Sósíalíska bókahornið: L’Assommoir eftir Émile Zola
Pistill
14.09.2017
Í þessari pistlaröð er nauðsynlegt að nefna verk nokkurt eftir hinn mikla franska sósíalista, hugsjónamann og samfélagsgagnrýnanda Émile Zola. Ég velti því svolítið fram og tilbaka fyrir mér hvert af verkum hans ætti að verða fyrir valinu, því þar er auðvitað af nógu að taka. Zola var feykilega afkastamikill rithöfundur sem skrifaði, ásamt óteljandi blaðagreinum og öðru, tugi skáldsagna um samfélagsleg efni. Um helmingur skáldsagna hans eru hluti af skáldsagnaseríu og heildarverki – svipað og La Comédie Humaine eftir Balzac, sem hann var undir miklum áhrifum frá – sem hann nefndi Les Rougon-Macquart. Þessar sögur tengjast allar og segja sögu tveggja fjölskyldna á tímum seinna keisaraveldisins í Frakklandi (1852-1870).
Í dag er Zola helst minnst fyrir Dreyfus-málið, en það var stórt hneykslismál sem klauf franskt menningarlíf og pólitík í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Málið snerist um franskan herforingja sem var dæmdur fyrir njósnir og landráð þrátt fyrir lítil sem engin sönnunargögn gegn honum. En Dreyfus var gyðingur og var gyðingahatur ástæðan fyrir að hann var sendur í fangelsi þrátt fyrir að vera augljóslega saklaus. Zola háði harða og hugrakka baráttu fyrir hönd Dreyfus á síðum dagblaða Frakklands sem endaði með því að hann sjálfur var dreginn fyrir dóm og kærður fyrir meiðyrði. Eftir margra ára hamagang þar sem ýmislegt gekk á stóð Zola þó uppi sem sigurvegari þegar Dreyfus var veitt sakaruppgjöf árið 1906. Þessir atburðir eru aðalfókus kvikmyndar William Dieterle, The Life of Emile Zola frá 1937, sem óhætt er að mæla með.
Ég tel það þó vera mikla synd hversu lítið skáldsögur Zola eru lesnar í dag. Þær hafa ekki notið sömu viðurkenningar og verk annarra franskra nítjándu aldar rithöfunda eins og Balzac, Flaubert og jafnvel Stendhal. Hvað þá verk Hugo eða hins enska Dickens. Það er þó ekki vegna vankanta á verkunum sjálfum, en ég tel þau enn hafa enn mikið fram að færa eiga ekki síður skilið að vera lesin í dag en verk ýmissa annarra.
Zola er einn helsti fulltrúi bókmenntastefnu sem nefnist natúralismi (e. naturalism) og hann var raunar sá sem fann upp hugtakið. Sú stefna er náskyld raunsæi, munurinn er kannski helst sá að natúralistahöfundar líta á verk sín sem einskonar vísindarannsóknir sem byggja á nánum athugunum í þeim tilgangi að skýra lögmálin sem stýra mannlegu atferli. Þetta var einmitt markmið Zola með metnaðarfullu skáldsagnaseríu sinni. Hann rannsakaði og afhjúpaði fjölmörg félagsleg vandamál án þess að draga neitt undan – nokkuð sem olli oft hneyksli og deilum á sínum tíma.
Verkin Germinal (1885) og La Bête Humaine (1890), sem einnig eru hluti af seríunni, eru kannski betur þekkt en L’Assommoir. La Bête Humaine er að stórum hluta þekkt vegna magnaðrar kvikmyndaaðlögunar Jean Renoir frá 1938. En sú besta að mínu mati er þó verkið með óþýðanlega titilinn L’Assommoir – en það þýðir eitthvað sem rotar eða lamar og var algengt slanguryrði yfir drykkjubúllur í Frakklandi á seinni hluta nítjándu aldar.
L’Assommoir kom út 1877 og náði miklum vinsældum og olli þónokkrum deilum. Það átti stóran þátt í því að koma Zola á kortið sem ein af frægustu persónum Frakklands þess tíma, rödd sem tekið var eftir. Bókin segir frá Gervaise Macquart sem er nýorðin ein með tvo syni sína þegar við kynnumst henni í byrjun – maður hennar, Lantier, hefur hlaupist á brott með annarri konu. Hún kynnist þó fljótt öðrum manni, Coupeau, sem hún giftist. Með heppni og þrautseigju lætur hún draum sinn rætast og opnar þvottahús sem gengur vel í fyrstu. Smátt og smátt sígur þó á ógæfuhliðina, Coupeau slasast í vinnuslysi og sekkur dýpra og dýpra í alkóhólisma sem kostar Gervaise þvottahúsið og heltekur hana svo einnig – atburðarás sem endar með óbærilega sorglegum örlögum.
Verk Zola vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir hryllilegar lýsingar á alkóhólisma og tóku mörg samtök sem börðust fyrir bindindismennsku og áfengisbanni hana upp á sína arma af þeim sökum. L’Assommoir er þó gerður mikill óleikur með því að smætta það einungis niður í þá baráttu því verkið er töluvert flóknara. Ljóst er að Zola lítur á alkóhólisma sem einkenni á mun stærri vanda: kúgun og fátækt fyrst og fremst – eitthvað sem persónur hans þekkja einum of vel. Eru þær lýsingar og hugleiðingar mun eftirminnilegri og áhrifameiri en drykkjusenurnar í sjálfu sér. Verkið er þó laust við beinar siðferðispredikanir. Samfélagsgagnrýni Zola felst fyrst og fremst í því að lýsa flóknum persónum og hvernig þær bregðast við erfiðum aðstæðum á mjög mannlegan hátt. Hann gefur okkur þannig ómetanlega innsýn inn í sálarástand örvæntingar og vonleysis, hvernig ósköp venjulegar manneskjur geta endað í hryllilegum aðstæðum og hvernig ferðalagið á botninn lítur út. Zola skrifar auðvitað um líf og aðstæður verkamannastéttarinnar í fin de siécle París, en auðveldlega má heimfæra gagnrýni hans og lýsingar á nútímann. Við þurfum ekki annað en opna næsta fréttamiðil og lesa um t.d. ópíumfaraldurinn í Bandaríkjunum.
L’Assommoir hefur ekki verið þýdd á íslensku eftir því sem ég fæ best séð. En ég vil þó benda áhugasömum á að bókin er fáanleg (án endurgjalds) í enskri þýðingu á rafrænu formi hjá Project Gutenberg.
Jóhann Helgi Heiðdal