Sósíalíska bókahornið: The Condition of the Working Class in England eftir Friedrich Engels

Jóhann Helgi Heiðdal Pistill

Bókin sem ég ákvað að taka næst í þessari pistlaröð er ólík hinum að því leyti að hér er ekki um skáldskap að ræða. Verk Engels er öllu heldur fyrst og fremst félagsfræðileg rannsókn á aðstæðum verkafólks í Manchester um miðbik nítjándu aldar. Ég ákvað þó að hafa hana með þar sem ég tel hana eiga heima með hinum sem ég hef þegar fjallað um. Aðallega af tvennum aðstæðum: í fyrsta lagi skrifar Engels verkið á mjög listilegan og áhrifaríkan hátt sem gefur henni töluvert bókmenntalegt gildi. Í öðru lagi er verkið ekki einungis mikilvæg klassík sósíalískra bókmennta, heldur hefur hún enn heilmikið fram að færa í dag og því er það mikil synd hversu lítið hún er lesin af almennum lesendum – sem telja jafnvel margir að hún sé á einhvern hátt úreld eins og ég hef orðið var við.

***

Engels skrifaði bókina á árunum 1842-1844, rétt rúmlega tvítugur að aldri og á meðan að hann vann í textílverksmiðju föður síns í Manchester. Sú borg var auðvitað hjarta iðnbyltingarinnar á þeim tíma, og eru sjálfstæðar rannsóknirnar sem Engels stundaði á þessum árum – ásamt þeim tölulegu gögnum og gröfum sem hann reiðir fram – ómetanleg heimild og innsýn inn í þetta tímabil. Því það er óhætt að segja að yfirvöld þess tíma voru vægast sagt áhugalaus um aðstæður verkamanna. Bókin var fyrst gefin út í Leipzig árið 1845 og fékk lítil viðbrögð. Það var nokkuð löngu seinna sem hún fékk verðskuldaða athygli, en hún var ekki gefin út í enskri þýðingu fyrr en fjörtíu árum seinna, þá fyrst í Ameríku 1886 og svo í Englandi 1892. Hún átti sér þó strax mikilvægan aðdáanda sem hún hafði mikil áhrif á: Karl Marx, en hann las hana strax eftir fyrsta fund þeirra félaga 1844 og hafði alla tíð miklar mætur á henni.

Engels fer með lesandann í ferðalag í gegnum hverfi verkamanna og lýsir því sem fyrir augu ber. Eru þær lýsingar ekkert annað en ógleymanlegar. Húsin eru grútdrullug og óíbúðarhæf hreysi, hverfin forljót völundarhús, alls konar iðnaðarúrgangur og rusl og skítur út um allt sem leiðir reglulega til faraldra af sjúkdómum eins og kóleru, lyktin viðbjóðsleg, loftið ekki bara ógeðslegt heldur einnig mengað og stórhættulegt, sót yfir öllu, o.s.frv. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að:

„Fólkið sem býr í þessum ónýtu kofum, á bak við brotna glugga, með hurðum af hjörunum og rotna hurðarkarma, eða í dimmum og blautum kjöllurum, í ólýsanlegum skít og ólykt, smalað saman í þessar aðstæður af ásettu ráði, þetta fólk hlýtur að hafa náð lægsta tilvistarstigi mannkynsins.“

Við skulum hafa í huga að þegar Engels skrifar bókina er vinnutíminn tólf tímar, í heilsuspillandi verksmiðjum þar sem engu er skeytt um öryggi og velferð starfsmannanna. Það er ekkert atvinnuöryggi og vinnan felst ávallt í nákvæmlega sömu athöfninni við stórhættulegar vélar – vinna sem fer fram undir smásjá yfirmanns sem fylgist með hverri hreyfingu. Þessar aðstæður eiga þó auðvitað einungis við um þá sem eru svo heppnir að fá vinnu yfirhöfuð, en atvinnuleysi er uppúr öllu valdi á sama tíma og verkamönnum er bannað að mynda verkalýðsfélög. Þeir eru þannig alfarið undir verksmiðjueigendunum komnir fyrir lífsbjörgina. Hér eru börn á engan hátt undanskilin, en þau vinna einnig tólf tíma vinnudag og eru refsuð með barsmíðum ef þau standa sig ekki nægilega vel. Þeir sem komast hjá því að missa útlim eða stórslasast á annan hátt við vinnuna enda samt sem áður þó oft óvinnufærir eftir að hafa unnið við vélarnar í sömu stellingunni í mörg ár, en það er einkar sláandi þegar Engels lýsir því að það sé sjaldan sem hann gengur um götur Manchester án þess að sjá a.m.k. þrjár eða fjórar manneskjur sem þjást af einhvers konar alvarlegri bæklun.

Ef verkamaðurinn þraukar í gegnum þetta, þá fær hann fyrir laun sem duga þó varla til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni. Það er auðvitað ekkert velferðarkerfi, svo ef hann missir vinnunna þá bíður hans vítisvist fátækrarhúsanna.

Engels er afdráttarlaus í fordæmingu sinni á borgarastéttinni og kallar þá þrælahaldara. Raunar heldur hann því fram á einum stað að aðstæður verkamannanna er að sumu leyti verri en þræla þar sem það er fylgst mun nánara með þeim. Verksmiðjueigandinn stjórnar verkamanninum alveg niður í mínútur og jafnvel sekúndur og hann „borðar, drekkur og sefur samkvæmt skipunum.“

Engels vonaði að bókin myndi sannfæra borgarastéttina um að snúa baki við trúinni á frjálsan markað og taka í staðinn upp sósíalisma. Það var þó lítill séns á því. Hann lýsir á einum stað í bókinni spjalli sem hann á við fulltrúa borgarastéttarinnar. Eftir að hafa hlustað til enda á útskýringar Engels á hryllingnum sem hann hefur orðið vitni að, segir hann á móti að það sé þó peninga að hafa út úr þessu.

Engels afhjúpar í bókinni einmitt að hverfi verkamanna voru ekki allsendis óskipulögð, á bak við þau leyndist brútal lógík. Borgarastéttin lagði nefnilega mikið uppúr því að skipuleggja þau þannig að hún þurfti aldrei að reka augun í þau og aðstæðurnar sem þar var að finna. Þannig þurfti hún aldrei að verða vitni að þeim hryllingi sem hún bar ábyrgð á.

***

The Condition of the Working Class in England er lykilrit í skilningi á iðnbyltingunni og þróun hennar. Lýsingar Engels gefa okkur ómetanlega innsýn inn í þetta tímabil og er þannig mikilvæg söguleg heimild. Einnig er hún mikilvæg í sögu sósíalismans í ljósi hlutverksins sem hún spilaði í þróun hans – ekki síst áhrifin á Marx og kenningar hans.

En hún er einnig mikilvæg fyrir samtímann. Þar má nefna lýsingar Engels á gentrification, en það er ferli sem á sér svo sannarlega stað enn þann dag í dag í vestrænum borgum eins og margir fræðimenn og aðrir hafa bent á. En það mikilvægasta sem þarf að hafa í huga er að þær aðstæður sem Engels lýsir í bókinni heyra síður en svo sögunni til. Þær eru vissulega að mestu leyti horfnar úr borgum eins og Manchester og vestrænum ríkjum – þótt þær séu sums staðar ennþá að finna þar eins og nýleg rannsókn The Guardian á aðstæðum fátækra í Suðurríkjum Bandaríkjanna er til marks um. En þessi hryllingur hefur í dag að langmestu leyti verið fluttur til landa eins og Bangladesh og Kína og borgir eins og Nairobi, Lagos, Bombay, Dhaka, o.s.frv.

Jóhann Helgi Heiðdal

The Condition of the Working Class in England er fáanleg frítt í rafrænni útgáfu hjá Project Gutenberg hér.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram