Skaðlegt hugmyndakerfi

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Ísland er óvenju illa farið eftir áratugi nýfrjálshyggjunnar sem svo er kölluð, safnhaugs samfélagshugmynda sem eru lauslega byggðar á hagfræði en þó mest á trúarsetningum um hvernig samfélagið muni blómstra ef hinn sterki er leiddur til öndvegis. Þessi hugmyndastefna hafði mikil áhrif víða um heim, gróf undan opinberri þjónustu og skipulagðri stéttabaráttu lágstéttanna en hafði óvíða jafn slæm áhrif og hér.

Sem kunnugt er bólgnaði íslenska fjármálakerfið meira út en önnur, uppblásið af stjórnvöldum sem blinduð voru af kenningum nýfrjálshyggjunnar. Og þegar íslenska bólan sprakk heyrðist hvellurinn víða. Aldrei höfðu jafn fáir bankamenn valdið jafn miklum skaða á jafn litlum tíma. Og aldrei höfðu nokkur stjórnvöld sofið jafn rækilega á verðinum. Sem kunnugt er benti fjármálaráðherrann íslenski á hættumerkin og taldi þau sérstök heilbrigðismerki: Sjáið veisluna, hrópaði hann.

En merki nýfrjálshyggjunnar má ekki aðeins sjá í stóru bólu og Hruninu. Á meðan félagslegi hluti húsnæðiskerfa margra landa lét á sjá undan trúboði nýfrjálshyggjunnar þá var lunginn úr því íslenska seldur hæstbjóðanda. Eigendum verkamannabústaða var heimilt að selja íbúðir sínar út úr kerfinu. Og engar nýjar voru setta inn í staðinn. Kerfinu, sem kynslóðirnar höfðu barist fyrir og byggt upp frá kreppunni miklu, var eytt á einni nóttu. Hvers vegna? Kenningin var að það væri náttúrlega gott að brjóta niður félagsleg kerfi og færa undir heilagan markaðinn.

Önnur merki eyðileggingarinnar eru nú að koma í ljós í heilbrigðiskerfinu. Þar hefur ríkt faglegt stefnuleysi. Kerfið hefur ekki verið aðlagað að þörfum sjúklinga heldur að hugmyndum nýfrjálshyggjunnar um óumræðilega kosti einkareksturs umfram opinberan rekstur. Fjárframlög hafa verið aukin til þeirra hluta heilbrigðiskerfisins þar sem einkarekstur hefur skotið rótum en þeim hluta sem enn er í opinberum rekstri er haldið í spennitreyju.

Hvers vegna? Það má Guð vita. Líklega er hvatinn sambland af einsýni og botnlausri sannfæringu sem oft fylgir þröngu sjónarhorni.

Ekki góð í opinberum rekstri en þó skárri en í einkarekstri

Það er erfitt að sannfæra Íslending um að einkarekstur sé náttúrlega betri en opinber rekstur. Við áttum vonda ríkisbanka áratugum saman og svo baneitraða einkabanka í örfá ár. Af tvennu illu voru ríkisbankarnir líklega skömminni skárri. Það er sárt að viðurkenna það fyrir þau okkar sem munum þjónustuna sem þeir veittu að líklega getum við bara ekki gert betur. Alla vega sýnir reynslan það ekki.

Það er heldur ekki hægt að færa rök fyrir einkarekstri með því að skoða úttektir á samkeppnisstöðu íslensks þjóðfélags. World Economic Forum gerir slíkar úttektir sem njóta virðingar. Ísland kemur svona lala út úr samanburði við aðrar þjóðir. Við stöndum næstu nágrannalöndum nokkuð að baki en erum samt númer 26 í röðinni. Það gæti verið verra.

Þegar einstakir þættir eru skoðaðir kemur í ljós að landið, þjóðin og fámennt og öruggt samfélagið hífir okkur upp. Ýmsar félagslegar stoðir eru á pari við nágrannalöndin; skólarnir, heilbrigðiskerfið, hafnir og ýmsir innviðir. En þegar kemur að fyrirtækjum, trausti í viðskiptum, stjórnunarháttum, endurskoðun, fjármálagjörningum og slíku þá erum við órafjarri okkar nágrönnum og erum í tossabekk ásamt vanþroska ríkjum AusturEvrópu og Afríku; ríkjum sem eiga sér stutta sögu lýðræðis.

Við erum kannski öngvir heimsmeistarar í opinberum rekstri en við eigum þó þar margt gott. Hitaveita Reykjavíkur er til dæmis ágætt dæmi; allt frá því hún var stofnuð og fram að þeim tíma að það komst í tísku að reka opinberar stofnanir eins og væru þær einkafyrirtæki. Þá snerist allt fljótt til verri vegar hjá Hitaveitunni.

Sjúkratrygginum falið að markaðsvæða heilbrigðiskerfið

Því miður er fátt sem bendir til þess að von sé á stefnubreytingu stjórnvalda. Samkvæmt heilbrigðisáætlun til 2020 er ráðgert að auka enn völd og áhrif Sjúkratrygginga Íslands. Kerfið á að byggja upp í líkingu almenns markaðar. Sjúkratryggingar taka að sér að vera kaupandinn og fagfólkið á að leika seljanda. Það er eins og stjórnvöld telji að önnur samskipti en markaðstorgið leiði til spillingar og rangrar niðurstöðu.

Það má vel vera að stærri þjóðir þurfi að byggja upp svona markaðskerfi. Í Svíþjóð eru sjúkratryggingar sem gera samninga við sjálfstætt starfandi lækna og einkastofur. Svíar eru hins vegar þrjátíu sinnum fleiri en við. Sjúkratryggingar þeirra hafa bolmagn til að veita sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækjum bæði faglegt og fjárhagslegt aðhald. Sjúkratryggingar okkar eru hins vegar lítið annað en leiktjöld. Á bak við þær þenst kerfi einkarekstrar út án eftirlits eða aðhalds.

Gunnar Smári
– áður birt í Fréttatímanum

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram