Kona eða vélkona
Pistill
28.09.2017
Í minningu Hugh Hefner, megi hann drepast sem oftast.
– – – – –
Tíminn er allt, konan er ekkert, hún er í mesta lagi hræ tímans
Alltaf þegar ég heyri talað um vélmennavæðingu vinnunnar fyllist ég löngun, svona gamaldags OCD löngun, til að hlaupa inná klósett og kíkja í spegil: Er ég kona eða vél?
Það er vissulega fráleitt að halda vél geti sinnt því sem ég geri á daginn en miklu fráleitara þó að halda að kapítalisminn finni ekki út úr því hvernig vél geti sinnt því sem ég geri á daginn. Þess vegna, af því ég er orðin svo agalegt connoisseur á ómælanlega dýpt fjarstæðunnar í kapítalismanum, og af því að það gerðist td. einhverstaðar á leiðinni að ég varð því sem næst einungis vinnuafl finnst mér best að tékka við og við; er ég konan ég eða er ég eitthvað nýtt; sjálf vélkonan, aðeins hreint vinnuafl. Hún Automaton, Zombí (rímar við Barbí) okkar daga; ég fékk að prófa risakrísu, hið svokallaða Svokallaða Hrun, fékk að prófa blankheitin og atvinnuleysið, fékk að prófa að fara að skæla af létti af því ég gat tekið út 10.000 kall af Visakortinu rétt fyrir páskana 2011, fyrir utan Hagkaup í Spönginni, þegar ég hélt að ég ætti ekki krónu, fékk að prófa feginleikann sem fylgdi því að geta keypt páskaeggin sem ég varð að koma með heim. Síðan þá trúi ég því að allt sem geti gerst geti gerst, ég fékk að prófa niðurdífuna og nú er ég uppvakningur uppsveiflunnar, svo vélkona, svona rétt áður en heimsendir skellur á.
(Í þessum Hagkaupum 10.000 kallsins brjálaðist ég einu sinni, sennilega um svipað leyti, vegna þess að þau höfðu hengt upp fullt af Playboykanínum yfir snyrtivörudeildinni til að auglýsa ilmvötn, af því hver vill ekki ilma vel og vera eins sexý og Hugh Hefner og stúlkan sem ég klám-brjálaðist við, eins og uppvakningur Andreu Dworkin, argandi um perversjónir og niðulægingu, reyndi að róa mig og útskýra fyrir mér nútímann: Já en Playboy er ekkert bara klámblað lengur. Sem var auðvitað rétt hjá henni; Playboy er auðvitað ekki bara klám, Playboy er lífstíll, ríkur gamall kall og blankar stelpur að leita að einhverju að gera sem borgar meira en lágmarkslaun, nei, miklu meira, Playboy er spámaður aldanna að segja okkur hvernig hlutirnir verða: Allir kvenlíkamar skulu vera til sölu, hendur, píkur, haus, rass skiptir ekki máli, svo lengi sem það ríkir absolútt frelsi í viðskiptum með þessa líkama og kall fær peninginn. Amen.)
Ég er Hún Automaton, uppvakningur yfirstandandi góðæris; þeir hækka launin um 10.000 kall og húsnæðið um 20 miljónir en þeir leyfa mér í staðin að vera í fleiri en einni vinnu. Playboy er góður og ég reyni að vera þakklát; takk fyrir að hendurnar á mér og hjartað hafa verið sett í umferð á frjálsum markaði svo ég geti alltaf keypt þau páskaegg sem ég þarf að kaupa.
– – – – –
Var ég búin að segja ykkur að vinkona mín er í tveimur vinnunum og ætlar að bæta þeirri þriðju við sig? Hún er samt með háskólamenntunina sem þið eruð alltaf að þusa um.
Ég viðurkenni að hjartað í mér brast smá meira þegar ég frétti þetta, um vinnu nr. 3, sem sannar kannski að ég er ennþá konu-kona. Eða kannski afsannar það einmitt frekar? Tears in rain og svona.
– – – – –
Þú ert búin að segja það einu sinni, af hverju þarftu að segja það aftur, var kveðið forðum og ég er yfirleitt sammála.
En sjáiði til, ég er með Nördadelluna þegar kemur að stéttastríðinu, ég er með jafn agalega nördadellu og Stjórnarskrárfólkið um stjórnarskrána, ég vil ekki tala um eða hugsa um neitt nema það sem dellan skipar mér hverju sinni, blússandi, eldheit nördadellan hefur tekið sér bólfestu djúpt inní heilanum á mér þar sem hún titrar og slær, eins og stórt og feitt blóðrautt hnefalaga hjarta, hún hefur tekið allt ímyndunaraflið mitt og alla þráhyggjuna mína og -allar hefðir hinna dauðu kynslóða sem hvíla eins og martröð á heilanum mínum- og hún hefur troðið þessu inní munninn á hnefa-hjartanu sem alveg eins og Hugh Hefner í sloppnum fær aldrei nóg, hér er græðgin orðin dyggð, loksins varð ég nútímaleg og gráðug, ekkert annað skiptir lengur máli, ekkert nema næsta fix af stéttastríði, ég gef rauðu hlussunni í heilanum á mér allt sem ég á, ég get ekki talað eða hugsað um neitt annað, stéttastríð, ó stéttastríð, hvenær kemur þú?
– – – – –
Við erum hræ tímans, dreymir konu-konuna annað en vélkonuna, það er heimskuleg spurning því Konu-konan og vélkonan eru sama konan, vélkonan er aðeins næsta stig í þróun konunnar í kapítalismanum; móðir, eiginkona, hóra, norn, þræll, lessa, meyja, drusla, fórn; algjörlega nauðsynleg og risavaxin hrúga af vinnuafli:
Konan í kapítalismanum, sem hefur nú öldum saman, án þess að vera nokkru sinni spurð, leikið algjörlega ómissandi hlutverk í uppsetningu auðvaldsins á verkinu Arðránið mikla, án þess að fá nokkru sinni greitt í samræmi við unna vinnu. Aðeins örsjaldan hafa á þessu ógnarlanga sýningartímabili verið skrifaðar góðar línur fyrir Konuna og aðeins örsjaldan hefur hún fengið að vera í hlutverki þess sem Gerir, ekki þess sem eitthvað er Gert við.
Af þessum sökum er kannski ekkert mikið hægt að sakast við einfeldningana í borginni sem borga kvennastéttunum laun sem ekki er hægt að lifa af; þau hafa einfaldlega aldrei séð annað leikrit en þetta sem við lifum í, þar sem hrúgur af konu-konum eru á hlaupum alla daga og þau sjálf lifa í vellystingum og öll samskipti eru svona:
Konu-konan: Hæ, sjáðu hvað ég hef það erfitt.
Þau: Já, en sjáðu hvað við erum frjáls. Hugsaðu bara um eitthvað jákvætt. Þú ert líka rosa blörrí eitthvað, okkur finnst erfitt að horfa á þig, geturðu ekki valið að vera í betri fókus. Ok bæ.
Konu-kona, vélkona, af hverju vinnurðu svona mikið fyrir svona lítið? Af hverju ertu eins og agnarlítil kokteilkjötbolla, stjaksett af tannstöngli auðvaldsins, étin, skitin og skíturinn notaður í áburð félagslegrar endurframleiðslu á nýjum kokteilkjötbollum? Af hverju eru einkennisorðin þín Ég er Kjötbolla, sjáðu mig Étna!, en ekki Ég er Konu-kona, vélkona, verkakona, sjáðu mig Upprisna!
Ég er Vélkona, heyrðu mig Öskra!
Sólveig Anna Jónsdóttir
Konur upplifa það æ sterkar að það er engin útgönguleið nema grundvallarbreyting. En eitt er nú þegar ljóst. Óbreytt ástand gengur ekki. Hver einasta kona veit það
Selma James.
Á þessari stundu erum við eins og Lísa á taflborðinu í Undralandi; við þurfum að hlaupa eins hratt og við mögulega getum til að færast ekki úr stað
Anti-Sexism Work Group of the Boston Political Collective/Jean Tepperman
Pólitískt hlutverk Playboy er að þróa áætlun kvenhatursins sem er svo, með aðra hönd á lyklaborðinu, löguð að fjölmiðlum, jafnt til hægri sem til vinstri
Andrea Dworkin