Að kveikja í eldhúsgardínunum

Símon Vestarr Pistill

Ég er með róttæka tillögu: Hvernig væri að Íslendingar legðust á eitt um að þjálfa sig í að halda tveimur hugmyndum í höfðinu á sér í einu? Reyndar eru sumir samlandar okkar vel færir um þetta. Jafnvel margir. En það er ekki nóg. Allir þurfa að kunna að hugsa tvennt í einu. Alla vega þeir sem ætlast til þess að eitthvert mark sé á þeim tekið í umræðunni um samfélagsleg málefni.

Hvað á ég við? Hvers er ég að krefjast? Ég get útskýrt það best með dæmi: Inga – nei, köllum hana Ásu. Ása sér tvennt eiga sér stað:

a) Hið opinbera sér efnalitlum Íslendingum ekki fyrir húsnæði.
b) Hið opinbera skaffar hælisleitendum þak yfir höfuðið.

Ása gerir sér ljóst að eitthvað rangt sé þar á ferðinni en hana skortir færnina til að halda tveimur hugmyndum í höfðinu í einu. Því bögglar hún þessum staðreyndum saman í eitt. Þar af leiðir að vegna þess að a) er rangt hlýtur b) að vera það líka. Í stað þess að fordæma sinnuleysi hins opinbera gagnvart Íslendingum með lítið milli handanna og krefjast þess að téðir Íslendingar fái að minnsta kosti sömu aðstoð og hælisleitendur vill hún að þjónusta við hælisleitendur verði skert svo að hægt verði að koma til móts við Íslendinga.

Þetta er fullkomlega rökrétt í höfði manneskju sem kann bara að hugsa eina hugsun í einu. Svipað og að kveikja í eldhúsgardínunum af því að það er svo vond lykt inni á klósetti. Fátt er svo með öllu illt að ekki megi bæta úr með einhverju foráttuheimskulegu. Þess ber að geta að Inga, ég meina Ása, er uppspuni frá rótum og að hvaða líkindi sem kunna að vera með henni og íslenskum ömmum, lífs eða liðnum, nasískum eður ónasískum, er helber tilviljun.

Já, framkoma ríkis og sveitarfélaga gagnvart þeim sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu er til háborinnar skammar. Allir Íslendingar með nokkra sómatilfinningu eiga hiklaust að krefjast þess að betur verði að gert. Sá sem fær trumbuslátt í hjartað við að heyra manneskju á Útvarpi Sögu gangast við þessu á sér bandamann í mér. Samviskan býður okkur að berjast fyrir því að allir á Íslandi njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda að hafa öruggt húsaskjól.

Og ég vil ganga enn lengra: Efnalitlir Íslendingar eiga að hafa gjaldfrjálsan aðgang að tannlækningum. Ása væri örugglega sammála mér ef hún væri til í alvöru og í viðtali við Útvarp Sögu. En ef hún kynni að halda tveimur hugmyndum í hausnum í einu þá myndi hún ekki stinga upp á því að þessu yrði komið í kring með því að ryðjast inn á tannlæknastofurnar og henda hælisleitendunum úr stólnum. Hún myndi standa með mér í að krefjast þess að hið opinbera borgi fyrir tannviðgerðir Íslendinga jafnt sem útlendinga.

Ef hún svarar með því að spyrja: „Hvaðan eiga peningarnir fyrir þessu að koma?“ þá er hún annað hvort fullkomlega fáfróð um þá tilfærslu auðs upp á við sem hefur átt sér stað á Íslandi síðustu ár eða þá að henni er alveg sama um fátæka samlanda sína. Vonandi myndi duga að kynna Ásu fyrir þeirri staðreynd að hægt sé að láta eignarstétt landsins leggja mikið meira til samneyslunnar en verið hefur.

Dugi þau augljósu sannindi ekki til þá er Ása ekki málsvari lítilmagnans. Þá er henni ekki annt um að láglaunafólk og lífeyrisþegar á Íslandi fái aðstoð. Þá er henni bara annt um að útlendingar fái ekki aðstoð. Ýmis orð eru notuð yfir fólk sem gerir greinarmun á manngildi fólks eftir uppruna. Orðið „rasisti“ er nærtækt en hægt er að hrista það af sér með þeim útúrsnúningi að ekki sé verið að hygla tilteknum kynþætti. Orðið „útlendingahatari“ er álíka viðeigandi en hægt er að svara því til að maður hati ekki beinlínis fólk þótt maður vilji ekki standa undir því að skaffa því lífsviðurværi.

Sé maður hins vegar farinn að dansa framhjá slíkum orðum eins og geit framhjá jarðsprengjum hlýtur maður þó að álykta sem svo að maður sé hvorki einlægur, heiðarlegur né hugsjónamanneskja. Bara gamaldags einangrunarsinni sem er algjörlega gagnslaus í baráttunni fyrir samfélagslegu réttlæti.

Símon Vestarr 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram