfiðið. Þær eru vinnuafl á niðursettu verði. Og ef það er eitthvað sem arðrænt vinnuafl þekkir þá er það virði peningana — peninganna sem við eigum aldrei neitt af; við sem njótum með engum hætti alls þess gróða sem verður til í sturluðu samfélagi kapítalismans kunnum sannarlega að móðgast ægilega yfir illa meðförnu fé.

Fátt hefur fengið prolluhjörtu mannkynssögunnar til að slá hraðar en veislur yfirstéttarinnar. Það er gamall sannleikur og nýr sem öll ættu að hugleiða.

Sólveig Anna Jónsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram