Þú ert rekinn

Katrín Baldursdóttir Pistill

Topptískan hjá atvinnurekendum í dag er að hafa lögfræðing viðstaddan uppsagnarviðtal. Svona eins og fólk hafi framið glæp. Það er líka í tísku að krefjast þess að fólk yfirgefi vinnustaðinn strax og mæti ekki í vinnu daginn eftir. Stundum er hraðinn á þessu svo mikil að fólk hefur vart tíma til að taka dótið sitt og fara yfir gögnin í tölvunni. Þá er það til að fólk fari út í fylgd svo það steli nú örugglega engu frá fyrirtækinu.

Það er auðvitað þyngra en tárum taki að svona sé farið með starfsfólk. Starfsfólk sem oftar en ekki hefur lagt sig fram um að vinna vel, mæta á réttum tíma, sýna alúð og áhuga. Jafnvel áratugum saman. Svo einn daginn þegar starfsmaður mætir til vinnu sinnar þá er hann kallaður á fund hjá yfirmanninum. Oft hefur starfsmaðurinn ekki grænan grun um raunverulegt erindi fundarins. Það hvarflar ekki að honum að það eigi að segja honum upp. En svo fer hann inn á skrifstofu yfirmannsins og hann fær í hendur uppsagnarbréf. Kannski er fleiri en einn yfirmaður viðstaddur og kannski lögfræðingur eins og áður segir. Oftast eru þetta gríðarlegar hamfarir fyrir starfsmanninn sem telur sig hafa unnið störf sín vel og verið atvinnurekandanum trúr.

Yfirmaður í vondu skapi

En hvað getur starfsmaðurinn gert? Hver er réttur hans í þessari stöðu? Svarið er einfalt: ENGINN! Eini réttur hans er 3ja mánaða uppsagnarfrestur eða lengri hafi verðið samið um það sérstaklega. Slíkir samningar eru hins vegar ekki algengir nema kannski hjá yfirmönnum og þeim sem eru í betur launuðum störfum. Opinberir starfsmenn hafa rétt á áminningarviðtali áður en þeim er sagt upp og þeim gefið tækifæri á að bæta sig áður en til uppsagnar kemur. Hitt er þó algengt að opinberar stofnanir beri fyrir sig skipulagsbreytingar svo ekki þurfi að áminna starfsmann. Starfsmaðurinn hefur þá ekki gert nokkuð skapaðan hlut af sér en er rekinn engu að síður og þá í nafni skipulagsbreytinga.

Atvinnurekendur þurfa ekki að hafa neinar haldgóðar ástæður til að reka fólk. Það getur alveg dugað að yfirmanni líki ekki við karakter starfsmannsins, að starfsmaðurinn tali of lítið eða of mikið, klæði sig ekki að smekk yfirmannsins, sé of áhugasamur og þá þannig að yfirmanninum finnist starfsmaðurinn skyggja á sig og ógni stöðu sinni. Eða að yfirmaðurinn sé í vondu skapi eða líði ekki vel og kenni starfsmanninum um það. Jafnvel starfsmanni sem starfað hefur hjá viðkomandi fyrirtæki eða stofnun um árabil og lagt alúð sína í starfið. Auðvitað geta verið góðar og gildar ástæður fyrir uppsögn en það er mjög alvarlegt að atvinnurekendur geti rekið fólk nánast eftir því hvaða skapi þeir eru í þann daginn. Að vísu á starfsfólk rétt á að fá skriflega og málefnalega skýringu á uppsögninni ef það æskir þess en það breytir engu um útkomuna þegar upp er staðið. Vinnan er glötuð.

Réttlaus og niðurbrotin

Að missa vinnuna er gríðarlegt áfall fyrir flesta. Oft kemur fólk hágrátandi á skrifstofur stéttarfélaganna og biður um aðstoð. Stéttarfélögin geta ekkert gert nema að kanna þetta með uppsagnarfrestinn og hvort uppsögnin sé lögleg. Þarna eru stéttarfélögin alveg máttlaus. Verkalýðshreyfingin hefur ekki samið við atvinnurekendur nema um þennan þriggja mánaða uppsagnarfrest og 4 til 6 mánuði ef starfsmaður er yfir 55 og með 10 ára starfsreynslu. Meira er það ekki og minna ef starfsmaðurinn hefur starfað skemur en 3 mánuði en þá er uppsagnarfresturinn 1 mánuður. Og eftir situr starfsmaðurinn alveg réttlaus og niðurbrotinn. Það er í raun alveg furðulegt og til skammar að verkalýðshreyfingin hafi ekki barist fyrir sterkari stöðu launafólks þegar kemur að uppsögnum.

Afleiðingar uppsagnar geta kostað bæði andleg og líkamleg veikindi. Og jafnvel örorku. Það hafa dæmin sýnt. Fólk finnur fyrir mikilli skömm og sjálfsmyndin bíður hnekki. Menn upplifa sig sem tapara. Fjárhagur viðkomandi getur farið í rúst og enginn peningur til framfærslu. Þetta hefur síðan áhrif á fjölskylduna. Börnin líða fyrir þetta. Stundum bíður ekkert nema fátækt. Sem betur fer fá margir vinnu á nýjan leik. Hins vegar getur það reynst erfitt. Ísland er lítið land og það fréttist ef starfsmaður hefur verið rekinn. Kannski hefur hann ekki fengið meðmæli og á þá erfitt uppdráttar á vinnumarkaði. Þá getur líka verið erfitt að fá vinnu í sama fagi. Einnig ef fólk er komið yfir 50 ára aldurinn. Þá minnka atvinnumöguleikar verulega, sérstaklega hjá konum.

Glymur hæst í tómri tunnu

Allt þetta sýnir glögglega yfirburðastöðu atvinnurekenda á vinnumarkaði. Hagsmunir launafólks og atvinnurekenda fara ekki saman. Eins og hér hefur glögglega komið fram eru atvinnurekendur forréttindastétt sem getur hent starfsfólki út af vinnustað eftir geðþótta. Launþegastéttin hefur engan rétt. Sumum varpað út eins og þeir hafi framið glæp. Sósíalistaflokkur Íslands er stofnaður til þess að berjast gegn þessu óréttlæti. Berjast fyrir því að allir hafi sama rétt. Okkur er talið trú um að það sé ekki hægt. Það er hrópað úr glæsihöllum stórkapítalistanna með ofurlaunin að slíkt séu bara draumórar og vitleysa. En við sósíalistar segjum nei við því. Þessi hróp auðjöfra úr glæsihöllum eiga smá saman eftir að fjara út. Fleiri og fleiri eru að átta sig á því að það glymur hæst í tómri tunnu.

Katrín Baldursdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram