Saga Guðrúnar: Svikamyllan

Guðrún Sögur

Um mitt sumar flutti ég frá Íslandi til Danmerkur með fjölskyldu minni. Maðurinn minn er iðnaðarmaður og ég er kennari. Það var ekki auðveld ákvörðun að fara. Við fórum fjögur út en tvö stjúpbörn mín urðu eftir heima hjá móður sinni. Þau höfðu fram að því varið tíma sínum að mestu jafnt hjá okkur og mömmu sinni. Mér fannst enn fremur sárt að fara frá mömmu sem er farin að eldast og orðin sjúklingur, hún getur til að mynda ekki komið í heimsókn til okkar án aðstoðar.

Ég hef áður búið úti í heimi, þegar ég var ung, barnlaus og þyrst í ævintýri. Það var gaman og ég upplifði dásamleg ævintýri en Ísland var alltaf í huga mér og hjarta, ég saknaði fólksins míns, gömlu góðu vinkvennanna, systkina og frændsystkina. Ég saknaði fjallanna, Tjarnargötunnar, Grasagarðsins, Laugarnestanga og sundlauganna. Ég saknaði þess að tala málið mitt og að hitta gamla kunningja á hverju götuhorni. En hvers vegna var ég þá að fara aftur?

Kvíðahnútur verður til

Ég var alkomin heim haustið 2012, fann mér leiguhúsnæði, íbúð sem ég deildi með öðrum. Sú íbúð fór á sölu sumarið 2013 og seldist um haustið. Þá hafði ég kynnst manninum mínum og hann var fluttur inn með mér. Um sumarið hafði ég greinst með sjúkdóm og átti að fara í aðgerð með haustinu. Við leituðum logandi ljósi að annarri íbúð, leiguverð hafði hækkað frá því ég hafði verið að leita sumarið áður. Kvíðahnútur varð til. Ég velti því fyrir mér að sennilega væri betra að kaupa bara íbúð. Kærastinn var því miður skuldugur, var tímabundið atvinnulaus og að koma úr dýru námi sem hann hafði ekki lokið sökum fjárhags. Sjálf var og er ég alveg skuldlaus, búin að borga upp námslánin mín fyrir nokkru og hef aldrei átt neitt né skuldað nokkuð. Ég ætlaði því að kaupa íbúðina ein og fá ættingja til að hjálpa með útborgun, það var reyndar ekki auðsótt því ég kem ekki af efnafólki. Faðir minn er löngu látinn og eins og áður sagði er mamma aldraður sjúklingur. Mamma á samt sína íbúð og sagðist eiga smávegis pening og geta svo tekið lífeyrissjóðslán fyrir því sem uppá vantaði. Ég gerði tilboð í tvær íbúðir en var yfirboðin í þær báðar.

Kvíðahnúturinn stækkaði. Íbúðarverð hækkaði á ógnarhraða. Loks fréttum við af íbúð sem var til leigu fyrir nokkuð sanngjarna mánaðarleigu, 150 þúsund á mánuði, tveggja mánaða leiga í tryggingu. Við stukkum á íbúðina, fluttum inn í desember 2013 og borgðuðum leigu af báðum íbúðunum í mánuð til að tryggja okkur hana, jafnvel þó einn hængur væri á. Íbúðin var hluti af dánarbúi og erfingjarnir hugðust selja hana næsta sumar. Þess vegna var líka leigan svona lág. En þetta var skárra en að enda á götunni og ástandið hlaut að fara að lagast. Ekki gat íbúðaverð hækkað endalaust!

Leigjandi á nálum

Ég varð svo ólétt vorið 2014, nokkuð óvænt í kjölfar veikindanna og aðgerðarinnar. Íbúðin fór á sölu, tímabundið, með tilheyrandi tilstandi fyrir heimilisfólk. Hinir og þessir koma að skoða, taka þurfti myndir og svo framvegis. Eitthvað gekk salan hægt og ferlið fjaraði út, án þess að það væri talað um það beint. Við vorum sem sagt alltaf svona hálfvegis með það hangandi yfir okkur að við myndum þurfa að flytja. Þegar maður er í þeirri stöðu, fer maður ómeðvitað að passa sig að rugga ekki bátnum. Þótt eitthvað bili eða hlutirnir séu ekki eins og þeir eiga að vera – þá er maður ekkert að ónáða leigusalann því maður vill ekki styggja hann. Maður bara borgar sína leigu möglunarlaust fyrsta hvers mánaðar. Ég tek það samt fram að þessir leigusalar voru besta fólk og ég hef ekkert uppá þá að klaga.

Barnið fæddist stuttu fyrir jól og nokkrum dögum seinna hringdi einn eigenda húsnæðisins í mig til að segja mér að íbúðin færi á sölu eftir áramótin. Kvíðahnútur óx. Ég var komin með lottóþráhyggju, það var eina leiðin sem ég sá útúr þessari stöðu. Einhver sagði mér að það væru bara fátækir sem keyptu lottó, „aukaskattur fyrir aumingja“ kallaði hann það. Íbúðin seldist sumarið 2015 en við vorum svo heppin að nýir eigendur vildu halda okkur sem leigjendum í ár, leigan hækkaði bara um nokkra tíuþúsundkalla. Ég var alltaf að skoða fasteignaauglýsingar og skoðaði einhverjar íbúðir með það í huga að gera tilboð en þær seldust jafnharðan og jú, verðið hélt bara áfram að hækka og hækka.

Engar leiguíbúðir að finna

Vorið 2016 var svo komið að því að flytja úr íbúðinni sem hafði verið heimili okkar í tvö og hálft ár. Allan tímann sem við bjuggum þar vorum við alveg að fara að flytja svo einhvern veginn höfðum við aldrei komið okkur almennilega fyrir og aldrei slakað alveg á og fundist við mega eiga heima þar. Þarna var kærastinn minn farinn að tala mjög fyrir því að við myndum flýja land. Kjaramál kennara voru í upplausn eins og svo oft áður, álagið í vinnunni minni var alltof mikið, ég þurfti fyrirleitt alltaf að vinna um helgar og oft á kvöldin og vinnuaðstaðan var líka léleg. Kvíðahnúturinn varð enn stærri.

Ég var auk þess aftur orðin ólétt, alls ekki planað, eigilega hálfgert sjokk. Ég vildi ekki fara úr landi í óvissuna í útlandinu ólétt. Blússandi góðæri á Íslandi, almenningur aldrei haft það betra en við um það bil að lenda á götunni með þrjú börn og eitt í bumbu. Nú var það ekki bara að verðið væri svimandi hátt hvort sem var á leiguhúsnæði eða á íbúðum til kaups, það var hreinlega engar leiguíbúðir að finna. Við skoðuðum á þessum tíma að kaupa húsnæði úti á landi en fundum ekkert sem hentaði okkur.

Skilningsleysi í Velferðarráðuneytinu

Á þessum tímapunkti hringdi ég í velferðarráðuneytið því ég vildi fá að ræða þessi mál við einhvern innan ráðuneytisins. Það var eins og fólkið þar skyldi ekki erindi mitt. Ég var þráspurð hvort ég vildi sækja um félgslegt húsnæði. Eins og það lægi einhverstaðar á lausu. Nei, ég þurfti ekki félagslegt húsnæði, við vorum tvær fyrirvinnur með ágætis menntun og starfandi á okkar sérsviðum.

Það þarf einfaldlega að vera til húsnæði í þessu landi fyrir venjulegt fólk, á verði sem er í einhverju samhengi við laun almennra launþega. Mér hafði á þessum tíma svo oft fundist ég vera föst í svikamyllu. Ég gat ekki keypt húsnæði af því ég átti ekki nægan pening og ekki fjársterka foreldra, gat í raun ekki leigt lengur því leiguverðið var orðið svo hátt, gat aldrei lagt fyrir því allir peningarnir fóru í húsaleigu. Ég var á harðaspretti í hamstrahjólinu. Öll þessi uppbygging í kringum okkur en hvergi íbúðir fyrir ungt fjölskyldufólk.

Eins lengi og okkur hentar

Það rofaði loksins til hjá okkur þegar gamall skólabróðir auglýsti á facebook sína íbúð til leigu í ár. Ekki draumastaðan, en betra en ekkert. Við fluttum í risíbúðina hans 1. júní. Borguðum aftur leigu á tveimur stöðum í einn mánuð til að missa ekki af íbúðinni og stóðum í flutningum á háannatíma í kennslunni, ég ólétt og með 18 mánaða orkubolta. Það var erfitt, en mikið vorum við fegin að hafa samastað fram yfir fæðingu barnsins. Í byrjun september 2016, gengin rúmar 30 vikur, fékk ég svo fyrsta ofsakvíðakastið mitt og endaði inná Bráðageðdeild. Kvíðahnúturinn var orðinn svo stór að ég gat ekki undið ofan af honum hjálparlaust og ég er ennþá að takast á við hann.

Þannig vann íslenski húsnæðismarkaðurinn „debatinn“ fyrir manninn minn um það hvort við skyldum búa á Íslandi eða í Skandinavíu. Ég gat einfaldlega ekki lengur sagt nei. Það var ekki pláss fyrir mig og mína á Íslandi, enginn samastaður, ekki í nein hús að venda, bókstaflega.

Nú sit ég í nýja húsinu okkar, í nýju landi. Við leigjum af traustu leigufélagi á sanngjörnu verði og fáum meira að segja húsaleigubætur! Í öllum húsunum í kringum okkur eru barnafjölskyldur. Við erum enn að koma okkur fyrir, það liggur ekkert á. Við verðum hér eins lengi og okkur hentar.

Guðrún
Guðrún vill ekki skrifa undir fullu nafni. Myndin er ekki af henni.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram