Nú ræðum við um lýðræði og heilbrigðismál

Tilkynning Frétt

Málefnahópar sósíalista boða til opins samtals um veigamikil mál næstu tvær helgar. Samtölin fara fram í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, og hefjast klukkan tíu að morgni, laugardag og sunnudag.

Laugardaginn 26. ágúst verður rætt um lýðræði. Hvernig stendur á því að lang stærsti hluti kjósanda vill afgerandi breytingar á úthlutun kvóta en fær ekki? Hvernig stendur á því að að afgerandi meirihluti kjósenda vill ekki einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og stóreflingu opinberrar þjónustu en fær ekki? Hvers vegna upplifir fólk að það hafi engin áhrif innan síns verkalýðsfélags? Hvernig má tryggja að lýðræðistólin þjóni almenningi en ekki fjármagnsöflunum? Hvernig getur almenningur varist ægivaldi fyrirtækjaeigenda og áróðursstofnanna þeirra?

Þessum og mörgum fleiri spurningum verður varpað fram. Meðal þeirra sérfræðinga sem taka þátt í samtalinu og leggja til þess athuganir sínar eru Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Indriði H. Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóri, Kristinn Már Ársælsson lýðræðisfræðingur, Gísli Tryggvason, fyrrum talsmaður neytenda, Jón Gunnar Bernburg, sem rannsakað hefur jöfnuð á Íslandi, Daði Ingólsson frá Stjórnarskrárfélaginu og margir fleiri. Fundagestir munu deila reynslu sinni af ýmsum kerfum, hvernig almenningi gengur að hafa áhrif á það samfélag sem hann lifir í.

Á sunnudaginn 27. ágúst verður samtal um heilbrigðismál. Skilar einkavæðing betri þjónustu eða lægra verði? Hvað afl er það sem drífur áfram stefnubreytingu í heilbrigðiskerfinu sem gengur þvert á vilja almennings? Hafa sjúklingar nógu mikil völd innan kerfisins? Hverju skilaði algjör einkavæðing lyfjaframleiðslu, dreifingu og –sölu; öðru en miklum arðgreiðslum til eigenda fjögurra, fimm stórfyrirtækja?

Þessum spurningum verður varpað fram og mörgum fleiri. Meðal þeirra sem leggja til umræðunnar er María Heimisdóttir, læknir og framkvæmdastjóri á Landspítalanum, Sigrún Ólafsdóttir, sem kannað hefur hug almennings til heilbrigðiskerfisins, Elín Ebba Ásmundsdóttir í Hlutverkasetri, Björn Logi Þórarinsson og Gunnar Skúli Ármannsson læknar og Elín Laxdal, læknir og hjúkrunarfræðingur. Aðrir fundagestir munu deila reynslu sinni af heilbrigðiskerfinu, jafnt sjúklingar sem starfsfólk.

Samtölin hefjast klukkan tíu um morguninn og standa fram yfir hádegið. Í hádeginu verður boðið upp á súpu og brauð gegn vægu gjaldi. Allir sósíalistar og annað áhugafólk um samfélagsmál, aukið lýðræði og bætt heilbrigðiskerfi eru hvatt til að mæta og leggja til umræðunnar. Þessi samtöl eru hluti af málefnavinnu Sósíalistaflokksins og liður í að byggja upp stefnu sem leiða mun til róttækra breytinga á samfélaginu.

Um næstu helgi 2. og 3. September verður efnt til samtals um húsnæðismál og málefni sameiginlegra sjóða á sama stað og sama tíma. Nánar um það síðar.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram