Starfsgetumat og réttindabarátta öryrkja
Pistill
23.09.2017
Sósíalistaflokkurinn gekkst fyrir fundi um fyrirhugað starfsgetumat öryrkja með yfirskriftinni „Umbætur eða atlaga“ fyrr í vikunni. Þakka ber það frumkvæði flokksins að taka þessi mál á dagskrá með svo afgerandi hætti en ég er ekki alveg sáttur við hvað kom út úr honum, eins og á við um fleiri. Kröftugar athugasemdir voru gerðar hér á þessum vettvangi við ályktun sem samþykkt var í lok fundar og sjálfur varð ég hálfmiður mín við að lesa hana. Eftir að hafa andað djúpt hef ég komist að þeirri niðurstöðu að hún hljóti að vera á misskilningi byggð, skrifuð og kvittað upp á hana af góðum hug en án þess að gæta nægilega að því hvað hún raunverulega þýðir. Þess vegna set ég í þessa langloku og nota um leið tækifærið til að ræða almennt um réttindabaráttu öryrkja.
Það er skylda og markmið sósíalista að taka þátt í kjarabaráttu og annarri réttindabaráttu undirsettra á öllum sviðum, og þannig er ég viss um að ályktunin hafi verið hugsuð; að styðja við bakið á öryrkjum á þeirra forsendum. Gallinn er sá að öryrkjar kæra sig ekki endilega um þann stuðning sem ályktunin hverfist um og kristallast í þessari setningu í lokin:
„Að innleiðing starfsgetumats, komi til þess, verði studd með sérstökum og viðeigandi opinberum aðgerðum til að koma til móts við þarfir öryrkja á vinnumarkaði.“
Mér finnst þetta hljóma svipað og ef sósíalistar féllust á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu ef hið opinbera gæti þess bara að koma til móts við þarfir sjúklinga.
Þetta er ótæk nálgun.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ), eins og önnur valdalaus og áhrifalítil samtök án verkfallsvopns, þarf oft að stunda taktíska varnarbaráttu, jafnvel sér þvert um geð. Dæmi um það er skýrsla samtakanna frá liðnu ári um starfsgetumatið, en fundurinn snerist að miklu leyti um þá skýrslu og sömuleiðis ályktunin sem samþykkt var.
Skýrsla ÖBÍ er lögð fram í nauðvörn vegna þess einbeitta ásetnings stjórnvalda (og raunar flestra flokka á þingi) að koma hér á starfsgetumati hvort sem öryrkjum líka það betur eða verr. Þegar ÖBÍ sagði sig úr vinnuhópi um starfsgetumatið í fyrra, þar sem augljóst var að ekkert tillit átti að taka til þeirra heldur svínbeygja þá til að samþykkja það sem að þeim er rétt, var þeim illilega hegnt. Og hér er nauðsynlegur örlítill útúrdúr til útskýringar.
Öryrkjar höfðu þá ekki í langan tíma fengið bætur sínar hækkaðar, þrátt fyrir talsverða hækkanir í samningum launamanna (sem í sjálfu sér var lögbrot). Stjórnvöld gerðu dálitla bragarbót á því en með svo óskammfeilnum hætti að engum gat dulist að með aðferðinni átti að kúska öryrkja til hlýðni. Hækkunin var sett inn sem sérstök heimilisuppbót sem skerðist krónu á móti krónu þannig að niðurstaðan varð sú að þeir öryrkjar sem þó eiga einhverja möguleika á að bæta kjör sín með dálítilli aukavinnu voru sviptir þeim mannréttindum (þeir sem það geta ekki eru háðir ættingjum sínum, vinum og hjálparsamtökum til að komast af).
Núna er málum því hagað þannig að af hverjum 50.000 kr. sem öryrki vinnur sér inn til að reyna að lifa af mánuðinn koma aðeins 10.000 kr. í hans hlut vegna skerðinga og skatta. Nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn reyndu eitthvað að malda í móinn og kröfðust skýringa á þessu. Það var ekki fyrr en rétt fyrir atkvæðagreiðsluna sem pirraður Bjarni Ben. hreytti út úr sér að þar sem öryrkjar vildu ekki samþykkja starfsgetumatið yrði þetta að vera svona. Svo yrði bara að sjá til hvort þeir sæju ekki að sér. Dulin hótun sem lá í loftinu var orðin að enn einu níðingsverki auðvaldsins. Þetta sýnir í hvaða stöðu öryrkjar, ÖBÍ og forystumenn þess eru. Þeim er einfaldlega gert að hlýða annars hafa þeir verra af – og ekkert hafa þeir verkfallsvopnið eins og áður segir. Fjöldi þingmanna fór í pontu og lofaði að þessu yrði kippt í liðinn eftir áramótin en enginn hefur minnst á þetta síðan og öryrkjar lepja dauðann úr skel sem aldrei fyrr.
Ég vil því ekki áfellast forystu ÖBÍ fyrir skýrsluna þó að taka megi undir að hún sýni ákveðna „linkind“, eins og María Pétursdóttir orðaði það (og ég get tekið undir flest það sem hún hefur sagt um þetta mál á þessum vettvangi á undanförnum dögum). Fyrst og fremst er um vanmátt að ræða. Öryrkjar og samtök þeirra njóta einskis stuðnings þeirra sem með valdið fara, þvert á móti, og neyðast því oft til að haga baráttu sinni á þann veg að reyna að minnka skaðann – benda á hvernig sníða má af það allra versta. Það var það sem þessi skýrsla snerist um. En það þýðir alls ekki að þær tillögur séu öryrkjum hugnanlegar og heldur ekki forystu þeirra.
Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, hefur líka tekið af öll tvímæli um það, eins og þegar hún brást við grein félaga okkar, Steindórs J. Erlingssonar, sem bar yfirskriftina „Starfsgetumat, nýfrjálshyggja og félagslegt réttlæti“ og allir ættu að lesa. Á Facebook sagði hún orðrétt 25. mars sl.:
„Ég fagna öllum þeim sem leggjast á árarnar með ÖBÍ að vinna að bættum lífskjörum örorkulífeyrisþega. Starfsgetumat er EKKI lausn við neinu af því sem örorkulífeyrisþegar nú búa við. Það þarf að gera svo margt annað áður. Bæta kjör, draga úr skerðingum, tryggja að allir fái notið þeirra réttinda sem eru til í kerfinu og svo margt fleira!!“
Nákvæmlega!
En hvað er svona slæmt við starfsgetumat? Er því ekki ætlað að styðja öryrkja út í lífið og um leið að gera þeim kleift að bæta kjör sín og lífsgæði?
Jú, það er sögð ætlunin.
En reyndin er sú að þetta er fyrst og fremst tilraun til að fækka öryrkjum sem eru þó færri hér en á hinum Norðurlöndunum og mikil fjölgun þeirra undanfarin ár ekkert annað en mýta. Þeim verður gert að sanna veikindi sín og sannfæra skrifstofufólk (eins og túnaðarlæknirinn minn hjá lífeyrissjóðnum kallaði það um leið og hann fordæmdi starfsgetumatið sem aðför að veiku fólki og vanvirðingu við læknastéttina) um „aumingjaskap“ sinn – læknisfræðileg úttekt mun ekki duga til. Ef skrifstofufólkinu finnst að öryrkinn geti alveg unnið, hvað sem læknirinn hans segir, þá ber honum að gera það. Það er þó ekkert sem bendir til þess að atvinnurekendur séu tilbúnir til þess að ráða til sín öryrkja með þeim sveigjanleika sem þarf. Og þeir sem verða þó svo heppnir að fá vinnu við hæfi verða sem fyrr fastir í sömu fátæktargildrunni – þar sem þeir ná ekki að hefja sig upp fyrir bæturnar vegna skerðinga.
Þeir sem ráða svo ekki við vinnuna eiga ekki afturkvæmt heldur lenda á atvinnuleysisbótum (sem nú er búið að stytta) þar sem hamast verður áfram á þeim að finna aðra vinnu. Og þegar þeir missa réttinn til þeirra verður þeim vísað á sveitarfélögin. Þeir sem hafa einhvern tímann þurft að reiða sig á framfærslu sveitarfélags vita að þá er búið að senda þá til helvítis. Munið líka að öryrkinn er oftar en ekki í sinni stöðu ævilangt, ekki tímabundið eins og oft á við um þann atvinnulausa eða sjúkling sem fellur um skeið út af vinnumarkaði en nær svo bata.
Hlutskiptið sem á að bjóða öryrkjum upp á með starfsgetumatinu er ekkert annað en hryllingur þar sem þeir munu ekkert hafa um eigið líf að segja en skrifstofumenn út í bæ allt. Það er því ekki að ástæðulausu sem mikill kvíði hefur grafið um sig hjá fjölda öryrkja vegna starfsgetumatsins, ekki síst hjá geðsjúkum, enda sýnir reynslan í öðrum löndum að það eru þeir sem verða fyrstu fórnarlömb þess og fjölmennasti hópurinn. Sem getur endað með dauða, enda sýnt fram á með rannsóknum að sjálfsvígum hefur fjölgað marktækt hjá þessum hópi í þeim löndum þar sem starfsgetumat hefur verið tekið upp (sjá t.d. grein Steindórs J. Erlingssonar í Fréttatímanum sáluga, „Aukin atvinnuþátttaka en líka aukin sjálfsmorðstíðni“ bls. 18-19:
Það var ekki að ástæðulausu sem ég stakk þeirri hugmynd að Steindóri í vor, sem þá var nýkjörinn í stjórn Geðhjálpar, og forsvarsmönnum Bíós Paradísar hvort ekki væri hægt að bjóða þingmönnum að sjá kvikmynd Ken Loach, „I, Daniel Blake“. Vonin var að geta opnað augu þeirra þannig að þeir áttuðu sig á villu síns vegar. Það þarf steinhjarta til að brynja sig fyrir sögunni sem þessi frábæra mynd segir og fjallar um hvernig starfsgetumat hefur leikið veikt fólk í Bretlandi. Pepp-samtökin tóku að sér framkvæmdina í samstarfi við bíóið með glæsibrag og Mikael Torfason stýrði gagnlegum umræðum á eftir. Þrír þingmenn mættu; Birgitta Jónsdóttir og Halldóra Mogensen frá Pirötum og Steinunn Þóra Árnadóttir frá Vinstri grænum, auk varaþingmannsins Heiðu Bjarkar Hilmisdóttur frá Samfylkingu, aðrir ekki. Enn eitt dæmið um að þingheimur lætur sér mál öryrkja í léttu rúmi liggja, þó að ég átti mig vel á að margir áttu einfaldlega ekki heimangengt, og því ástæðulaust að benda á þá sem ekki mættu.
Stuðningur við réttindabaráttu öryrkja er því lítill og skilningurinn á þörfum þeirra og kröfum takmarkaður. Það á ekki bara við um stjórnmálin. Munið þið eftir kveðjunum sem forseti ASÍ sendi öryrkjum 1. maí? Hann sagði þennan dag vera fyrir vinnandi fólk en ekki öryrkja og útskýrði þannig að því var hafnað að formaður ÖBÍ fengi að ávarpa baráttufund verkalýðsfélaganna. Frá verkalýðshreyfingunni er því lítils að vænta eins og staðan er á þeim bænum í dag. Þegar valdastéttir samfélagsins líta á öryrkja sem afgangsstærð er ekki við öðru að búast en almenningur geri það líka – enda landlæg tortryggni í garð þeirra um endalaus bótasvik og letilíf á kostnað annarra.
Stofnunin sem á að þjónusta öryrkja setti klöguhnapp á vefsíðu sína til að fletta ofan af svikunum. Voru það ekki 2-300 milljónir sem voru svo settar í rannsókn á málinu? Það fannst einn bótasvikari úr hópi öryrkja! Hinir, sem staðnir voru að því að svíkja fé út úr stofnuninni, reyndust tilheyra öðrum þjóðfélagshópum og betur stæðum.
Það er því sótt að öryrkjum úr öllum áttum. Og nú á að beina að þeim fallbyssu með starfsgetumatinu. Framvegis skulu öryrkjar sanna aumingjaskap sinn, ella drulla sér út að vinna þó að engin sé vinnan eða viljinn í samfélaginu til að taka á móti þeim, og læknisfræðilegir úrskurðir verða vefengjanlegir.
Það kýs sér enginn hlutskipti öryrkjans. Það sem þeir þurfa eru hærri bætur, frítekjumark sem hvetur þá sem það geta til að vinna og leggja þannig sitt af mörkum, sem ég fullyrði að nánast allir vilja gera, og sveigjanleika á vinnumarkaði (sem starfsgetumatið mun ekki bæta úr). Svo þætti okkur vænt um ef við öðluðumst virðingu samborgara okkar í stað eilífrar tortryggni.
Samþykkt ályktun fundar Sósíalistaflokksins er að mínu mati mistök og þar að auki andstæð sjálfri kjarnahugsjón sósíalismans, að fólk leggi fram eftir getu og fái eftir þörfum. Ég ítreka þó að ég efast ekki um góðan hug að baki henni og þessi mistök er einfalt að laga í málefnavinnunni sem nú stendur yfir fyrir komandi sósíalistaþing í nóvember. En það snýr þá ekki síst að okkur öryrkjum sjálfum að leggja orð í belg. Því miður átti ég ekki heimangengt á fundinn en hefði átt að spýta út úr mér þessum orðum fyrir hann.
Sósíalistaflokkurinn þarf að sýna öflugan og róttækan stuðning við baráttu öryrkja og sýna þeim, samtökum þeirra og forystu að þeir standa ekki einir andspænis auðvaldsskrímslinu. Fyrsta skrefið ætti að mínu mati að vera að hafna starfsgetumatinu. Ellen Calmon, sem hefur að mörgu leyti staðið sig vel, hefur lýst yfir því að hún hyggist ekki gefa kost á sér til endurkjörs til formanns ÖBÍ. Mikið væri það nú ánægjulegt ef í röðum okkar fyndist öflugur frambjóðandi í það hlutverk sem gætti leitt baráttuna á nýjar og róttækari slóðir.
Að lokum vil ég láta þess getið að starfsgetumatið snertir ekki mig sjálfan þar sem þegar og ef kemur að endurnýjun örorkumats hjá mér verð ég orðinn 55 ára og fell því ekki undir það. Þá verður búið að afskrifa mig. En ég hef áhyggjur af þeim yngri.
Styrmir Guðlaugsson