Þrælar út um allt

Katrín Baldursdóttir Frétt

Þrælahald var bannað í heiminum fyrir meira en 150 árum en samt finnast þeir um allan heim. Líka á Íslandi. Hlutfall þræla er hátt á Íslandi miðað við löndin sem við berum okkur saman við og hærra en það er t.d. í Brasilíu, Bandaríkjunum og flestum löndum Vestur-Evrópu. Þetta er auðvitað skandall. Áætlað er að hátt í 50 milljónir manna séu bundnir í þrældóm í heiminum. Þrælum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Á Íslandi er líklegt að þeir séu um 400 samkvæmt því er fram kemur í nýrri alþjóðlegri rannsókn sem unnin var af Gallup á heimsvísu. Fjögur hundruð er há tala í svona litlu landi. Þrælar á Íslandi geta verið hvar sem er á landinu.

Hvernig eru þrælarnir?

Þrælar samtímans eru kallaðir Nútímaþrælar. Þetta eru bæði konur, karlar og börn. Ótrúlega mörg börn eru Nútímaþrælar. En hvað er Nútímaþræll?

• Hann getur verið bundinn í þrældóm vegna skulda sem hann á ekki fyrir. Þannig bindur atvinnurekandinn hann í þrældóm, lætur hann vinna án kaups, án allra réttinda og án möguleika á að geta farið annað. Algengt er að þessir þrælar geti ekki greitt upp skuldina og þannig getur þrældómurinn erfst til barna þrælsins.

• Hann getur verið neyddur með ofbeldi eða þvingunum til að vinna og oft án þess að fá laun. Þessi nútímaþræll er oftar en ekki innflytjandi eða flóttamaður sem er fastur í framandi landi, án allra pappíra og getur því ekkert farið.

• Hann getur fæðst inn í þrældóm. Fjölskyldan tilheyrir þá stétt þræla. Staðan Nútímaþræll erfist oftast frá móður til barns.

• Hann getur verið barn sem er neytt til að vinna myrkranna á milli t.d. verksmiðjuvinnu eða við landbúnaðarstörf annaðhvort í sínu heimalandi eða flutt eða selt til annarra landa í þrælavinnu. Þá eru börnin líka notuð og seld sem kynferðisþrælar. Þau eru líka þvinguð í hernað og eru hernaðarþrælar.

• Hann getur líka verið mansalsþræll. Þá er hann fluttur í þrældóm frá einu svæði til annars.

• Hann getur verið kona sem þvinguð er til hjónabands oft mjög ung. Og það getur verið kona sem notuð er sem kynlífsþræll alveg frá unga aldri. Áætlað er að um 22 prósent Nútímaþræla séu kynlífsþrælar af báðum kynjum, konur þó í meirihluta.

Nútímaþrællinn ódýrari en nokkru sinni

Alþjóða vinnumálastofnunin ILO áætlar að 90 prósent þeirra sem halda þræla séu fyrirtæki eða einstaklingar. Þetta eru fyrirtæki og einstaklingar á einkamarkaði. Þessi fyrirtæki og einstaklingar græða gríðarlegar fjárhæðir á þrælum sínum, peningar sem engir skattar eða gjöld eru greidd af. Þetta er allt ólöglegur hagnaður. Tölurnar eru svívirðilega háar. Samkvæmt tölum frá Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga, ITUC (International Trade Union Confederation), eru fyrirtæki og einstaklingar í einkageiranum að græða um 150 milljarða dollara á ári af þrælahaldi. Þetta eru ekki nýjar tölur þannig að gróðinn í dag er meiri og alveg gígantískur. Þá er einnig til þess að líta að Nútímaþrællinn hefur aldrei verið eins ódýr eins og hann er í dag og ódýrari en hann var hér á öldum áður samkvæmt því sem fram kemur í gögnum samtakanna Free the slaves.

Nútímaþrællinn er afurð kapítalismans, hins óhefta kapítalisma sem sýgur til sín meira og meira af auði heimsins. Það er engin tilviljun að 90 prósent þeirra sem halda þræla eru fyrirtækjaeigendur og einstaklingar á einkamarkaði. Auðmenn og atvinnurekendur vilja meira og meira, græða meira og meira, vilja meiri og meiri hagnað og bónusa. Þetta er eðli kapítalismans, að framleiða meira og meira til að viðhalda sér og hagnast meira og meira. Þetta er botnlaus hít. Það eru öll ráð notuð. Meira segja þrælahald. Og þrælunum fjölgar.

Ótti við augljósa svarið

Það sér hver maður að það er löngu kominn tími til að stoppa þetta af. Ýmsar alþjóðastofnanir hafa gert margar rannsóknir og bent á að eitthvað þurfi að gera til að koma í veg fyrir þrælahald. Alþjóðasamband verkalýðsfélaga ITUC gaf meira segja út handbók um aðferðir til að útrýma þrælahaldi. En engin virðist þora að benda á augljósa svarið. Það þarf að afnema þetta þjóðskipulag sem framleiðir þræla. Í núverandi þjóðskipulagi heldur þrælahaldið áfram að vaxa og dafna. Það er ekki hægt að skipa kapítalista að hætta að græða ef formgerð þjóðfélagsins skapar honum tækifæri til þess. Nei, við þurfum sósíalisma til að breyta þessu. Sósíalisma sem hvetur til dáða og framtaks á vinnumarkaði en skapar ekki þræla. Sósíalisma sem ber virðingu fyrir öllum mönnum og skapar þjóðfélag svo allir fái að njóta sín. Sósíalisma þar sem allir njóta ávaxtanna af sameiginlegum auðlindum. Sósíalisma sem hvetur til samvinnu um gott samfélag fyrir alla.

Þrælahald á Íslandi er vaxandi áhyggjuefni ýmissa aðila á Íslandi. Auk þess sem fyrrgreind skýrsla Gallup segir um fjölda þræla hér á landi þá segir hún líka að íslensk stjórnvöld standi sig ver við að sporna gegn þrælahaldi en þjóðirnar sem við berum okkur saman við. Starfsgreinasamband Íslands, ásamt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg ætla að láta málið til sín taka og standa í haust fyrir ráðstefnunni Þrælahald nútímans. Fjöldi sérfræðinga á sviði löggæslu, saksóknar og verndar fórnarlamba koma erlendis frá og miðla af reynslu sinni. Þá mun Robert Crepinko frá Europol fjalla sérstaklega um skipulagða glæpastarfsemi varðandi mansal í Evrópu.

Katrín Baldursdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram