Maskína þessi kálar fasistum

Símon Vestarr Pistill

„This machine kills fascists.“ Slagorð sem allir unnendur bandarískrar þjóðlagatónlistar þekkja. Woody Guthrie var með það á gítarnum sínum, en það var vísun í sósíalista í spænsku borgarastyrjöldinni sem máluðu á vopn sín orðin “esta máquina mata fascistas” í baráttu sinni gegn Hitlersvininum Franco á fjórða áratugnum. Verandi áhrifagjarn með eindæmum útbjó ég spjöld með þessum orðum og festi þau á gítarinn minn fyrir fáeinum árum. Fólk er auðvitað misvirkt í pólitík og enginn hefur nokkurn tíma skipt um skoðun í þeim efnum fyrir tilstilli límmiða en ég hikaði aldrei við að flíka þessum orðum og áheyrendur hafa alls staðar brugðist vel við þeim (sérstaklega í Berlín).

Kraftur slagorðsins felst ekki í neinni ofbeldisdýrkun heldur í einfaldleika þess. Málamiðlunarleysinu. Skilaboðin hitta mann beint í magann af því að þau eru í sama eldrauða lit og tilfinningin sem maður fær þegar einhver áskilur sér rétt til þess að ríghalda í forréttindastöðu í krafti þjóðernis og/eða kynþáttar. Þeir sem það gera eru rasistar. Það hljómar eins og augljós sannindi en ég ætla að endurtaka mig: þeir eru rasistar. Það sem rasistar gera nú til dags er að fela sig bak við ófyndinn húmor og tákn og teiknimyndir. Þetta fær suma til að halda að um sé að ræða meinlausar sófakartöflur en eins og fram kom í Charlottesville um helgina (og hefur raunar komið mikið oftar fram) þá er endastöð hugmyndafræði þessa fólks ofbeldi og drottnun yfir öðrum.

Rasisti ekur bíl sínum á friðsama mótmælendur og þrír aðrir umkringja mótmælanda á leiðinni heim og lemja hann með stöngum. Og hvað segir forseti Bandaríkjanna? Einhver útgáfa af: sjaldan veldur einn þá tveir deila. Maðurinn, sem Óla Birni Kárasyni var svona mikið í mun að verja fyrir ásökunum um að vera fasisti, ber nú blak af kyndilberandi klansmönnum sem veifa hakakrossum og Suðurríkjafánum og ganga í skrokk á saklausu fólki. Fordæmir hvítliðasamtökin ekki fyrr en tveimur dögum seinna. Má kalla hann fasista núna, Óli? Eða þurfa enn þá fleiri að deyja?

Ég geri aukinheldur kröfu um það, eins og allir Íslendingar með einhverja sómatilfinningu, að stjórnmálamenn okkar tali hreint út um þessi mál. Og ég skora á alla samlanda mína að hafna hiklaust öllum frambjóðendum og flokksforingjum sem leika einhverja leiki í þessu samhengi (dæmi: „Ég er kannski svona Marine LePen / Ég sagðist aldrei vera eins og Marine LePen“). Ég er búinn með þolinmæðina gagnvart öllum þeim sem ganga um með brennandi þrá eftir kynþáttaaðskilnaði í hjartanu. Hættið þessum aumingjaskap og kallið hugmyndir ykkar réttu nafni.

Þið eruð rasistar.

Eða fasistar.

Eða nasistar.

Woody Guthrie hafði rétt fyrir sér. Gítar getur verið maskína sem drepur fasista; þ.e.a.s. á sviði hugarfars. Michel Foucault skrifaði eitt sinn að allir þyrftu að vera á varðbergi gagvart fasistanum í hausnum á sér „sem lætur okkur elska valdbeitingu og þrá það sem drottnar yfir okkur og misnotar okkur.“ Lítum inn á við og í kringum okkur og parkerum meðvirkninni gagnvart kynþáttahöturum. Hættum að tipla í kringum þetta umræðuefni eins og köttur í kringum heitan grautinn. Það er löngu kominn tími til að setja þessu hyski stólinn fyrir dyrnar.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram