Sósíalísk bíórýni: The Young Karl Marx

Jóhann Helgi Heiðdal Pistill

Miðað við framboðið síðustu ár á kvikmyndum um rithöfunda, vísindamenn og aðra hugsuði, þá kemur það svo sem ekkert mikið á óvart að einhver leikstjórinn hafi látið verða af því að gera mynd um ævi Karl Marx. Ef hægt er að gera kvikmyndir um t.d. framhjáhald Charles Dickens (The Invisible Woman, Ralph Fiennes, 2013) og ævi Emily Dickinson (A Quiet Passion, Terence Davies, 2016) þá er kvikmynd um ævi Marx engan vegin vitlaus hugmynd. Það var viðburðarríkara en margra annarra. Það er líka ekki hægt að segja að þar sé um auðugan garð að gresja, þær kvikmyndir um Marx sem gerðar hafa verið koma mest megnis frá Sóvétríkjunum eða A-Þýskalandi og eru svo gott sem ókunnugar og/eða gleymdar af vestrænum áhorfendum – réttilega að mestu leyti, en gæðin eru í besta fall vafasöm.

Kvikmyndir um heimspekinga hafa þó verið gerðar áður með fínum árangri, sérstaklega núna nýlega. Þar má helst nefna ágætis mynd þýsku leikstýrunnar Margarethe von Trotta um Hönnu Arendt (Hannah Arendt, 2012). Sú mynd átti hrós skilið fyrir hvernig hún fókusaði á einn afdrifaríkan atburð í ævi persónunnar sem varpaði þó áhugaverðu ljósi á ævi hennar og hugsun í heild. Ásamt því hvernig forðast var melódrama og auðveldar, klippt og skornar lausnir – eitthvað sem oftar en ekki er tilfellið í Hollywood framleiðslum.

Það má segja að það sama sé mest megnis uppi á tengingnum í mynd Raoul Peck, The Young Karl Marx (Der Junge Karl Marx). Hún er a.m.k. engu síðri, ef ekki betri. Peck er auðvitað einstaklega vel að þessu verkefni kominn. Ekki aðeins vegna þess að hann hefur næma og persónulega þekkingu á kúgun, rasisma og alþjóðlegri pólitískri baráttu (hann fæddist í Haítí og ólst upp í Kongó), heldur hefur hann einnig áður gert tvær frábærar pólitískar kvikmyndir: Lumumba (2000) sem fjallar um eina helstu frelsishetju Kongó, og sérstaklega hina mögnuðu heimildarmynd um ameríska rithöfundinn James Baldwin I Am Not Your Negro (2016) sem er raunar bara tiltölulega nýkomin út. Sú mynd er ekkert annað en skylduáhorf, en hún vakti þónokkra athygli og vann fjöldann allan af verðlaunum – var m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Peck er þannig á vissan hátt á kunnuglegum slóðum. The Young Karl Marx er þó mynd sem sýnir aukinn metnað hans sem kvikmyndagerðamaður. Þó ekki væri nema bara fyrir sakir sögulega tímabilsins. En að ætla að setja fram 19.öldina, hvað þá þrjú ólík lönd og tungumál eins og hér, með sannfærandi hætti kvikmyndalega er eitthvað sem krefst mikillar undirbúningsvinnu og hárnákvæms fókus á smáatriði ef vel á að fara – sem það gerir einmitt ekki nærri því alltaf, jafnvel hjá mikils metnum leikstjórum. Og þá erum við oft að tala um persónur sem eru ekki nálægt því eins flóknar og erfiðar (og umdeildar) og Karl Marx.

Myndin einblínir einungis á líf Marx (August Diehl) á tímabilinu 1843-1848 þegar hann er á þrítugsaldri. Hún hefst á því að prússnesk yfirvöld loka tímaritinu sem hann var þá að skrifa fyrir og hann flytur til Parísar með eiginkonu sinni, Jenny von Westphalen (Vicky Krieps). Við fylgjumst einnig með Friedrich Engels (Stefan Konarske), sem er þá nýbúinn að skrifa tímamótaverk sitt The Condition of the Working Class in England, og hvernig eitthvað frægasta samstarf hugmyndasögunnar byrjaði og blómstraði. Myndin fer svo nokkuð vel í hvernig þeir byrja að láta til sín taka á pólitíska sviði Evrópu þess tíma, einna helst deilur og átök þeirra við Proudhon, Grün og Weiterling. Myndin endar svo þegar þeir ljúka við Kommúnistaávarpið, við upphaf hinna miklu byltinga sem skóku Evrópu árið 1848.

Sá Marx sem Peck setur fram í myndinni er augljóslega afsprengi ítarlegrar rannsóknar- og undirbúningsvinnu. Hann kemur heim og saman við þá persónu sem flestir fræðimenn og ævisagnaritarar hans draga upp: en hann var fyrst og fremst óbilandi ástríðufullur vinnuþjarkur sem – þrátt fyrir að geta sýnt sínum nánustu kæruleysi og jafnvel grimmd á tíðum – var fjölskyldumaður út í eitt. Hann elskaði konu sína og börn út af lífinu, og það sem samtímamenn hans sammælast um er hversu ótrúlega barngóður hann var. Þegar hann var ekki á kafi í sjúklega krefjandi lestrar-og skriftrarlotum sínum, var ekkert sem hann naut meira en að leika við börnin sín. Eitthvað sem vakti nokkra athygli þar sem það var síður en svo algengt meðal feðra á þeim tíma.

Það ásamt því hvernig myndin fer nokkuð ítarlega í deilur hans og Engels við helstu leiðtoga vinstri hreyfinga þess tíma minnir mikið á ævisögu Jonathan Sperber sem kom út fyrir nokkrum árum og vakti þó nokkra athygli: Karl Marx: A Nineteenth-Century Life. Ég held að það sé óhætt að giska á að hún hafi haft töluverð áhrif á myndina. Nú er sú bók alls ekkert alslæm, henni tekst vel upp í að staðsetja hugsun Marx innan pólitískra stefna og hugmyndastrauma Evrópu þess tíma – ásamt því að hann fer mjög ítarlega í deilurnar við Proudhon, Bakunin o.fl innan verkalýðs- og vinstri hreyfingarinnar. Galli bókarinnar er þó sá fátæklegi skilningur sem Sperber sýnir á heimspekilegum undirstöðum hugsunar Marx ásamt mikilvægi hennar fyrir hugmyndasöguna. Hann ræðir stjórnmála-hagfræðilegu undirstöðurnar (Smith, Ricardo, o.fl.) nokkuð vel, ásamt sósíalistahreyfingu þess tíma og átökin innan hennar, en annað (sérstaklega Hegel) er eitthvað sem hann virðist hafa lítil tök á og gerir því mest megnis lítið úr þeim áhrifum og hugmyndum. Hann gengur raunar alltof langt í að kyrrsetja hugsun Marx á 19.öld, talar stundum eins og hún hafi ekkert mikilvægi í dag.

Það sama er þó ekki uppá teningnum í mynd Peck. Þetta er auðvitað kvikmynd og því ósköp takmarkað hversu ítarlega hægt er að fara í flóknar heimspekilegar deilur og hugmyndir. Myndin tekst þó ótrúlega vel upp að því leyti, meira en maður hefði búist við: hún fer út í gagnrýni Marx á Hegel og ungu hegelistana, áherslu hans á efnishyggju og kapítalisma sem sögulega skilyrt fyrirbæri o.fl. Hann var þó auðvitað ekki búinn að þróa nærri því allar þær hugmyndir og kenningar sem hann er hvað þekktastur fyrir þegar myndin gerist, Das Kapital er enn nokkuð langt í framtíðinni. Leikstjórinn gat þó ekki staðist að gera frægu setningu hans úr Tesunum um Feuerbach: „Heimspekingar hafa hingað til aðeins túlkað heiminn, markmiðið er að breyta honum“ að full dramatískri og hálf-klisjukenndri senu, kjánalegri myndi ég raunar segja. En í myndinni er þetta eitthvað sem rennur upp fyrir honum eftir að hann og Engels hittast í fyrsta skiptið, fara á fyllerí og enda á eins konar „trúnó“.

Það er þó auðveldlega fyrirgefið, þar sem Peck sýnir ótrúlega áhugaverð og frumleg stílbrögð að öðru leyti. Mynd um Marx vekur strax upp eftirvæntingar um hryllilega kúgun og líferni verkamanna á 19.öld – eitthvað sem Peck streitist á móti og ákveður frekar að opna myndina á senu sem gefur til kynna fyrstu rannsókn Marx sem blaðamaður, sem ferill hans byrjaði í rauninni á: þjófnaði á viði í Rínarlandi. Þessi ákvörðun leikstjórans er frábær á tvennan hátt: hún gefur myndinni mjög sannfærandi blæ strax í upphafi, lýsir yfir að áhorfandinn geti verið viss um að hér er kvikmyndagerðarmaður sem þekki Marx, ásamt því að gefa til kynna efnislegar undirstöður hugsunar hans og helstu hugtök og greiningar (t.d. vinna, eign, arðrán o.fl.) á mjög sniðugan kvikmyndalegan hátt. Virkilega vel gert.

Annars eru alltaf vissar hættur þegar slík mynd er annars vegar: fyrir hvern er hún eiginlega? Þeir sem þekkja vel til Marx, hvað þá eldheitir fylgjendur hans, eru auðvitað líklegir til að kvarta yfir ýmsum ákvörðunum, breytingum og yfirsjónum leikstjórans. Kannski einna helst að myndin fari ekki nógu vel og ítarlega í hugsun Marx, gerir henni ekki nægileg skil og kynni hana ekki nógu vel. Áhorfendur sem lítinn áhuga eða þekkingu hafa á Marx gætu hins vegar fundist hún heldur óspennandi, en þrátt fyrir frábæran leik og magnaða kvikmyndatöku á köflum, þá er hún þegar allt kemur til alls frekar hefðbundin „period“ drama. Það er svo ekki erfitt að ímynda sér hvernig helstu mótbárur andstæðinga hans gætu hljómað.

En ég myndi einmitt segja að The Young Karl Marx tekst með framúrskarandi hætti að forðast allar helstu gryfjurnar þar og Peck reiðir fram mynd sem ætti að höfða til sem víðasta áhorfendahóps. Gildi hennar liggur ekki bara í hvernig hún gerir Marx að manneskju – eftir að hafa verið álitinn Guð eða illmenni alla 20.öldina og jafnvel enn í dag af mörgum. Manneskju sem var langt frá því að vera fullkomin en hafði þó vissa eiginleika sem gerðu það að verkum að hann varð að einum mikilvægasta og áhrifamesta hugsuði mannkynssögunnar. Ásamt fórnunum sem hann þurfti að færa, en helsti galli myndarinnar er kannski hversu lítið sambandi hans og Jenny er gert skil. Engels og Mary Burns (Hannah Steele) raunar einnig, en þær eru frábærlega leiknar og gríðarlega áhugaverðar persónur sem hefðu mátt fá meira vægi.

Fyrir utan það liggur gildi myndarinnar í nokkuð sögulega nákvæmri framsetningu á sósíalistahreyfingu og verkalýðsbaráttu þess tíma. En hún fólst auðvitað að miklu leyti í gífurlega miklu spjalli, rökræðum, deilum og rifrildum: eitthvað sem Peck tekst að mínu mati að gera ótrúlega spennandi fyrir nútímaáhorfendur. Mig grunar að það sé eitt af markmiðum leikstjórans með því að gefa þessa mynd út á þessum tímapunkti: að hjálpa til við að blása lífi í róttæka vinstri pólitík í dag með því að sýna hvernig hún var einu sinni ástunduð og þá ástríðu sem bjó þá fólki í brjósti. Veita áhorfendum í dag þannig innblástur. Kvikmyndalega tókst Peck vel upp, en hér er um fínustu mynd að ræða sem óhætt er að mæla með. En sósíalistar verða að dæma fyrir sig hvort honum tókst upp með hitt.

Jóhann Helgi Heiðdal

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram