Sjálfsblekkingar vinstrimanna

Ívar Jónsson Pistill

Það er merkilegt hvað fólk er fljótt að gleyma í pólitík. Stjórnartíð hinnar „hreinu vinstristjórnar“, var samfelld röð afhjúpana á blekkingum og goðsögnum. Stjórnarárin færðu okkur sönnun þess hversu langt frá rótum sínum í sósíalisma Samfylkingin og VG eru og hversu veruleikafirrt þau öfl eru sem fremst standa í stafni á draugagaleiðu VG og Samfylkingar.

Sósíalískar rætur

Íslenskri félagshyggju var í byrjun haldið á lofti af Alþýðuflokknum og Kommúnistaflokknum og síðan Sósíalistaflokknum sem börðust fyrir afnámi kapítatalisma á Íslandi. Þessir flokkar vildu þjóðnýta atvinnulífið að stórum hluta og afnema arðrán eignastéttanna á vinnandi alþýðu. Atvinna fyrir alla, tekjujöfnuður og öflugt velferðakerfi voru aðal baráttumálin (sjá nánar hér).

Eftir Seinni heimstyrjöldina lagði Alþýðuflokkurinn áherslu á þróun blandaðs hagkerfis í anda frjálshyggjumannsins J.M. Keynes, en hélt þó áfram á lofti þjóðnýtingarkröfunni. Helstu atvinnutækin og bankar skyldu færðir í hendur ríkis og sveitarfélaga. Alþýðubandalagið, arftaki Sósíalistaflokksins, hélt þjóðnýtingarkröfunni einnig á lofti og sama gerðu róttækir Framsóknarmenn, sem á 7. áratugnum voru fremstir þeirra sem börðust fyrir valddreifingu, beinu lýðræði og samvinnuhreyfingu. Úr herbúðum Möðruvallarhreyfingar Framsóknarmanna komu hugmyndirnar um sameiningu vinstrimanna í eina öfluga hreyfingu.

Vinstridraumar

Draumurinn um sameiningu vinstriflokkanna fór fyrir alvöru að taka á sig mynd á 8. og 9. áratugnum þegar ýmsir smáflokkar vinstrimanna og jafnaðarmanna, eins og þeir kölluðu sig, voru stofnaðir og tóku þátt í alþingiskosningum. Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið hlýddu ekki kallinu og það var ekki fyrr en undir lok síðustu aldar sem þessir tveir flokkar voru lagðir niður og meðlimir þeirra gerðu misheppnaða tilraun til sameiningar vinstrimanna, ásamt Kvennalistakonum: niðurstaðan var eins og við mátti búast tveir flokkar VG og Samfylkingin.

Sjálfsafneitun

Um aldamótin síðustu var margt breytt frá 8. áratug síðustu aldar þegar flokkarnir sem kölluðu sig félagshyggjuflokka börðust gegn arðráni og kröfðust kinnroðalaust þjóðnýtingar helstu atvinnutækja og banka, ásamt því að berjast fyrir valddreifingu, fjórðungsþingum og samvinnurekstri. Samfylkingin umhverfðist á fáum árum í nýfrjálshyggjuflokk sem barist hefur streitulaust fyrir naívri markaðshyggju, alþjóðavæðingu og inngöngu í Evrópusambandið. VG voru óþreytandi í baráttu sinni gegn nýfrjálshyggju og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), en aðgerðir VG í „hreinu vinstristjórninni“ sýndu og sönnuðu að flokkurinn var jafnvel Don Quixode fremri í orustum sínum gegn vindmyllum í stjórnaranstöðu. Í ríkisstjórn varð flokkurinn harðasti málaliði AGS, Icesave aflanna og erlendra hrægmmasjóða á ögurstundu íslenskrar alþýðu.

Það er auðvitað grátbroslegt að fylgjast með því að þegar fólk ver þessa flokka og beri jafnvel saman við baráttu sósíalista á borð við Jeremy Corbyn, Tony Benn o.fl.,  þegar annar flokkanna hefur reynst vera harðasti markaðshygguflokkurinn í landinu og hinn telur sig vera fyrirmynd í innleiðingu nýfrjálshyggjustefnu AGS á alþjóðavísu. Það er auðvitað engin tilviljun að „hrein vinstristjórn“ þessara flokka varði ekki íslenska velferðarkerfið og reisti aldrei skjaldborg heimilanna. Kjósendur á vinstri vængnum munu halda áfram að lifa í sjálfsblekkingum sínum þar til öflugri sósíalísikri hreyfingu hefur verið ýtt úr vör og kafsiglir göttótt fúafley Samfylkingar og VG.

Ívar Jónsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram